2001-12-11 18:28:16# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), KHG
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[18:28]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Hér hefur farið fram ágæt umræða um byggðamál og skýrslu Byggðastofnunar og heyra má að umræðan heldur áfram fjörlega víða í salnum og er ekki nema gott eitt um það að segja. Það undirstrikar auðvitað að mönnum er þetta mikið hjartans mál, mörgum hverjum, enda snertir þróun byggðar alla sem búa á viðkomandi stað. Menn vilja eðlilega gjarnan hafa áhrif á þróunina því að við búum við það að fjölgun hefur fyrst og fremst verið á einu landsvæðinu en fækkun á öðrum.

Ég vek fyrst athygli á því sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni í ágætri ræðu hans. Hann var almennt séð andvígur sértækum aðgerðum í byggðamálum. Það er út af fyrir sig ekki ný skoðun og hefur þekkst bæði hérlendis og erlendis að stjórnvöld eigi ekki að beita sértækum aðgerðum eftir landsvæðum heldur einungis miða við almennar stjórnvaldsaðgerðir. Reynslan er hins vegar sú hjá mörgum þjóðum sem hafa gert upp þróunina hjá sér í ljósi þess að beita einvörðungu almennum aðgerðum að árangur hefur ekki verið sem skyldi. Fjármagnið sem varið hefur verið til málaflokksins hefur ekki nýst eins og ætlast var til og stjórnvöld hafa tekið upp sértækar áherslur. Frægasta dæmið um þetta er Bretland þar sem sjálf járnfrúin, Margrét Thatcher, lagði niður almennt kerfi í byggðastefnu sinni og tók upp kerfi sértækra aðgerða.

[18:30]

Ég hef dálítið gaman af því, herra forseti, að Margrét Thatcher, hin mikla íhaldskona, skuli vera stuðningsmaður sértækra aðgerða, en hv. þm. Jón Bjarnason, hinn knái vinstri maður, skuli vera andvígur sértækum aðgerðum. Það verður gaman að heyra frá hv. þm. síðar í umræðunni útskýra muninn á þessu. Ég hefði haldið að hv. þm. gæti fallist á það sem Margrét Thatcher féllst á að lokum í ljósi reynslunnar, að sértækar aðgerðir skila meiri árangri en almennar aðgerðir.

Ég vek í öðru lagi athygli á því sem fram kemur í stefnu og þingsályktun Alþingis um stefnu í byggðamálum. Fram hefur komið gagnrýni á Byggðastofnun fyrir að biðja um skýrslur og nýverið kom fram gagnrýni á stjórnarformann stofnunarinnar fyrir að hafa beitt sér fyrir að gerð yrði úttekt á áhrifum tiltekinna laga í sjávarútvegi. Í þessari stefnu Alþingis í byggðamálum segir, með leyfi forseta, í 16. tölul.:

,,Byggðastofnun meti reglulega áhrif lagasetningar, fjárlagagerðar og einstakra stjórnvaldsaðgerða á byggðaþróun í landinu.``

Það er einfaldlega skylda stofnunarinnar að fylgjast með eftir föngum þeim áhrifum sem einstök lög koma til með að hafa eða geta haft á byggðaþróun. Lög um breytingar á stjórn fiskveiða hafa augljóslega mikil áhrif á landsvæðum þar sem sjávarútvegurinn er þungamiðjan í atvinnuvegi. Það er ekkert óeðlilegt við að óskað hafi verið eftir athugun á því hvaða áhrif mætti ætla að umrædd lagabreyting hefði og mönnum væri ljóst hver áhrifin væru að bestu manna yfirsýn.

Ég vek einnig athygli á því sem fram kemur í skýrslunni sem hér liggur frammi til umræðu jafnhliða ársreikningi Byggðastofnunar, í formála stjórnar Byggðastofnunar, með leyfi forseta:

,,Öflugra höfuðborgarsvæði leiðir til sterkari búsetu á Íslandi, en með sama hætti verður landið í heild öflugra ef byggð á landsbyggðinni styrkist frá því sem nú er og veikara ef dregur úr styrk landsbyggðarinnar``.

Stjórnin leggur áherslu á að almenn stefna stjórnvalda hljóti að vera vera í þá átt að landið sem heild sé sem öflugast í samanburði við erlend lönd þannig að við getum búið fólki sem best lífksjör á Íslandi, hvort heldur það er á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar.

