Umræða um frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 10:17:50 (3025)

2001-12-12 10:17:50# 127. lþ. 50.93 fundur 228#B umræða um frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum# (um fundarstjórn), VE
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[10:17]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. forseta. Ég hafði ekki beðið um að mæla fyrir þessu máli núna. Ég hafði reyndar reiknað með því að einhver annar nefndarmanna mundi gera það. En fyrst hæstv. forseti ákvað að taka þetta mál á dagskrá þá skoraðist ég að sjálfsögðu ekki undan að mæla fyrir því, enda finnst mér þetta gott mál og hef mikla ánægju af því að mæla fyrir því og fylgja þessu máli í gegnum þingið.

Það er svo annað mál að því miður get ég ekki verið hér við þessa umræðu að öðru leyti, eins og hér hefur komið fram. En ég get fullvissað hv. þm. um að það er nægur stuðningur í stjórnarliðinu við málið og mikill áhugi á því hjá þeim sem skipa meiri hluta, ekki bara efh.- og viðskn. heldur allra hinna fagnefndanna sem fjölluðu um málið, að tjá sig um það og taka þátt í umræðunni. Ég vona sannarlega að umræðan beri ekki skaða af því að ég hafi fengið að koma hér upp og flytja framsöguna og að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar geti líka tekið til máls í þessu máli, fengið svör og hér geti orðið lífleg og góð umræða um þetta mál sem ég er fullviss um að leiða mun til góðrar niðurstöðu fyrir land og þjóð.