2001-12-11 17:22:47# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), JB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[17:22]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu skýrsla Byggðastofnunar, reyndar fyrir árið 2000. Engu að síður hljótum við einnig að ræða um framkvæmd á byggðaáætlun allt til þessa tíma.

Það er vert í þessari umræðu fyrst að rifja upp hvað stendur í þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um byggðamál fyrir árin 1999--2001 sem hafi að markmiði að treysta búsetu á landsbyggðinni. Stefnt verði að því að fólksfjölgun þar verði ekki undir landsmeðaltali og nemi 10% til ársins 2010.``

Þetta er eitt af höfuðmarkmiðunum sem sett eru og síðan er útlistað hvernig eigi að ná þessum markmiðum.

Það er vert að staldra hér við. Hvernig hefur þetta nú tekist? Hvar á landsbyggðinni hefur náðst það markmið að fólki fjölgi um 10% ef litið er fram hjá höfuðborgarsvæðinu og nánasta umhverfi þess sem hefur teygt áhrifasvæði sitt og áhrif sín nokkuð út fyrir það sem áður hefur verið kallað hið hefðbundna höfuðborgarsvæði. Þar, herra forseti, hefur fólki nánast undantekningarlaust fækkað. Það er í besta falli á einstaka stöðum sem það stendur í stað en ef litið er til þess tíma sem hér er um fjallað þá hefur því fækkað. Á sumum landsvæðum, í sumum byggðarlögum, hefur því fækkað alveg geigvænlega þannig að varðandi þetta markmið sem þarna var sett, a.m.k. eins og staðan er í dag þá er svo fjarri því að við höfum nálgast það að vinna okkur svo langt.

Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga þegar verið er að meta þau áhrif og þann árangur sem náðst hefur. Ég er í sjálfu sér sammála að því leyti til hv. síðasta ræðumanni, Guðjóni Guðmundssyni, um að byggðamál og búsetumál eru ekkert einstæð fyrir Ísland. Þetta er verkefni allrar heimsbyggðarinnar, alls staðar. Þess vegna er mikill vandi að reyna að reka einhverja sértæka byggðastefnu sem ekki er beinn hluti af hinni almennu stefnu Alþingis og þjóðarinnar. Einmitt í stefnu Alþingis í heild sinni ræðst hvernig við deilum út kjörum, hvernig búið er að atvinnulífi, menningu, menntun og hvers konar öðrum undirstöðuatriðum mannlífs. Á vissan hátt getur því verið hættulegt fyrir stofnun eins og Alþingi og fyrir ráðuneytin, fyrir framkvæmdarvaldið, að ætla sér að fela aðeins einu sérstöku ráðuneyti og sérstakri undirstofnun það að fara með, stýra og standa vörð um áherslur í byggðamálum. Ég tek því undir það sjónarmið sem hér kom fram.

Ég vil líka vekja athygli á öðru sem hv. þm. Guðjón Guðmundsson minntist á. Hann minntist á þetta umhverfi sem hefur breyst í þjónustumálum, í peningamálum, í lánamálum. Hann benti einmitt á lánasjóði sem áður voru til og höfðu hlutverk gagnvart atvinnuvegum þjóðarinnar, frumatvinnuvegum sem voru sterkir og byggðir upp vítt og breitt um landið, t.d. Fiskveiðasjóð og Iðnlánasjóð, og eftir því sem ég gat skilið best í máli hv. þm. þá harmaði hann hvernig komið var fyrir þessum lánasjóðum sem áður voru til og höfðu hlutverk gagnvart þessum atvinnuvegum. Þá var aftur vikið að svari við því að þarna væri búið að afhenda þessa sjóði burtu, sem hv. þm. kom reyndar ekki inn á hver hefði gert, og svarið var að styrkja Byggðastofnun sem lánastofnun. Sömuleiðis stendur líka í þessari skýrslu sem við höfum til umfjöllunar, þ.e. í inngangi ársskýrslunnar, með leyfi forseta:

