Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 19:07:09 (2980)

2001-12-11 19:07:09# 127. lþ. 49.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[19:07]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegi forseti. Um það þarf vart að ræða. Það er alveg ljóst að skattalækkanir til handa fyrirtækjum, úr 50% árið 1989 og niður í 30% áttu þátt í góðærinu. Það er alveg ljóst að þessar ráðstafanir komu í veg fyrir flótta fyrirtækja af landinu. Ég held að það séu hreinar línur og um það þurfi ekki að deila.

Það er líka gömul og ný regla að því lægri sem skattar eru því betri eru skattskil og minna um undanskot. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson og flokkur hans hafa gagnrýnt mjög undanskot frá skatti. Ég held að með sanngjarnri skattheimtu verði skattskilin mun betri. Það held ég að sé gömul saga og ný.