2001-12-11 16:32:51# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[16:32]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal viðurkenna að ég hef ekkert sérstaklega verið að velta þessu fyrir mér og tel það ekki vera neitt aðalatriði í sambandi við byggðamál hvernig við skilgreinum höfuðborgarsvæðið. Í mínum huga er höfuðborgarsvæðið Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Bessastaðahreppur, Mosfellsbær, Seltjarnarnes --- u.þ.b. þetta.

En af því að hv. þm. nefndi byggðakortið er það hins vegar mál sem varðar iðnrn. og þar hefur fengist niðurstaða sem menn geta verið misjafnlega sáttir við. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt á hv. Alþingi að við lögðum okkur fram um að ná því fram sem við töldum eðlilegast og vildum hafa það svæði sem stærst sem gæti notið styrkja og teldist landsbyggð. Hins vegar var það ekki samþykkt af hálfu ESA að Suðurnesin féllu innan þess svæðis. Þeir gáfu svo sem röksemdir fyrir því hvers vegna þeir litu þannig á málið og ég ætla ekki að endurtaka þær hér.