2001-12-11 17:49:52# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[17:49]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir sagði að stefna Sjálfstfl. væri skýr. (DrH: Stefna ríkisstjórnarinnar.) Stefna ríkisstjórnarinnar. Já, Framsfl. er nú bara hluti af þessu. (Gripið fram í.) Ég er alveg klár á því að hún er skýr. Hún er skýr og birtist m.a. í áherslunum í skattamálum og í áherslunni á að koma á innritunargjöldum og hækka skólagjöld á nemendur, sem mun bitna harðast á nemendum sem koma úr dreifbýli.

Stefnan er bráðskýr. Hún birtist í því að selja Landssímann, einkavæða og selja Landssímann sem getur verið eitt öflugasta tækið til þess að styrkja og jafna búsetuskilyrði út um land. Fyrirtækið skilaði milljörðum kr. í arð í ríkissjóð á ári hverju, fyrir utan það að hafa styrk og möguleika á að tryggja fjarskipti, gagnaflutninga og jafna aðgengi að þeim um allt land. En það þykir sjálfsagt að selja hann þannig að þetta er alveg skýrt. Sala Landssímans er kannski ein versta byggðaaðgerð sem hin skýra stefna ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. hefur leitt af sér.

Varðandi einhæfni í atvinnumálum er það alveg rétt að við höfum náttúrlega þurft að búa við vissa einhæfni. Nú þegar harðnar á dalnum í nýja hagkerfinu styðjumst við við sjávarútveginn. Ég kem í seinna andsvari mínu, herra forseti, að öðrum atriðum sem hv. þm. minntist á.