2001-12-11 17:07:22# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[17:07]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Það bregst ekki þegar byggðamál eru rædd á Alþingi, þá stökkva sömu þingmennirnir í ræðustól og fara að rifja það upp að fólki hafi fækkað á landsbyggðinni í ráðherratíð hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar. Einn þessara hv. þm. er Kristján L. Möller.

Það liggur á milli línanna yfirleitt að allt sé það áhugaleysi stjórnvalda að kenna að svona er komið. En er það virkilega svo? Auðvitað ekki. Auðvitað er það ekki svo. Staðreyndin er sú að menn eru að glíma við þetta sama vandamál nánast um allan heim. Við heyrum þetta frá Norðurlöndunum, við heyrum þetta frá Evrópulöndunum. Ég var í Bandaríkjunum í haust og þar sögðu menn mér að þeir hefðu verulegar áhyggjur af því að fólk væri að flytja í ríkari mæli frá dreifðustu svæðunum til stórborganna en nokkurn tímann áður. Þetta er því ekki séríslenskt vandamál, síður en svo.

Höfum við ekki verið að reyna að berjast gegn þessu með ýmsum ráðum? Ég veit ekki betur. Ég minni á þáltill. sem við samþykktum á Alþingi vorið 1999 og hæstv. ráðherra vitnaði hér í áðan, mjög metnaðarfulla áætlun í fjórum flokkum þar sem í fyrsta lagi var gert ráð fyrir aðgerðum í atvinnumálum, í öðru lagi á sviði menntunar og menningar, í þriðja lagi til jöfnunar lífskjara og bættrar samkeppnisstöðu og loks bættri umgengni við landið.

Byggðastofnun hefur látið gera hlutlausa úttekt á því hvernig til tókst með framkvæmd þessarar áætlunar. Þar kemur fram m.a., með leyfi hæstv. forseta:

,,Ljóst er að margt af því sem samþykkt er í þingsályktuninni hefur tekist vel, svo sem uppbygging fjarkennslu og símenntunarmiðstöðva, og verulega auknu fjármagni hefur verið varið til jöfnunar námskostnaðar og húshitunarkostnaðar.`` --- Og enn fremur: ,,Fjármagn til atvinnuþróunarfélaganna hefur verið aukið úr 65 milljónum króna í 103 milljónir króna á ári, og á tímabilinu hafa verið veittar 900 milljónir króna til eignarhaldsfélaga. Þar að auki hafa útlán Byggðastofnunar aukist verulega á tímibilinu.``

Svo ég vitni enn í þessa úttekt sem er mjög ítarleg, þá segir, með leyfi forseta:

,,Atvinnulíf á landsbyggðinni þarf greiðan aðgang að lánsfé á sambærilegum kjörum og bjóðast á höfuðborgarsvæðinu ... Greinilegt er að á síðustu missirum hefur þörf fyirtækja á landsbyggðinni fyrir lánsfé vaxið hröðum skrefum í samræmi við breyttar áherslur viðskiptabankanna og það að Fiskveiðasjóður var lagður niður.``

Við þetta vil ég bæta að Iðnlánasjóður og Iðnþróunarsjóður voru einnig lagðir niður, en allir þessir sjóðir voru öflugir lánasjóðir á landsbyggðinni og þess vegna þarf auðvitað að efla þá lánastarfsemi enn.

En hvað er það sem veldur því að fólki fækkar á landsbyggðinni þrátt fyrir vilja stjórnvalda til að snúa þessari þróun við? Byggðastofnun lét gera mjög ítarlega könnun á þessu fyrir örfáum árum. Stefán Ólafsson prófessor gerði mjög vandaða könnun sem sýndi að langmesti orsakavaldurinn er einhæfni atvinnulífsins og þá sérstaklega í minni sjávarplássunum. Fólk sættir sig ekki við svona einhæft atvinnulíf lengur eins og það gerði kannski fyrir einhverjum áratugum.

Annað sem við vitum öll sem þekkjum til á landsbyggðinni og vegur mjög þungt er framhaldsskólinn. Það er auðvitað stórmál hjá fólki að senda börnin frá sér 15--16 ára, bæði tilfinningalega og fjárhagslega og veldur því náttúrlega mjög oft að fólk tekur sig upp og flytur til stærri staða með börnunum sínum. Þetta vita allir.

