Umræða um frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 10:30:47 (3033)

2001-12-12 10:30:47# 127. lþ. 50.93 fundur 228#B umræða um frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum# (um fundarstjórn), EKG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[10:30]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég held að ástæða sé til þess að vekja aðeins athygli á stöðu málsins. Málið var lagt fram af hæstv. ráðherra í upphafi umræðunnar fyrir helgi. Síðan hefur málið verið til umfjöllunar í efh.- og viðskn. og er borið fram inn í þingið af meiri hluta efh.- og viðskn. Það er alveg rétt að hv. 1. þm. Norðurl. v. var framsögumaður málsins. Hann þarf vegna skyldu sinnar á vegum Alþingis að vera erlendis eins og fleiri þingmenn úr nefndinni. En þannig háttar til að a.m.k. fjórir hv. þm. sem eru á þessu skjali, eru aðilar að málinu, og eru til staðar í húsinu og geta auðvitað þess vegna auðveldlega tekið þátt í umræðunni. Þess vegna er ekkert að vanbúnaði í sjálfu sér að hefja þessa umræðu.

Hér hefur verið talað um að álit (Gripið fram í.) minni hluta sé ekki tilbúið. (LB: Sagðir þú ekki fundarstjórn forseta?) Það liggur hins vegar fyrir, virðulegi forseti, að hvað eftir annað í umræðum hefur það gerst ... (Gripið fram í: Ert þú að fara á ...?) Virðulegi forseti. Ég vil biðja hæstv. forseta að gæta þess að hljóð sé í salnum þannig að þingmenn sem hafa fengið orðið geti talað.

Virðulegi forseti. Ég vil minna á að það hefur gerst hvað eftir annað í umræðum að menn hafa hafið umræður án þess að álit minni hluta lægju fyrir þannig að það er ekkert nýtt í þessum efnum.