Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 19:15:46 (2988)

2001-12-11 19:15:46# 127. lþ. 49.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[19:15]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Gunnar Birgisson fullyrti að inntakið í ræðu minni, eins og ég hygg að hann hafi orðað það, hafi verið það að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði vildum hækka skatta á fyrirtæki og við værum á móti fyrirtækjum frá útlöndum. Hvorugt kom fram í mínu máli og hvort tveggja er rangt. Við höfum hins vegar ekki verið sérstakir talsmenn skattalækkunar og á þessu er munur. Ég bið hv. þm. að reyna að vera svolítið nákvæmari í endursögn á afstöðu annarra þingmanna eða stjórnmálaflokka hér inni þegar hann tekur þátt í umræðum.

Að sjálfsögðu veit ég að fyrirtæki borga fasteignagjöld og fleiri slík gjöld til sveitarfélaga. Það sem ég var að tala um var að þau borga ekki hreina fjáröflunarskatta með sambærilegum hætti og einstaklingar borga útsvar til sveitarfélaga.

Hv. þm. gerir mikið úr því því að tekjuskattur hafi verið 50% þegar vinstri menn voru hér í stjórn fyrir um 10--12 árum. Það vill svo til að sú ríkisstjórn erfði þá prósentu frá ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og þar áður frá ríkisstjórn sem Sjálfstfl. var í með Framsfl. þannig að því mætti velta fyrir sér hver fann það fyrirbæri upp, 50% tekjuskatt, sem vel að merkja var í 30% verðbólgu og þá voru frádráttarmöguleikar aðrir en þeir eru nú.