En almennur skilningur á orðinu ,,byggðastefna`` er hins vegar ekki þessi. Hann er fólginn í því að menn álíta að munur sé á aðgerðum stjórnvalda eða áhrifum eftir landsvæðum og því sé rétt að reyna að draga úr þeim mun með opinberri tilstuðlan. Það held ég að sé í fullu gildi og stjórnvöld eigi á hverjum tíma að beita sér fyrir því með tilstuðlan stofnunar eins og Byggðastofnunar en jafnframt með almennum lagasetningum eins og um jöfnun á orkukostnaði sem er auðvitað almenn lagasetning en með sértækum áhrifum. Það mál var unnið algerlega innan Byggðastofnunar og að frumkvæði stjórnar stofnunarinnar á sínum tíma. Dregnar voru fram upplýsingar um mismuninn í kostnaði við rafkyndingu eftir landsvæðum og mótaðar tillögur um það efni, sem síðan skiluðu sér í þingsályktun um stefnu Alþingis í byggðamálum og var hrint í framkvæmd í gegnum fjárlög. Stofnunin getur líka haft áhrif með þessum hætti eins og dæmin sanna.

Stofnuninni er fyrst og fremst ætlað að beita sér á lánasviðinu. Þar er styrkur hennar mestur. Henni er ætlað að nota lánveitingar til að styðja við bakið á atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og draga þannig úr mun sem kann að vera á að byggja upp atvinnu þar og á öðrum svæðum landsins, eins og höfuðborgarsvæðinu. Undanfarin ár hefur mjög greinilega komið fram að viðskiptabankarnir hafa haldið að sér höndum í lánveitingum til atvinnureksturs á landsbyggðinni og einkanlega til fjárfestinga. Það hefur því verið tilfinnanlegt fyrir þá sem standa í atvinnurekstri á landsbyggðinni hversu dýrt lánsfjármagnið er í fyrsta lagi og í öðru lagi af hve skornum skammti það hefur verið. Þar hafa oft og tíðum skipt sköpum lánveitingar Byggðastofnunar sem fyrst og seinast er ætlað að standa undir hluta af fjárfestingum. Með þeim hætti hefur stofnunin mest afl til að beita sér til jöfnunar aðstæðna eftir landshlutum. En af því að lánastarfsemi Byggðastofnunar hefur oft legið undir mikilli gagnrýni, sérstaklega hjá aðilum sem horfa á málið af höfuðborgarsvæðinu og finnst þau mál óeðlileg, þá vil ég fara nokkrum orðum um lánastarfsemina þannig að fram komi staðreyndir í því máli í samanburði við aðra tilstuðlan opinberra aðila á sambærilegu sviði, bæði á lánasviði og fjárfestingarsviði.

Byggðastofnun lánar fé á lægstu vöxtum sem flestir eiga að kost á að fá, þ.e. 7,7% vöxtum. Fá fyrirtæki á Íslandi geta í almenna bankakerfinu fengið lægri vexti. Í þessu er fólginn mikill stuðningur fyrir fyrirtæki, að þurfa ekki að borga hærri vexti en 7,7% í umhverfi sem getur verið allt upp í 15--20%.

Hin hliðin á sama pening er að ef maður ber saman þessi lánakjör við útlönd þá eru þessir vextir hreinir okurvextir. Fyrirtækjum á Íslandi þykja þessi kjör góð en kjörin þættu með afbrigðum vond í Evrópulöndum því að þetta væru svo dýr lán. Það er önnur saga.

Stofnunin rekur lánastarfsemi sína með vaxtamun sem ekki er nema rétt um 2%. Fáar lánastofnanir á Íslandi ef nokkrar láta sér duga minni vaxtamun en þar um ræðir. Engu að síður hefur stofnuninni tekist vel flest árin að reka lánastarfsemi sína þannig að hún hafi staðið undir sér. Hagnaðurinn af þessari lánastarfsemi hefur staðið undir venjubundnum afskriftum, útlánatöpum og hlut í rekstri stofnunarinnar. Síðasta ár var að vísu afbrigðilegt eins og sjá má í ársreikningi stofnunarinnar, þar sem fram kemur að fært var í afskriftareikning um 590 millj. kr. eða 300 millj. kr. umfram það sem var árið áður. Ef við notum það sem að jafnaði hefur farið í afskriftareikning á útlánum, sem er um 11%, þá vil ég leyfa mér að segja að útlánastarfsemi stofnunarinnar hafi staðið fyllilega undir sér og ríkið hafi ekki þurft að leggja til fé. Það hlýtur að teljast mjög merkilegur árangur hjá einni útlánastofnun að hafa einna lægstu útlánavexti á landinu, einna minnstan vaxtamun og samt reka þennan þátt í starfsemi sinni að jafnaði með afgangi þannig að hann standi undir sér.

