Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2002

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 10:45:49 (3042)

2001-12-12 10:45:49# 127. lþ. 50.11 fundur 327. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2002# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[10:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég undirrita nefndarálitið um þessa þáltill. með fyrirvara. Það gera reyndar einnig aðrir fulltrúar stjórnarandstöðunnar í utanrmn. Ég ætla að gera grein fyrir þeim fyrirvara í stuttu máli.

Fyrirvari minn á sér í fyrsta lagi þann sögulega aðdraganda að við vorum mörg hver ósátt við hlut Íslands í þessum samningum þegar þeir komust fyrst á árið 1996. Ísland fékk þá nokkuð innan við 20% veiðiheimildanna í norsk-íslenska síldarstofninum sem hafði sögulega séð fyrst og fremst verið nýttur af Íslendingum og Norðmönnum á árum áður. Íslendingar komust upp í að veiða drjúgan hluta heildaraflans á þeim árum er síldin var á Íslandsmiðum allt frá sex og upp í níu mánuði á ári og hafði hér vetursetu.

Það var ekki síst með skírskotun til þessarar sögu og auk þess nýlega tilkominnar veiðireynslu Íslendinga að við töldum þessa hlutdeild Íslendinga ansi lága. Íslensk skip höfðu sýnt fram á getu til að veiða síldina í miklu magni í nágrenni við okkar hafsvæði, þó að það væri að vísu að hluta til í færeysku lögsögunni, á grundvelli tvíhliða samninga Íslands og Færeyja á árunum 1994--1996 og svo úti í síldarsmugunni sjálfri. Ég held að sá veruleiki hafi auðvitað blasað við mönnum að íslenski flotinn var fær um, miðað við það göngumunstur sem þá var, að veiða drjúgan hluta mögulegrar veiði úr þessum stofni. Með vísan til þess og hinna sögulegu raka töldu margir að hlutdeild okkar væri ansi lítil.

Eins og venjulega þegar menn gera slíka samninga í fyrsta sinn höfðu menn uppi orð um að þetta væri ekki fordæmi, gæti komið til endurskoðunar o.s.frv. en síðan hefur að sjálfsögðu farið eins og oftast vill verða að við þessari hlutdeild okkar hefur ekki verið hróflað, nema hvað að hún lækkaði heldur en hitt þegar Evrópusambandið bættist inn í samninginn sem fimmti aðili ári eftir að upphafssamningurinn var gerður. Þetta leiðir sem sagt til þess, herra forseti, að okkar hlutur er kominn niður í 132.080 lestir. Það er talsvert minna en við veiddum eitt ef ekki tvö ár áður en samningar tókust um veiðarnar á árunum 1995--1996.

Í öðru lagi, herra forseti, er dálítill halli á þessum samningi þegar litið er á aðgang samningsaðila að fiskveiðilögsögum hvers annars. Það er að vísu tekið fram í greinargerð að íslensk skip hafi áfram ótakmarkaðan aðgang að lögsögunni við Jan Mayen en þá held ég að rétt sé að hafa það í huga að í raun eiga Íslendingar slíkan aðgang sjálfkrafa á grundvelli Jan Mayen-samkomulagsins frá árinu 1976. Þar var sérstaklega tekið fram að hluti af réttindum Íslendinga á því svæði væri sérstakur aðgangur að veiðum þar. Þá standa eftir aðeins 5.900 lesta veiðiheimildir eða kvóti sem íslensk skip mega taka í lögsögunni við meginland Noregs. Það er auðvitað ákaflega bagalegt að þetta magn skuli ekki vera meira, sérstaklega ef illa gengur að ná kvótanum hérna í nágrenni við hafsvæði okkar eða á okkar hafsvæðum. Auk þess er verðmæti síldarinnar mikið þegar hún kemur feit af fjalli, ef svo má að orði komast, af beitargöngu sinni um norðanvert Norður-Noregs- og Íslandshafið og er hvað verðmætust til vinnslu einmitt á þeim hluta ársins. Norsk skip mega hins vegar veiða allt að 94.200 lestum í íslenskri lögsögu á sama tíma. Þar hallar því talsvert á, herra forseti.

Það kann vel að vera að menn telji samningsstöðu okkar ekki sterka til að fá þessu breytt og ljóst að göngur síldarinnar núna síðustu árin hafa ekki lagst með okkur. Síldin hefur lagt af stað vestur um haf norðar með ári hverju og kemur minna inn í færeyska og íslenska lögsögu og jafnvel alls ekki neitt þvert á það sem áður var og menn bundu vonir við að mundi gerast með stækkandi stofni, sérstaklega með því að stærri hluti stofnsins yrði fullorðin síld.

Sumir skipstjórar sem ég hef rætt við og hafa stundað þessar veiðar árlega óttast að innan skamms kunni ganga síldarinnar, ef svo heldur sem horfir, að verða þannig að hún verði alls ekki veiðanleg utan norskrar lögsögu, þ.e. hún verði fyrst og fremst í norskri efnahagslögsögu og síðan á Svalbarðasvæðinu. Þá vandast málin og yrðu jafnvel enn þá bagalegri en ella, hversu lítill gagnkvæmur veiðiréttur er í samningnum.

Þetta, herra forseti, er meginástæða þess að ég hef þennan fyrirvara á stuðningi mínum við málið. Ég viðurkenni hins vegar að eins og málin standa í augnablikinu er ekki annað að gera en láta sig hafa það sem í boði er í þessum efnum, þ.e. að haga veiðunum á næsta ári á grundvelli þessa samnings. Ég held að það sé alveg ljóst að það er um tvennt að ræða. Það er annaðhvort að segja samningnum upp eða láta ósamið um síldina og láta guð og lukkuna ráða því sem út úr því gæti komið. Kannski er áhættan af því að ná ekki veiðinni ekki verst heldur miklu frekar hitt, að þá er óstjórnað sókn í stofninn og hættan sú að menn ofnýti hann og gangi of nærri honum. Það er auðvitað sameiginlegt hagsmunamál allra aðilanna, þó kannski sérstaklega Noregs og Íslands sem eiga þarna stærstan hlut, að þessi stofn byggist upp. Í því er líka fólgin von okkar um að hann taki aftur upp sína gömlu hegðun og dvelji meira á Íslandsmiðum. Ég tala ekki um ef þeir tímar kæmu aftur að hann færi að hafa að einhverju leyti vetursetu. Að sjálfsögðu mundi þá styrkjast mjög staða okkar til að gera kröfur um endurskoðun hlutfalla og hærri hlut en ég er þeirrar skoðunar, það skulu verða mín lokaorð, að eðlileg hlutdeild Íslendinga til lengri tíma litið og miðað við stofninn í fullri stærð væri á bilinu 35--40%.