,,Þá er því ekki að leyna að svo virðist sem bankarnir reyni að komast hjá því að veita há lán til langs tíma til fyrirtækja á smærri stöðum. Bankarnir hafa að vísu neitað þessum ásökunum en ásókn í lán frá Byggðastofnun hefur aukist verulega og það verður ekki einvörðungu skýrt með betri vaxtakjörum.``

Neðar á þessari síðu er einmitt rakið líka að það markmið stofnunarinnar að styrkja svæðisbundin eignarhaldsfélög hefur heldur ekki gengið eftir vegna þess að heimaaðilar hafa ekki getað lagt fram mótframlög. Hvert eiga þessir heimaaðilar að sækja þessi mótframlög? Þeir hafa enga aðra staði til að sækja þau en í viðkomandi viðskiptabanka, bankastofnun í heimahéraði sínu. Og ætli það sé ekki þannig að viðkomandi viðskiptabanki setji þá afarkosti varðandi veð og arðsemiskröfur að þeim sem þarna eiga hlut að máli er ómögulegt að útvega þetta mótframlag. Sú umgjörð sem við erum hér að gagnrýna með beinum hætti er því ekki tilkomin af sjálfu sér. Hún er tilkomin vegna þeirra pólitísku aðgerða sem samþykktar eru á Alþingi.

[17:30]

Hæstv. iðnrh. nefndi það einmitt hér í ræðu eða andsvari að þrátt fyrir að ríkisbankarnir svokölluðu væru í meirihlutaeigu ríkisins og hæstv. ráðherra væri bankamálaráðherra væri svo búið um hnútana að þó að meiri hluti eignarhaldsins væri á hendi hæstv. ráðherra gæti hún engu ráðið um þessa stefnu. Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Þetta er hluti af þeirri pólitísku stefnu sem rekin er hér á Alþingi og þá þýðir lítið fyrir Byggðastofnun að fara að vinna í því umhverfi að lagaumgjörð gangi þvert á þau verkefni og þá sýn sem henni er ætlað að vinna eftir. Við getum ekki, herra forseti, fært byggðamál og byggðaáætlanir út úr Alþingi og inn í litla byggðastofnun sem hefur síðan sem sinn höfuðóvin lagasetningu af hálfu Alþingis. Þetta held ég að sé eins gott að menn geri sér fulla grein fyrir í þessari umræðu og séu ekki að tala í ótal hringi.

Við skulum líka víkja að grein sem einmitt stendur í þessari skýrslu og er einn liður í því hvernig á að reyna að komast að þessari lagasetningu. Hér stendur í 16. lið um hvernig á að ná þeim markmiðum sem ég las í upphafi, með leyfi forseta:

,,Lagt verði mat á kostnað samfélagsins vegna þeirrar búsetuþróunar sem orðið hefur frá árinu 1986. Byggðastofnun meti reglulega áhrif lagasetningar, fjárlagagerðar og einstakra stjórnvaldsaðgerða á byggðaþróun í landinu.``

Þarf frekar vitnanna við? Þarna er einmitt dregið skýrt fram að höfuðvandi Byggðastofnunar eða byggðaaðgerða í að ná þessu markmiði sem hún setur fram er lagasetningar frá Alþingi, stjórnvaldsaðgerðir sem ganga þvert á þá stefnu sem henni er gert að vinna eftir. Hvernig ætli Byggðastofnun hafi tekist í sínu hálfgerða umkomuleysi gagnvart þessu gríðarlega valdi og valdbeitingu lagasetningar að fylgjast með þessu? Mér er ekki kunnugt um að fjárlagafrv. hafi farið til umsagnar hjá Byggðastofnun. Mér er ekki kunnugt um það, herra forseti, að sá bandormur um aðgerðir í ríkisfjármálum sem hér var til umfjöllunar hafi farið til umfjöllunar Byggðastofnunar.