Það er ekkert voðalega mikil áhætta sem stofnunin má taka, að vera ekki með meira en 11% áhættu að meðaltali á lánveitingum sínum þegar horft er til þess að stofnunin á fyrst og fremst að beita sér í atvinnuuppbyggingu. Við skulum líta á nokkra aðra sjóði sem eru líka opinberir sjóðir og eru til þess að beita í atvinnuuppbyggingu.

Ef við tökum fyrst eignarhaldsfélögin, áður en ég fer yfir í sjóði utan Byggðastofnunar sem Byggðastofnun fer með, þá eru þau fremur félög til þess að ávaxta fé en standa undir áhættu í atvinnuuppbyggingu. Hlutafé Byggðastofnunar í eignarhaldsfélögum er metið að meðaltali á 90% af nafnverði sem þýðir að áhættan í þeim er ekki talin vera meiri en 10% að meðaltali. Það er vegna þess að krafa er gerð um mjög háa arðsemi á þeim verkefnum sem eignarfélögin leggja fé í og mikla dreifingu útlána. Byggðastofnun, bæði með lánasviði sínu og eignarhaldsfélagssviði, starfar á þeim grundvelli að um mjög litla útlánaáhættu er að ræða.

Berum þetta saman við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins sem fyrst og fremst beitir sér í atvinnuuppbyggingu með kaupum á hlutafé. Í nýsamþykktum fjárlögum er ætlað að hlutafjársjóðurinn kaupi hlutafé á næsta ári fyrir 700 millj. kr. Það er gert ráð fyrir því í áætlunum sjóðsins að leggja inn á afskriftareiknng um 300 millj. kr. á móti þessum 700 millj. Að meðaltali mun Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins starfa með um 40% áhættu eða fjórum sinnum meiri áhættu en Byggðastofnun gerir á útlánasviði eða hlutafjársviðinu. Ég er ekki að gagnrýna þessa áætlun Nýsköpunarsjóðsins vegna þess að það að byggja upp atvinnulíf með nýsköpun er áhættusamt. Það er óhjákvæmilegt að það verði mikið tap á því sviði. Þess vegna eru þessar tölur svona hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. En hann starfar ekki bara á landsbyggðinni heldur líka á höfuðborgarsvæðinu. Megnið af fé hans fer í að reyna að efla atvinnulíf á höfuðborgarsvæðinu með þetta mikilli áhættu.

Ríkisbankarnir, bæði Búnaðarbankinn og Landsbankinn, eru með sérstök fjárfestingarfélög sem þeir nota til þess að kaupa hlutafé upp í vænlegum fyrirtækjum eða verkefnum og til að græða á því. Það hefur komið fram fyrr í umræðunni að Landsbankinn keypti hlutafé í Íslandssíma fyrir 1 milljarð kr. fyrr á þessu ári. Gengið hefur fallið um 3/4 síðan það var þannig að ef bankinn ætti að færa út tap sitt á þessari fjárfestingu í dag mundi hann færa um 750 millj. á afskriftareikning.

Fjárfestingarbanki atvinnulífsins, meðan hann var ríkisbanki, Búnaðarbankinn og Landsbankinn, keyptu í deCode fyrir 6 milljarða kr. á gengi sem er miklu hærra en gengið í dag. Ef þessir bankar ættu að færa út tap sitt núna í dag næmi það mjög háum fjárhæðum, miklu hærri fjárhæðum en Byggðastofnun hefur úr að spila. En allt eru þetta að mörgu leyti eðlilegir hlutir vegna þess að nýsköpun í atvinnulífi er áhættuverkefni sem þýðir að menn verða að gera ráð fyrir að tapa peningum. Ég held að þrátt fyrir allt hafi Byggðastofnun tekist mjög vel til í starfsemi sinni með ótrúlega lítilli áhættu. Ég vil leyfa mér að halda því fram að í gegnum árin hafi henni tekist afbragðsvel að fara með það fé sem ríkið hefur lagt stofnuninni til.