Sá mikli samdráttur sem orðið hefur í landbúnaðinum hefur auðvitað áhrif. Við vitum að fækkað hefur um eitt kúabú á viku í háa herrans tíð. Verulegur samdráttur er í sauðfjárbúskap og miklar breytingar í sveitunum. Auðvitað hefur þetta leitt til mikillar fækkunar í sveitunum og það hefur ekkert komið í staðinn. Og annað sem er, að eftir að kvótinn í sveitunum fór að verða verðmætari getur yngra fólkið kannski ekki tekið við. Menn selja frá sér búin og kvótann og búunum fækkar og þau stækka. Þetta veldur vissulega miklum breytingum.

Það er eitt enn líka sem ég held að skipti miklu máli og er mikil breyting frá því sem var t.d. fyrir 20 árum að langskólamenntun hefur náttúrlega stóraukist. Stærstur hluti yngra fólksins fer í langskólanám sem það gerði ekki áður og það á kannski ekki afturkvæmt vegna þess að ekki eru störf fyrir það heima í byggðarlaginu þegar það er búið að læra. Og þó svo menn detti niður á gott starf úti á landi þá er það mjög algengt að störf vanti fyrir makann vegna þess að nú er það algengt að karlar og konur sæki langskólamenntun. Ég veit fjölmörg dæmi þess að annar aðilinn í hjónabandi hefur getað fengið gott starf úti á landi en ekki þegið það vegna þess að makinn hefur ekki getað fengið starf.

Kvótanum er oft kennt um og sagt að þessi kvótatilfærsla á landsbyggðinni hafi mikil áhrif. Ég er ekki sammála því að það sé stór áhrifavaldur. Ég er ekki sammála því vegna þess að nánast um allt land er fiskvinnslan að stærstum hluta borin uppi af útlendingum og ég sé ekki annað en það þyrfti fleiri útlendinga ef menn hefðu meiri fisk til að vinna úr. Á stöðum eins og Neskaupstað, Eskifirði, Vestmannaeyjum þar sem eru mjög glæsileg útgerðarfyrirtæki sem hafa fjárfest í stórum og glæsilegum skipum og eiga mikinn kvóta, hafa byggt upp öflug fiskiðjuver og verksmiðjur, þar fækkar samt fólki og þarf erlent vinnuafl til að vinna störfin þannig að þetta er ekki alveg eins einfalt og það sýnist. Það er auðvitað, eins og kom fram í skýrslu Stefáns Ólafssonar, einhæfni atvinnulífsins sem er sennilega stærsti orsakavaldurinn.

Byggðastofnun hefur verið að reyna með fulltingi stjórnvalda að bregðast við með ýmsum ráðum. Eins og kemur fram hér í skýrslunni hefur verið lögð mikil áhersla á atvinnuþróunarstarfið. Atvinnuþróunarstarfið hefur verið eflt stórkostlega á landsbyggðinni. Áður var þetta allt á forræði Byggðastofnunar í Reykjavík og var verið að drita milljón hér og milljón þar út á landsbyggðina með engum árangri. Nú er þetta alfarið á forræði heimamanna. Þeir fá þessa peninga. Það er eitt atvinnuþróunarfélag í hverjum landshluta. Þau hafa mörg gert mjög góða hluti og ég tel að þessi stefna sé hárrétt og hafi gefist vel.

Eignarhaldsfélögin hafa kannski ekki lánast eins vel vegna þess að þar þurfa heimamenn að koma með 60% á móti framlagi Byggðastofnunar. Það hefur því miður ekki tekist í öllum landshlutum að koma með það mótframlag þannig að verulegur hluti af því fé liggur ónotaður. Þar þurfum við auðvitað að hugsa upp nýjar leiðir hvernig við ætlum að koma þeim peningum í notkun þannig að þeir nýtist sem best á landsbyggðinni.

Við á landsbyggðinni verðum að nýta tækifærin. Við eigum stórkostleg tækifæri núna í stóriðjunni. Það fer ekkert á milli mála. Við sem þekkjum til hvaða áhrif uppbyggingin á Grundartanga hafði vitum hvað þetta skipti gríðarlega miklu máli, hvernig uppbyggingin á Grundartanga lyfti svæðinu, sveitunum sunnan Skarðsheiðar, Akranesi og Borgarnesi. Það hætti að fækka í þessum sveitum. Það fjölgaði á þéttbýlisstöðunum. Fólkið vinnur þarna í hundraða tali. Þetta eru ekki einhæf störf. Þetta eru alveg jafnt störf fyrir háskólamenntaða og tæknimenntaða, eldhússtörf, ræstingarstörf, störf fyrir bílstjóra og fleira og fleira fyrir utan fjölbreytta þjónustu við þessa stóriðju. Þess vegna er það fagnaðarefni að nú hillir undir uppbyggingu stóriðju í Reyðarfirði sem mun að sjálfsögðu lyfta svæðinu þegar þar koma 1.000 ný störf á svæði sem hingað til hefur verið í lægsta kanti hvað varðar atvinnutekjur manna og slík tækifæri verðum við að nýta.