En hvað er lagt til í þessum bandormi? Kannski er gott að rifja það upp. Í þessum bandormi er einmitt lagt til að hækka innritunargjöld, skólagjöld, hjá nemendum. Hjá hvaða nemendum á sérstaklega að hækka? Hafa menn velt fyrir sér hvaða áhrif það hefur? Sérstaklega skal leggja aukið gjald á nemendur sem stunda starfsnám, verknám, iðnnám og það á að vera leiðin fyrir þessa skóla til að fjármagna sig og þurfa minna fé frá ríkinu. Hvaðan ætli þessir nemendur komi sem á að skattleggja sérstaklega? Samkvæmt könnun sem Jón Torfi Jónasson, prófessor við Háskóla Íslands, gerði og birti í fyrra koma einmitt sjö af hverjum tíu nemendum í þessu námi af landsbyggðinni, sjö af hverjum tíu nemendum í starfsnámi, verknámi og iðnnámi --- sem fara í slíkt nám --- koma af landsbyggðinni. Og hverja er þarna verið að skattleggja? Ætli Byggðastofnun hafi fengið þetta frv. til meðhöndlunar sérstaklega? Nei. Ekki er mér kunnugt um það. Okkur er nær að líta í okkar eigin rann á Alþingi og athuga virkilega hvers konar lagasetningar við erum að gera hér og áhrif þeirra á byggð og búsetu og velferð í landinu sem við viljum stuðla að þannig að hér sé ekki hver að toga í annan.

Í Hagvísi Þjóðhagsstofnunar nú í nóvember er fjallað um tekjuþróun á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Þar kemur fram að fyrir fimm árum voru tekjur svipaðar á Reykjavíkursvæðinu og á landsbyggðinni en árið 2000 voru tekjurnar 10% hærri á Reykjavíkursvæðinu en á landsbyggðinni. Bilið milli tekna íbúa í nágrannasveitarfélögunum og á landsbyggðinni hefur einnig breikkað.

Auk þessa hefur íbúum haldið áfram að fækka á landsbyggðinni þannig að geta sveitarfélaganna til að veita íbúunum þjónustu hefur skerst. Er þetta í samræmi við markmið byggðaáætlunar sem sett var hérna fram?

Þá hefur BSRB nýlega kynnt niðurstöður könnunar sem gerð var á hlutdeild sjúklinga í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustunnar sem sýnir að sá kostnaður sem lendir á sjúklingum í þeim dæmum sem þar voru tekin fyrir hefur margfaldast á árunum 1990--2001. Og þótt þau dæmi sem þar eru tekin sýni að þessi hækkun er langmest á fyrri hluta þessa tímabils er hún áfram verulega há. Það sem er eftirtektarvert, og væri líka til athugunar fyrir Alþingi og fyrir Byggðastofnun, er að í öllum þeim dæmum sem þarna voru tekin er lyfjakostnaður, kostnaðurinn sem lendir á viðkomandi sjúklingi, 25--50% hærri úti á landi en hér á höfuðborgarsvæðinu. Ætli þetta hafi ekki sín áhrif?

Herra forseti. Fátt hefur meiri áhrif en einmitt fiskveiðistefnan. Það verður líka að taka hana með í reikninginn. Hvað segir um hana í úttekt Byggðastofnunar? Hún segir einmitt að þessi fiskveiðistefna sé alvarlegasta ógnunin við ákveðnar byggðir í landinu.

Herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur til gjörbreytta stefnu í fiskveiðimálum frá þeirri sem fylgt er því það er grunnurinn. Við leggjum áherslu á að menntun úti um allt land, menntun í dreifbýli, sé efld og það sé gert að höfuðmarkmiði að ungt fólk geti sótt nám heiman að frá sér a.m.k. til 18 ára aldurs og þannig verði öll menntun í viðkomandi byggðum styrkt, virðulegi forseti.