2001-12-11 16:27:11# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[16:27]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef þetta væri eina áhyggjuefni byggðamála, að mér hafi ekki alltaf tekist að leggja fram réttar skýrslur á réttum tíma, værum við í góðum málum verð ég að segja, hæstv. forseti. Ég tel að þetta sé kannski ekki aðalatriði málsins en ég virði hv. þm. fyrir að hafa farið í þessa söguskoðun.

Sannleikurinn hvað varðar framkvæmd byggðaáætlunar er sá að hún var alllengi til umfjöllunar hjá stjórn Byggðastofnunar og þegar hún var endanlega lögð fram í maí í vor reyndum við að koma á dagskrá umræðu um framkvæmd byggðaáætlunar en það tókst ekki á síðustu dögum þingsins, og þannig fór það bara.

Þegar hv. þm. spyr mig hvort ég sé ánægð með framkvæmd byggðaáætlunar skulum við vera meðvituð um að margt hefur tekist bærilega hvað hana varðar og ég taldi upp í ræðu minni áðan. Annað hefur hins vegar ekki gengið eins vel en ég tel að í sjálfu sér, miðað við það sem lagt var upp með, hafi mjög margt náðst fram.

Svo er það nýja byggðaáætlunin sem núna er í vinnslu og því miður ekki komin fram. Ég ætlast til að þar verði tekið mjög skipulega á málum og mér sýnist það miðað við þá kynningu sem ég hef fengið. Ég vænti mjög mikils af þeirri byggðaáætlun. Ég geri mér líka grein fyrir því að hún kostar peninga og samstaða þarf að nást um að veita fjármagn í þennan málaflokk. Ég mun svo sannarlega ekki liggja á liði mínu í því sambandi.