Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 19:58:22 (3004)

2001-12-11 19:58:22# 127. lþ. 49.7 fundur 320. mál: #A gjald af áfengi# (tóbaksgjald) frv. 149/2001, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[19:58]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er auðvitað annað mál, þ.e. þær ráðstafanir sem gripið er til í tengslum við afgreiðslu fjárlaga í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þetta er annað mál en það sem við fjöllum um hér núna. Við erum hér með hreina formbreytingu en það vill þannig til að hún kemur til þingsins um líkt leyti og við erum afgreiða hin málin. Við hefðum getað tekið þetta fyrir fyrr í haust eða í vor. Þetta mál hefur reyndar beðið í dálítinn tíma og hefði með réttu átt að vera hér fyrr á ferðinni.

Það er ekki eðlilegt að blanda þessu svona saman með þeim hætti sem hv. þm. gerir. Auðvitað geta menn alltaf velt því fyrir sér hvort tóbaksverð eigi að vera hærra á þeim forsendum sem þingmaðurinn gerir, hvort það sé of lágt miðað við það sem gengur og gerist í öðrum löndum o.s.frv. eða með tilliti til afleiðinganna af tóbaksneyslu. En það er auðvitað ekki eitt af því sem er hægt að stilla upp andspænis þeim aðgerðum sem um þessar mundir er gripið til í ríkisfjármálunum á grundvelli þess frv.

Auðvitað er alltaf hægt að hækka tóbaksgjaldið ef menn kæra sig um það og fyrir því er meiri hluti á Alþingi.