2001-12-11 18:26:07# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[18:26]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er afar gott að vinna mikið af skýrslum. Það er fínt mál að halda áfram að safna skýrslum og búa til mikið af skýrslum um mikla þekkingu og mikla framtíð. Ég vil hins vegar beina þessari spurningu til hv. þm. af því að hún getur komið hér upp og rætt málin: Hvað hefur störfum fjölgað mikið í hennar kjördæmi, á Austfjörðum, beinlínis fyrir tilstuðlan atvinnuþróunarfélaganna? Hvað eru þau störf mörg í hlutfalli við þau störf sem hafa verið að tapast í sjávarútveginum?

Það þýðir ekki að draga fjöður yfir það að við erum, Vestfirðingarnir, að missa frá okkur tæplega 100 störf í fiskvinnslu og 200 störf við fiskveiðar. Ég vil a.m.k. krefjast þess af stjórnvöldum sem þá stefnuna reka að þau sýni okkur fram á hvað á að koma í staðinn. Það er ekki hægt að setja fólk bara á guð og gaddinn og tala svo um að það sé mjög fínt að búa til skýrslu. Menn mega alveg búa til skýrslur. Þær verða bara að skila einhverju. Ég fer fram á það við hv. þm. að hún segi okkur af því úr sínu kjördæmi hve mörg störf hafa orðið til á Austfjörðum með stuðningi atvinnuþróunarfélagsins. Ég tel mig vita að það hafi verið unnin ágætisstörf þar eins og á Vestfjörðum. Það vantar bara svo mikið sem á að koma í staðinn fyrir það sem er að gerast í sjávarútvegi. Það er það sem er að. Ég skora á þingmanninn að koma upp, af því að hún getur komið aftur upp, og halda ræðu.