2001-12-11 17:43:16# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[17:43]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það er, eins og ég vitnaði til í skýrslu Stefáns Ólafssonar, einhæfni atvinnulífsins sem stendur upp úr sem orsakavaldur fyrir búferlaflutningum. Ég man að þegar stjórn Byggðastofnunar heimsótti Austurland var okkur sagt að fólk væri að flytja frá fjörðunum, Neskaupstað, Eskifirði, Reyðarfirði og víðar þar sem var gríðarleg atvinna, mikil uppbygging og miklar tekjur, upp á Egilsstaði í kannski miklu lægri laun. Þar var hins vegar meiri fjölbreytni í atvinnulífinu, stöðugri vinnutími, skólar, sjúkrahús og það sem fólk vill hafa við höndina þannig að það er svo margt sem skiptir máli. Ég held líka, eins og ég nefndi áðan, að sú mikla breyting sem hefur orðið við það að unga fólkið sækir sér að stærstum hluta langskólamenntun hafi mikið að segja og eins þetta með framhaldsskólann sem ég nefndi áðan, fólk fer með börnunum sínum. Það vill ekki senda þau frá sér 15--16 ára gömul. Það er margt slíkt sem spilar inn í þetta, eins náttúrlega samdrátturinn í landbúnaðinum. Ég er þess vegna ekki endilega sammála því að kvótinn sé stóri orsakavaldurinn. Ég hef miklar efasemdir um það vegna þess að hinn almenni Íslendingur virðist ekki lengur vilja vinna í fiski hvernig sem á því stendur. Við flytjum inn Pólverja í hundruða- og þúsundavís til að vinna þessi störf, mikið ágætis fólk. Svona er komið fyrir okkur.

Ég er ekkert hræddur við að sá sjóður yrði endilega seldur sem þessir lánasjóðir okkar sameinuðust hugsanlega í. Þetta hefur oft komið upp áður og ég og fleiri höfum viljað skoða það hvort ekki sé betri nýting á öllu þessu opinbera sjóðafargani okkar að hafa það allt undir einum hatti. Ég hef verið þeirrar skoðunar að Byggðastofnun ætti að hafa þetta allt undir sínu þaki. Hvort Búnaðarbankinn á að koma inn í þetta bix --- eins og hæstv. ráðherra benti á áðan er hann orðinn hlutafélag sem við ráðum ekki yfir lengur þannig að ég held að það sé ekki inni í myndinni.