2001-12-11 17:38:44# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[17:38]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það sem kallaði mig upp í ræðustólinn var það að hv. þm. sagðist hafa skilið mig þannig að ég harmaði það að lánasjóður hins opinbera hefði verið lagður niður. Ég sagði það ekki. Ég benti hins vegar á að það hefði breytt talsverðu fyrir lánastarfsemina á landsbyggðinni þegar Fiskveiðasjóður, Iðnlánasjóður og Iðnþróunarsjóður voru lagðir niður en ég held að ég hafi samþykkt þessa breytingu á sínum tíma. Það sem ég var einungis að benda á er að það reynir meira á lánastarfsemi Byggðastofnunar eftir að þessir sjóðir voru aflagðir.

Ég benti líka á að á þremur árum hafa lánveitingar Byggðastofnunar tvöfaldast og ég minntist líka á að ég teldi að það ætti enn að auka þær og að það mundi styrkja lánastarfsemina að setja alla þessa lánasjóði undir einn hatt, þ.e. Byggðasjóð, Lánastofnun landbúnaðarins, Ferðamálasjóð og jafnvel fleiri. Ég var hreint ekki að harma það að þessir ríkissjóðir, Fiskveiðasjóður, Iðnlánasjóður og Iðnþróunarsjóður, hefðu verið lagðir af. Ég var einungis að benda á þá breytingu sem það hefði í för með sér.

Hv. þm. nefnir fiskveiðistefnuna. Víðast hvar í sjávarplássunum er uppistaðan í atvinnulífinu erlent vinnuafl þannig að ég hef efasemdir um að fiskveiðistefnan sé stóri orsakavaldurinn í búferlaflutningum af landsbyggðinni án þess að ég vilji vera með neinar alhæfingar. Ég ítreka það sem ég sagði áðan um fiskveiðistefnuna.

Hv. þm. nefndi hækkun skólagjalda og fór hörðum orðum um hana. Honum er sjálfsagt kunnugt um það, hv. þm., að það var aðeins verið að laga þau að verðlagshækkunum, þar var engin raunhækkun á ferðinni. Ég minni á það líka að jöfnun námskostnaðar hefur náttúrlega verið alveg stórkostleg á síðustu tveim, þrem árum. Framlög til þeirra mála hafa verið tvöfölduð.

Hv. þm. nefndi það síðan að menn ættu ekki að tala í ótal hringi. Ég tek fram að ég tek það ekki til mín. Ég býst við að hann hafi átt við einhvern annan því að ég held að ég hafi talað nokkuð skýrt.