2001-12-11 17:53:00# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[17:53]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir ábendinguna. Ég vona að þetta gerist sem allra fyrst, að við komumst í ríkisstjórn Íslands eins og hv. þm. er mjög eindregið að leggja til að því er mér skildist. (HBl: Láttu nú samt ekki þá tilhugsun spilla jólunum.) Virðulegur forseti sleppur ábyggilega við það.

En snúum okkur aðeins að þessari einhæfni. (DrH: Svaraðu mér nú þessum spurningum sem ég lagði fyrir þig.) Svo við snúum okkur að einhæfninni. Er gæfulegt að verja yfirgnæfandi hluta af raforku sinni í eina atvinnugrein? Er gæfulegt að verja stórum hluta af fjármagni landsins til næstu ára og áratuga í eina atvinnugrein? Gangi þau áform eftir sem mér virðist hv. þm. lofa og prísa þá yrði meginhluti, kannski 60--70% af framleiðslu landsins ál. Hugsið ykkur þær efnahagssveiflur sem við værum þá bundin. Sú atvinnustefna sem felst í þessum stóriðjudraumum gengur út á að ráðstafa orkunni til einnar atvinnugreinar, meginhluta íslenskrar raforku til einnar atvinnugreinar sem er mjög háð sveiflum á markaði. Til stendur að ráðstafa meginhluta af fjármagni þjóðarinnar, mörg hundruð millj. í eina atvinnugrein. Það er óskynsamlegt og treystir ekki byggð í landinu og er fullkomin tálsýn að ætla að treysta á það. (DrH: Um allt land.)

En það er einmitt nauðsynlegt að hafa jákvæða sýn en ekki blekkingasýn eins og ríkisstjórnin hefur. Hún lifir í vissri sjálfsblekkingu þegar kemur að atvinnu- og byggðamálum, sem nauðsynlegt er að rétta við.