2001-12-11 18:50:17# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[18:50]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Því er blandað saman sem hv. þm. talaði um, bæði almennum ákvörðunum og síðan sértækum almennum ákvörðunum um hvað menn eigi að greiða fyrir tiltekna þjónustu eða skólavist og annað slíkt. Síðan höfum við verið að leitast við að jafna lífskjör með því að finna út hver munurinn er á tilteknum kostnaðarliðum. Í gildandi stefnu í byggðamálum kemur einmitt fram mikil áhersla á jöfnun lífskjara með því að reyna að afmarka ákveðna þætti eins og námskostnað og orkukostnað.

Ég held að það sé tiltölulega góð sátt um þessa leið í þjóðfélaginu og við eigum að reyna að halda áfram á þessu sviði og jafna aðstæður manna með þessum hætti eftir því sem við höfum tök á og ástæða er til hverju sinni.

Ég er almennt ekki mikill stuðningsmaður skólagjalda eða talsmaður fyrir miklu í þeim efnum. Ég held samt að við getum ekki litið fram hjá því að hlutirnir breytast í tímans rás og á síðustu áratugum hefur orðið nokkuð mikil breyting á lífskjörum þjóðarinnar og efnahag og þeim fjárreiðum sem menn hafa handa á milli hverju sinni. Ég sé að ungt fólk í dag hefur úr miklu meiri peningum að spila heldur en þegar ég var ungur. Einkaneysla hefur aukist verulega mikið og í slíku ljósi hljótum við alltaf að skoða ákvarðanir okkar.