2001-12-11 16:51:45# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[16:51]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa ánægju með ýmislegt sem kom fram í máli hv. þm., sérstaklega það að mér heyrist að hann sé farinn að styðja stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi og það er vissulega ánægjulegt að heyra. Ég vona að svo sé um fleiri af félögum hans í þingflokki Samfylkingarinnar.

Varðandi lækkun á húshitunarkostnaði vil ég segja að bókstaflega hundruðum milljóna var varið til viðbótar í þann málaflokk frá árinu 1998 til ársins 2000, úr 480 millj. í 840 millj. kr. Og ég get sagt hv. þm. það að ef við gengjum lengra í þessum efnum værum við farin að ganga mjög á stöðu þeirra hitaveitna sem eru víða ekki sérstaklega hagkvæmar á landsbyggðinni. Ég tel að mjög vel hafi verið staðið að málum hvað varðar niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði. Og sama má segja um námskostnaðinn.

Hv. þm. talaði um rekstrarskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni. Ég tek undir það með honum að ekki síst núna upp á síðkastið, eftir að sérstakur landsbyggðaskattur kom á flutninga, er málið mjög alvarlegt enda hefur ríkisstjórnin ákveðið að setja nefnd á laggirnar sem er sérstaklega að vinna að tillögum í sambandi við þetta málefni. Og hún ætlar að vinna hratt.

Svo vil ég segja að síðustu um orð hv. þm., þegar hann talar um og vitnar í skýrslu Byggðastofnunar, að ríkisbankarnir eru ekki opinberir aðilar. Ríkisbankarnir eru hlutafélög sem eru skráð á markaði og eru ekki opinberir aðilar. Stjórnir stjórna þessum fyrirtækjum og ríkisstjórnin kemur þar hvergi að málum þannig að ekki ætla ég að verja það hvernig þessir bankar hafa varið fjármagni sínu og keypt hlutabréf í ýmsum fyrirtækjum. Það er bara ekki á mínu borði og ég ber enga ábyrgð á því en svona liggur í málinu.