[17:15]

Ásókn í lánsfé frá Byggðastofnun hefur aukist mjög mikið, m.a. vegna þess sem ég nefndi áðan, að lánasjóðirnir opinberu hafa verið lagðir niður. Mér finnst lánastarfsemi Byggðastofnunar oft ómaklega gagnrýnd. Menn tala oft um hana sem hálfgerða gjafastarfsemi og eitthvað í þeim dúr sem er auðvitað alrangt. Auðvitað verða þarna afföll eins og hjá öllum öðrum lánastofnunum. Þau ættu hugsanlega að vera meiri því að eðli þessarar lánastarfsemi er kannski í sumum tilfellum áhættulán. En ég er ekki viss um að það séu neitt meiri afföll þarna en annars staðar.

Af því að hér var að talað um okurvexti áðan þá er rétt að upplýsa að vextir af lánum Byggðastofnunar eru 7,7%.

Mig langar að nefna örfá dæmi sem eru uppi á borðinu og Byggðastofnun hefur verið að koma að að undanförnu og sem skipta gríðarlegu máli á landsbyggðinni. Ég nefni fyrst þá glæsilegu uppbyggingu sem nú á sér stað í viðskiptaháskólanum í Bifröst sem ég tel að sé eitthvert allra merkilegasta mál sem er í gangi á landsbyggðinni í dag. Það er verið að þrefalda þennan skóla. Aðsóknin er gríðarleg, miklu meiri en menn ráða við og þetta skiptir svæðið gríðarlega miklu máli. Við sáum hvaða áhrif Háskólinn á Akureyri hafði á Eyjafjarðarsvæðið. Alveg eins mun verða þarna og er reyndar þegar orðið að hluta til. Byggðastofnun er að liðka til fyrir þessu. Þetta er í fyrsta sinn sem Byggðastofnun kemur að uppbyggingu í skólamálum og ég held að það sé hið besta mál.

Það má minna á að fjöldi bænda er að fara út í raforkuframleiðslu. Það má minna á það líka að gríðarleg uppbygging hefur verið í ferðaþjónustunni sem Byggðastofnun hefur komið myndarlega að. Að vísu eru erfiðleikar hjá mörgum. Það hafa verið byggð hótel, ferðaþjónustur, veitingastaðir og fleira og fleira sem er auðvitað nauðsynlegt til þess að geta eflt ferðaþjónustuna á landsbyggðinni eins og við tölum alltaf um. Og þó að þetta hafi kannski í sumum tilfellum gengið erfiðlega þá er þó aðstaðan orðin til staðar og við erum sannfærð um að þetta á eftir að skila sér.

Það er verið að byggja upp fiskeldi víða um land. Byggðastofnun hefur komið myndarlega að uppbyggingu smábátaútgerðar í þeim landshlutum þar sem hún skiptir miklu máli og líka að stórútgerðinni, aðstoðað menn við að koma t.d. fullvinnslubúnaði um borð í skip þannig að þeir geti margfaldað aflaverðmæti sitt sem er hið besta mál. Byggðastofnun hefur líka komið að mjög myndarlegum framleiðslufyrirtækjum sem eru að framleiða fiskvinnslubúnað fyrir innanlandsmarkað og í stórum stíl til útflutnings. Fyrirtæki á Akranesi og Ísafirði hafa náð feiknarlega góðum árangri á því sviði. Minna má á byggingarfyrirtæki, röraframleiðslu, húseiningar, meðferðarheimili. Einhverjum þætti kannski óeðlilegt að Byggðastofnun komi að slíku en það er atvinnustarfsemi sem skiptir máli í sinni sveit og fleira mætti telja.

Ég minni líka á að Byggðastofnun greiddi fyrir sláturleyfishöfum í haust með því að ábyrgjast afurðalán þeirra þannig að þeir fengju betri kjör í bönkunum sínum og ég held að það hafi verið hið besta mál.

Ég er með yfirlit yfir lánveitingar Byggðastofnunar á síðasta ártug, 1991--2000. Það voru lánaðir tæpir 12 milljarðar, 7 milljarðar af því í sjávarútveginn, 1,8 í ferðaþjónustuna og 1,6 í iðnaðinn. Það er athyglisvert að 30% þessara lána fóru til Vestfjarða og 20% til Austfjarða sem segir auðvitað að þessi svæði, eins og við vitum náttúrlega, hafa átt í vök að verjast og þessar lánveitingar hafa væntanlega hjálpað mönnum að koma þarna upp atvinnustarfsemi sem máli skiptir.

