2001-12-11 18:43:35# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[18:43]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar ræddi hann um altækar og sértækar aðgerðir. Ég held að við hljótum að vera sammála um að því færri sértækar aðgerðir sem þarf að grípa til, því árangursríkara er það. Í raun er frekar erfitt ef sértækar aðgerðir sem gripið er til stangast í öllum meginatriðum á við hina almennu stefnu ríkisstjórnarinnar eða stjórnvalda. Þá eru sértækar aðgerðir til lítils. Megináherslu ber náttúrlega að leggja á hina almennu stefnu ríkisins og Alþingis í atvinnu-, búsetu- og velferðarmálum hvar sem er í landinu og það sé undantekningaratriði ef grípa þarf til sértækra aðgerða því að sértækar aðgerðir eru yfirleitt til þess að rétta kúrs á einhverju sem miður hefur farið eða styrkja og hjálpa til.

Því miður er það stefna ríkisstjórnarinnar sjálfrar á Alþingi sem er byggðinni fjandsamlegust eins og hv. þm. kom að þegar hann fjallaði um fiskveiðistefnuna. En mig langar til að spyrja hv. þm.: Er hann þeirrar skoðunar að Byggðastofnun eigi að verða stór banki, stór lánastofnun sem reki útibú vítt um land og taki að sér hlutverkið sem viðskiptabankarnir höfðu áður, þ.e. að þjóna atvinnulífinu vítt og breitt um landið, í ljósi þess sem hv. þm. benti á að viðskiptabankarnir gerðu ekki?