2001-12-11 17:41:01# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[17:41]

Jón Bjarnason (andsvar):

Forseti. Fyrst varðandi einhæfnina og stöðuna í sjávarbyggðunum, það er alveg hárrétt að einhæfnin í sjálfu sér getur verið alvarlegt mál. En óvissan sem fólkið býr við í sjávarbyggðunum sem ekki hefur vald á því hvort bátarnir róa frá þeirri höfn eða ekki er náttúrlega það alversta. Þegar menn ætla að fara að ráða bug á einhæfninni byrja þeir ekki á því að eyða eða veikja þá atvinnuvegi sem fyrir hendi eru. Það er ekki fyrsta skrefið til að vinna bug á einhæfninni og það er það alvarlega sem er að gerast.

Varðandi lánasjóðina langar mig að spyrja hv. þm. Guðjón Guðmundsson þegar hann kemur upp í seinna andsvari sínu: Er hann ekkert hræddur um að þegar búið væri að sameina þessa sjóði sem hann taldi upp, Lánasjóð landbúnaðarins, Ferðamálasjóð og jafnvel lánasjóð Byggðastofnunar, í einn að þá væri komið kjörið tækifæri til að selja hann? Er hann þá ekki að búa til nákvæmlega sama feril og Fiskveiðasjóður og Iðnlánasjóður fóru í gegnum sem var bara undirbúningur að því að selja þá?

Einnig af því að hv. þm. minnist á að Byggðastofnun eigi að vera ný lánastofnun --- er ekki best að taka Búnaðarbankann og gera hann að lánastofnun byggðanna í staðinn fyrir að vera að búa til nýjan banka úr Byggðasjóði? Væri þetta ekki miklu skynsamlegra og mundi það ekki hafa miklu meiri og sterkari áhrif úti um landið? Þetta væri að minnsta kosti tillaga sem mér fyndist afar vert að skoða.