Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2002

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 10:56:03 (3044)

2001-12-12 10:56:03# 127. lþ. 50.11 fundur 327. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2002# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[10:56]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér kemur í ljós eins og oft áður að veiðireynslan hefur mest að segja þegar gerðir eru samningar milli ríkja um veiðar úr stofnum sem eru innan og utan lögsögu.

Þar sem veiðireynslan hefur verið langveigamesti þátturinn í því að ná samningi um veiðirétt er svo sem ekki undarlegt að Íslendingar hafi nú t.d. hert sóknina í kolmunnastofninn. Sjálfsagt mun einhvern tíma draga til þess að gerður verði samningur um þann stofn. En það er ekki umræðuefni hér.

Umræðuefnið er auðvitað að vonirnar sem við Íslendingar bundum við að norsk-íslenski síldarstofninn mundi ganga inn í íslenska lögsögu í verulegum mæli hafa a.m.k. ekki enn orðið að veruleika. Aftur á móti hefur komið fram að á þessum árum sem liðin eru frá árinu 1996 þegar þessi samningur var gerður hefur norsk-íslenska síldin svo sem veiðst innan íslensku lögsögunnar. Það hefur þó ekki enn orðið í þeim mæli sem var á árum áður og menn áttu von á með stækkandi stofni og ekki síður hlýnandi sjó. Það er auðvitað það sem menn binda mestar vonir við, að með áframhaldandi hlýnun sjávar fyrir Norður- og Austurlandi muni draga til þess að norsk-íslenski síldarstofninn taki upp sínar fyrri göngur og taki að ganga á íslenska hafsvæðið inn fyrir íslenska lögsögu. Eins og þessu hefur verið háttað að undanförnu þá hefur þróunin hins vegar verið alveg á hinn veginn. Stofninn hefur dregið úr göngum sínum vestur á bóginn og sveigt fyrr til norðurs. Þar af leiðandi höfum við Íslendingar ekki náð að veiða úr stofninum þann hluta sem okkur hefur þó verið ætlaður samkvæmt samningnum.

Ég hefði talið það eitt af brýnum verkefnum Íslendinga að reyna að semja um það við Norðmenn að við fáum að veiða stærra hlutfall en þau 5.900 tonn í efnahagslögsögu Noregs sem eru nú í þessum samningi. Ef svo heldur fram sem verið hefur síðustu tvö árin þá gæti dregið til þess að stofninn haldi sig í meira mæli innan norskrar lögsögu en verið hefur hingað til. Þá sitjum við uppi með samning um að mega nýta stofninn en vegna þess hvernig samningurinn er saman settur þá tekst okkur ekki að nýta þær heimildir sem við höfum samið um, við náum ekki að nýta okkar hlutfall af stofninum.

Það hljóta að koma upp umræður í framhaldi af því, eins og t.d. áttu sér stað þegar samið var um úthafskarfann á lögsögumörkunum fyrir vestan landið --- sérstaklega var því haldið fram af Rússum man ég --- um að þegar búið sé að ákveða hvað eitt ríki megi veiða úr ákveðnum stofni þá verði ríkin sameiginlega að sjá til þess að viðkomandi ríki geti veitt það magn úr stofninum, það væri líka hluti samningsins. Það þykir ekki nóg að setja bara tölur á blað og að menn séu sammála um nýtingu á stofni. Menn setja tölur á blað, semja um hvað megi veiða en síðan eru þetta stofnar sem ganga inn og út úr lögsögu og þegar stofninn bregður út af vana sínum þá mega menn ekki veiða hann. Ég man sérstaklega eftir þessum rökum Rússa varðandi veiðar úr karfastofninum. Þetta voru alla vega talin nokkuð gild rök í þeim viðræðum sem ég þá tók þátt í í London. Menn töldu að slík sjónarmið ættu fullan rétt á sér, að þegar þjóðir væru á annað borð búnar að ná samkomulagi um skiptingu veiða þá mættu önnur atriði samningsins ekki koma í veg fyrir að menn gætu sótt þann afla. Ekki veit ég hvort þau rök eiga nákvæmlega við í því máli sem við ræðum hér varðandi norsk-íslensku síldina en hins vegar er ljóst að ef síldin fer að halda sig í meiri mæli innan norsku lögsögunnar þá er útfærslan á þessum samningi okkur óvilhöll að þessu leyti. Það er búið að ákveða hvað við megum veiða en vegna breyttrar hegðunar stofnsins, ekki endilega vegna minnkunar hans heldur vegna breyttrar hegðunar hans, getum við ekki nýtt okkur þær veiðiheimildir sem samið hefur verið um.

Þetta vildi ég láta koma fram í máli mínu. Ég tel að þetta sé nokkuð sem við hljótum að þurfa að huga að ef svo fer á næstu árum að norsk-íslenski síldarstofninn kemur að mestu leyti til með að halda sig innan norsku lögsögunnar.