Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 20:01:42 (3006)

2001-12-11 20:01:42# 127. lþ. 49.7 fundur 320. mál: #A gjald af áfengi# (tóbaksgjald) frv. 149/2001, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[20:01]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Í fyrsta lagi, herra forseti, þá er ekki verið að hækka nein skólagjöld, það er verið að tala um innritunargjöld í háskólanum og sambærileg gjöld í framhaldsskólunum en ekki hreinræktuð skólagjöld.

Í öðru lagi, að því er varðar vísitöluáhrif, þá held ég að hv. þm. þurfi að fletta betur upp í skjölum sínum því að það er fjarri því að vísitöluáhrif af þeim ráðstöfunum sem við höfum lagt hér til og eru til meðferðar, sem hafa að hluta til verið samþykktar og eru alla vega samþykktar sem forsendur fjárlaganna, gefi tilefni til þeirra ályktana sem hann dró hér.

Ég held að það sé nauðsynlegt að átta sig á því að tóbak vegur mjög þungt í vísitölu. Tóbak er, ef ég man rétt, 1,8% af vísitölugrundvellinum. Ef 10% hækkun útsöluverðs á tóbaki á sér stað þá hækkar vísitalan um 0,18. Það er miklu meira en nokkurn tíma hefur verið talað um í sambandi við þau atriði sem þingmaðurinn tiltók. Menn verða að gjöra svo vel að horfa á heildarmyndina. Það er ekki hægt að slá fram þessum fullyrðingum að óathuguðu máli. Hvað gefur þá 10% hækkun á útsöluverði tóbaks miklar tekjur? Ég man það nú ekki en auðvitað verða menn að skoða öll áhrif slíkra hluta. Það er ekki hægt að stökkva til eins og þingmaðurinn gerir hér vegna þess að allt í einu taldi hann að hér væri eitthvert sóknarfæri í allt öðrum málum en frv. fjallar um. Það er ekki hægt að stökkva svona til og draga ályktanir með þeim hætti sem hann hefur gert hérna.