Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 20:09:30 (3008)

2001-12-11 20:09:30# 127. lþ. 49.7 fundur 320. mál: #A gjald af áfengi# (tóbaksgjald) frv. 149/2001, Frsm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[20:09]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í tilefni af umræðu um vísitöluáhrif af einstökum aðgerðum sem tengjast þeirri umræðu sem hér hefur verið um hækkun á tóbaksgjaldinu og þeim aðgerðum sem verið er að grípa til varðandi ráðstafanir í ríkisfjármálum. Í umræðum í nefndinni í gær kom fram að það væri algjörlega af og frá að sú kostnaðarhækkun sem heimilin í landinu verða fyrir vegna hækkunar á innritunargjöldum í menntakerfinu geti komið út sem 0,26% vísitöluhækkun eins og talað var um í gær, eða 0,14% vísitöluhækkun eins og rætt hefur verið um í dag. Þetta stenst bara alls ekki.

Málið snýst um þetta: Í þessum pakka er hækkun á áfengisgjaldi sem gefur kringum 400 millj. og á að gefa vísitöluhækkun upp á 0,11%. Við erum með hækkun á heilbrigðisgjöldum, lyfjum og slíku sem á að gefa 500--600 millj. til ríkisins og hækkunin af því á að vera upp á 0,09%. Það er venjulega þannig í þessum reikningum að 0,1% vísitöluhækkun er tala sem hreyfir einhvers staðar til í kringum 440 millj. kr. Þetta eru 100 milljónir sem talað er um í menntamálapakkanum í ríkisfjármálafrumvarpinu.

Þannig að þetta er einfaldlega villa, þetta byrjaði í 0,26, er komin niður í 0,14 og endar sjálfsagt í 0,01--0,02, þar sem það á heima. Það eru ekkert meiri vísitöluáhrif af þessum hækkunum í menntakerfinu en í mesta lagi 0,02%.