Byggðastofnun var flutt norður í tveimur áföngum. Þróunarsviðið var flutt fyrir þremur árum. Það var spáð mjög illa fyrir þeim flutningi og okkur var sagt að ómögulegt yrði að manna þessa starsemi á Sauðárkróki með fólki sem hefði þá menntun sem til þyrfti. Það reyndist sem betur fer misskilningur og voru þrír eða fjórir umsækjendur að meðaltali um hvert starf og tókst vel að ráða í þau. Í framhaldinu var svo ráðist í að færa restina af starfseminni í sumar. Ég held að það takist ágætlega líka. Það eru auðvitað erfiðleikar á meðan þetta gengur yfir vegna þess að starfsfólkið hætti nánast allt. Aðeins einn af fyrrverandi starfsmönnum Byggðastofnunar flutti með norður, fjármálastjórinn, sem skipti að vísu mjög miklu máli. Hann er maður með mikla reynslu og þekkingu og hefur verið ómetnalegur í að skóla nýja menn. Það er auðvitað mikið átak að flytja stofnun milli landshluta, en ég held að þetta hafi verið rétt ákvörðun. Byggðastofnun á auðvitað heima úti á landi vegna þess að starfssvæði hennar er allt landið að höfuðborgarsvæðinu undanskildu og auðvitað á slík stofnun að vera úti á landi. Eins og ég segi, ég held að starfsemin sé að komast í ágætan gír eftir þennan flutning. Það var erfitt meðan á því stóð. Stofnunin hefur fengið öflugan forstjóra og hæft starfsfólk og er að komast í ágætan gír.

Gerð var viðhorfskönnun á afstöðu manna til Byggðastofnunar, þ.e. þeirra sem hafa átt samskipti við hana, fyrir líklega tveimur árum, og kom í ljós að almennt voru menn mjög ánægðir með samskiptin við stofnunina, þótti starfsfólkið lipurt og liðlegt og öll starfsemi hin ágætasta.

Oft er rætt um byggðakjarna sem lausn á vandamálinu og það er sjónarmið. Akureyri er öflugasti byggðakjarninn til mótvægis við Reykjavík og þar er heilmikill vísir að lítilli borg. Menn hafa nefnt aðra staði, Ísafjörð og Egilsstaði og allt eru þetta sjónarmið, en ég held samt að í þeirri umræðu megi ekki gleyma öðrum stöðum. Milli þessara staða, sem er langt á milli, eru öflug svæði. Ég tek t.d. Snæfellsnesið með sína 4--5 þúsund íbúa þar sem er mjög öflugt mannlíf og atvinnulíf. Ég nefni Skagafjörð sem er með 5 þúsund íbúa líka og Hornafjarðarsvæðið með sín nokkur þúsund þannig að auðvitað má ekki gleyma þessum stöðum þegar menn tala um að efla einhverja þrjá kjarna á landsbyggðinni.

Það er eitt varðandi lánastarfsemina sem oft hefur verið mikið rætt og var mikið rætt þegar verið var að setja ný lög um Byggðastofnun fyrir líklega tveimur árum, þ.e. að sameina lánasjóði hins opinbera. Þá var talað um Byggðastofnun eða byggðasjóð og Lánasjóð landbúnaðarins, Ferðamálasjóð og einhverja fleiri slíka og ég tel að það sé eitthvað sem eigi að skoða. Ferðamálasjóður er mjög veikur. Það var reyndar rætt um það á þeim tíma að færa hann inn í Byggðastofnun sem ég tel að hefði verið eðlilegast. Því miður varð ekkert af því en sjálfsagt væri þessi lánastarfsemi öflugri og betur skilvirk ef hún væri öll undir einum hatti og ég tel að Byggðastofnun eigi að hafa með allar þessar lánveitingar að gera.

Verið er að smíða nýja byggðaáætlun eins og hér hefur komið fram. Hv. þm. Kristján Möller var að gera athugasemd við að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna kæmu þar ekki að verki. En ég get glatt hv. þm. með því að þar situr þverpólitískur hópur að verki og þar á meðal ágætur flokksbróðir hans, tillögugóður og ágætur maður. En ég tel að það sé afskaplega mikilvægt að vel takist til með þessa nýju byggðaáætlun og vonandi takist ekki verr til en síðast.