2001-12-11 18:17:15# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[18:17]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér er alveg sama hvað það er sem hæstv. ráðherra vill endilega taka mark á. Það er hennar skoðun og ég ætla ekki að gera neitt lítið úr því að hún hafi þá skoðun og þá trú. Það hafa allir leyfi til þess að hafa sína trú. Ef ráðherrann trúir því að Hæstiréttur í þessu landi hafi sagt það með Valdimarsdómnum að hér á landi yrði framvegis eingöngu að stjórna fiskveiðum með kvótakerfi er það alveg ný trú fyrir mér. Ég hef ekki heyrt þessa útleggingu af Valdimarsdómnum áður. Hún kemur á óvart.

Hæstv. ráðherra sagði einnig að kvóti væri hreyfanlegur og að hann yrði að fá að vera hreyfanlegur. Þá vil ég spyrja: Í byggð á norðausturhorni landsins er fiskur sem veiddur er úti fyrir ströndinni almennt 2--21/2 kíló og verðleggst í samræmi við það og fiskur við suðvesturhornið er 5 kíló en ef kvótinn á að vera hreyfanlegur og framseljanlegur, hvernig ætlar ráðherrann þá að tryggja að í framtíðinni verði yfirleitt veiddur fiskur á norðausturhorni landsins þegar leigukerfið býður upp á að það kostar 150 kr. að leigja hvert einasta kíló af óveiddum fiski, sama hvort hann er 2 kíló, 3 kíló eða 6 kíló? Hvernig ætla menn að útfæra það?

Hún sagðist hafa sagt hér áðan að það yrði að finna úrræði til þess. Ég vil fá svör við því hvaða úrræði það eiga að vera. Þau svör sem hingað til hafa komið duga ekki.