Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 20:35:32 (3014)

2001-12-11 20:35:32# 127. lþ. 49.5 fundur 230. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (eftirlitsgjald) frv. 144/2001, GunnB
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[20:35]

Gunnar Birgisson:

Herra forseti. Hér erum við að fjalla um brtt. varðandi fjárhagsáætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir næsta ár og tillögur sem miða að því að lækka rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins um 3,5 milljón kr. Nefndin er þokkalega sammála um þetta mál.

Í Fjármálaeftirlitinu starfar hæft fólk, duglegt og metnaðarmikið fyrir sína stofnun. Það er kannski eitt í þessu máli sem mig langar til að minnast á. Ég er svo sem ekkert ósammála því sem hér er verið að gera og tek undir það sem stendur hér í nál., að lögð verði fram þriggja ára áætlun á næsta ári fyrir nefndina. En málið er að hér er verið að fjölga stöðugildum úr 30 í 34. Hér er verið að taka stærra hús eða húsnæði á leigu heldur en áður var. Þrátt fyrir að þetta sé vaxandi starfsemi, fjármála- og tryggingastarfsemi hér á landi, er ekki sjálfgefið að opinberar stofnanir stækki ár frá ári. Þessi sjálfvirka stækkun og þensla sem virðist alls staðar vera í opinberri stjórnsýslu, ég er alfarið á móti því að hún gangi alltaf eftir. Eftirlitið á ekki að vera þannig --- ég er algjörlega ósammála hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um það --- að endilega þurfi að fjölga fólki til að hafa enn þá harðara eftirlit. Það á ekki að vera þannig að það sé stöðugt andað ofan í hálsmálið á þeim sem stunda fjármálastarfsemi.

Nefndin hefur raunar ákveðið að láta það kyrrt liggja í þetta skiptið en ég vil taka fram að mín skoðun er að á milli ára sé það ekki endilega nauðsynlegt að fjölga starfsfólki sýknt og heilagt eins og allt of oft hefur gerst hefur hér í opinberri stjórnsýslu í ónefndum stofnunum.

En ég er sammála brtt. og styð þær. Ég tel að þetta sé í góðu horfi og ánægjulegt að þeir leggi fram nýja ábyrga þriggja ára áætlun á næsta ári.