Umræða um frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 10:25:30 (3030)

2001-12-12 10:25:30# 127. lþ. 50.93 fundur 228#B umræða um frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[10:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Nú er upplýst að formaður efh.- og viðskn. óskaði ekki eftir því og bað ekki um að þessi umræða yrði hafin nú. Það er þá einfaldlega ákvörðun forseta, einhvers konar duttlungaákvörðun, að gera það nú þó að staðan sé sannanlega sú að nefndarálit minni hlutans verður ekki tilbúið fyrr en undir hádegið. Forseti hefur þá bara ekki réttar upplýsingar, er ekki í sambandi við sitt fólk eða þá að einhver óskaplegur ruglingur er hér á ferðinni, ef þetta hefur ekki komist til skila. Allir aðrir í þingsalnum, stjórnarandstaðan og starfsmenn þingsins, gengu út frá öðru og um það var rætt í gær og gærkvöldi.

Þessi tilhögun virðist vegna ákvörðunar forseta um að taka þetta mál fram fyrir. Ég vek athygli á því, herra forseti, að það er þrátt fyrir allt aftar á prentaðri dagskrá fundarins en þau mál sem reiknað var með að tekin yrðu fyrir nú, þ.e. frv. um stjórn fiskveiða o.fl. Ef maður vill vinna þetta bókstaflega og horfa á dagskrá fundarins er þetta mál næstsíðasta málið þar eða eitthvað svoleiðis.

Afleiðing af þessu er óhjákvæmilega sú að umræðan slitnar í sundur, herra forseti, og á því er aldrei góður svipur. Það er aldrei góður svipur á því að slíta í sundur umræður. Þessu er hagað þannig af þeim ástæðum að framsögumenn meiri hluta og minni hluta eða einstakir framsögumenn mæla fyrir álitum sínum hver á fætur öðrum og það er ekki út í loftið. Það er til þess að fá samfellu í umræðuna og til þess að meginsjónarmiðin komist að áður en hin almenna umræða hefst. En það mætti halda, miðað við tilhögun mála upp á síðkastið, að það sé markmið í sjálfu sér að slíta umræður í sundur.

Hér var byrjað á umræðu um byggðamál í gær. Henni var síðan frestað þangað til á næsta ári þannig að næstu ræður í þeirri umræðu fara fram einhvern tíma í janúar eða febrúar á árinu 2002. Er þetta sá svipur, herra forseti, sem menn vilja hafa á stjórn fundarins? Ég hélt ekki.

Ég vil taka það fram, herra forseti, að ég geri ekki athugasemdir við það að menn þurfi til útlanda vegna skyldustarfa á vegum þingsins erlendis. Ég veit ekki betur en þannig hátti til um þessa nefndarmenn úr efh.- og viðskn. að þeir fari vegna alþjóðlegra starfa á vegum Alþingis. Ég geri ekki athugasemdir við það. Það er að sjálfsögðu óheppilegt að svo standi á að menn þurfi burt vegna slíkra verkefna í miðjum önnum þingsins en ég geri ekki athugasemd við það. Það sem ég geri hins vegar athugasemdir við, herra forseti, er hversu erfitt er að eiga orðaskipti við virðulegan forseta um praktísk mál sem nú ber samkvæmt þingsköpum að hafa í umræðum um fundarstjórn forseta. Það er auðvitað ekki góð nafngift því að þetta ætti að vera meira um skipulag, störf eða stjórn þingsins almennt, eins og það var áður þegar menn kvöddu sér hljóðs undir liðnum Um þingsköp.

Forseti er úfinn í skapi og það virðist erfitt að henda reiður á því hvað hefur verið rætt við hann. Slík samskipti þurfa sennilega framvegis að vera skrifleg og með tímasetningum.

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þm. að gæta hófs í orðum.)