Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 15:43:17 (2928)

2001-12-11 15:43:17# 127. lþ. 48.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, PHB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[15:43]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Á þskj. 471 er brtt. frá mér þar sem ég legg til að tekjuskattur fyrirtækja verði lækkaður í 11%.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði af hverju ég veldi 11% og af hverju ég færi ekki niður í núll. Ég rökstuddi það reyndar með hliðsjón af þeirri sérstöku stöðu að þar sem ríkissjóður er að selja þrjú fyrirtæki að verðmæti 60--70 milljarða, þá mundi borga sig fyrir ríkissjóð að fara niður í 0% í þessari sérstöku stöðu vegna þess að ríkissjóður græðir það mikið á öðrum endanum með hækkun þessara hlutafélaga að það borgar tap ríkissjóðs í fjögur og hálft ár fyrir utan öll þau óskaplegu áhrif sem slíkt frelsi hefði á innflutning fyrirtækja til landsins, mikla fjölgun á hátekjustörfum og tekjur ríkissjóðs í gegnum þau störf þannig að ég rökstuddi að lækkun þessa skatts gæti verið mjög skynsamleg og ég fer ekkert ofan af því, herra forseti.

Af hverju ég valdi 11% fór ég yfir í fyrri umræðunni. Ég taldi að það væri pólitískt framkvæmanlegt gagnvart Evrópusamstarfinu og öðrum erlendum löndum því að þau mundu ekki telja það nægilegt tilefni til að líta á Ísland sem skattaskjól. Auðvitað koma inn í þetta dæmi hlutir eins og skattaleg meðferð arðs á milli landa vegna erlendra fjárfesta.

[15:45]

Ég bað um að hv. efh.- og viðskn. færi í gegnum það milli 2. og 3. umr. að fá það á hreint frá sérfræðingum á þessu sviði, þeim aðilum sem hafa metið t.d. Landssíma Íslands, hvort þessar hugleiðingar mínar væru réttar. Það var ekki gert og þykir mér það nokkuð undarlegt þar sem ég hef haldið því fram að ríkissjóður gæti hagnast um 6 milljarða, herra forseti, með því að færa skattinn niður í 11%. Það eru 6 milljarðar sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ætti að gleðjast yfir. Það væru 6 milljarðar í velferðarkerfið sem við báðir höfum mikinn áhuga á að styrkja eða til að borga niður skuldir ríkissjóðs erlendis, sem eru ekkert annað en skuldir barnanna okkar. Einhvern tíma verða þær greiddar. En þetta var ekki gert og þykir mér miður að menn skuli horfa fram hjá slíkum hagnaði ríkissjóðs.

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði einnig um öfgar og sagði mig á öðrum endanum, jaðrinum. (Gripið fram í.) Hann sagði ekki öfgar, nei, en hann talaði um að við værum hvor á sínum endanum, ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson. (Gripið fram í.) Það má vel vera. En varðandi hugleiðingar mínar --- ég er ekki síður baráttumaður fyrir skilvirku velferðarkerfi. Ég tel það nauðsynlegt í nútímaþjóðfélagi. En í þessari sérstöku stöðu mundi ríkissjóður hagnast samkvæmt útreikningum mínum. Það er því ekki vísindaleg ástæða fyrir þessum 11% heldur pólitísk ástæða.

Herra forseti. Þessi umræða er öll dálítið merkileg. Við erum að ræða skattalagafrv. Sérhver breyting á því þýðir breytingu á fjárlagafrv. Ég sé ekki, herra forseti, og verð að gera athugasemd við störf forsætisnefndar, hvernig hægt er að ræða skattalagafrv. eftir að fjárlagafrv. hefur verið samþykkt. Í mínum huga eru fjárlög lög og ekki hægt að breyta þeim. Það er búið að samþykkja fjárlög. Ef við ætlum að samþykkja núna breytingu, t.d. þessa tillögu mína, mundi það breyta fjárlögunum og það er varla hægt. Þá verður að taka fjárlögin upp aftur. Ég sé því ekki alveg hvernig hægt er að hafa þessa umræðu í dag. Hún er a.m.k. mjög undarleg. (Gripið fram í.)

Síðan hefur annað komið til. Tvö tilboð hafa borist í Landssíma Íslands um kaup á 25% hlut. Þau munu ekkert hækka þó að þessir skattar yrðu lækkaðir. Þeir tilboðsgjafar sem þar eru á ferðinni mundu eingöngu gleðjast ef skattarnir yrðu lækkaðir. Þessi óseldi hluti sem ég talaði um, 60--70 milljarðar, lækkar niður í 50--60 milljarða við þessi tvö tilboð. Þessi sérstaka staða sem ég var að nefna er að fjara út, herra forseti. Þess vegna er ekki lengur um það að ræða að þessi tillaga gefi velferðarkerfinu eins mikla fjármuni og hún hefði ella gert.

Auk þess geri ég ráð fyrir því að flokkssystkini mín, margir hv. þm., hefðu ekki voðalega gaman af að fella þessa tillögu. Með tilliti til sálarheillar þeirra og þeirra atriða sem hér hafa komið fram, þ.e. tilboð í Landssímann og með tilliti til þess að fjárlög eru þegar samþykkt, kalla ég þessa tillögu aftur.