Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2002

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 11:02:33 (3045)

2001-12-12 11:02:33# 127. lþ. 50.11 fundur 327. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2002# þál., Frsm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[11:02]

Frsm. utanrmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Þingmenn hafa nú gert grein fyrir þeim fyrirvara sem þeir settu við afgreiðslu þessa máls úr nefnd og þeir hafa haldið þeim fyrirvara til haga yfirleitt á ári hverju sem eðlilegt er og má rekja þann fyrirvara nánast til þess tíma þegar samningurinn var undirritaður 1996. Rétt er að halda því til haga að í undirbúningi þessara samninga sem gerðir voru um miðjan síðasta áratug var það samningsmarkmið Íslendinga að draga úr veiðum í þennan stofn. Það voru hagsmunir Íslendinga að draga úr veiðunum, koma stjórn yfir veiðarnar og draga úr þeim. Það voru sameiginlegir hagsmunir Norðmanna og Íslendinga að gera þetta. Og einn áfanginn sem náðist var að komið var stjórn yfir veiðar í þessum stofni. Auðvitað ræðst staða Íslendinga annars vegar af veiðireynslu og hins vegar af hegðunarmynstri stofnsins. Því má leiða líkur að því að veikari stöðu Íslendinga innan norsku lögsögunnar megi rekja beinlínis til hegðunarmynsturs stofnsins og ef stofninn hegðar sér þannig að hann fer að verða veiðanlegur einkum og sér í lagi í norskri lögsögu þá styrkir það ekki samningsstöðu Íslendinga í þessu máli. Það verður bara að viðurkennast.

Íslendingar hafa alltaf hagað málflutningi sínum þannig að hægt sé að tryggja það með samningnum að álag á þennan veiðistofn verði sem minnst þannig að líkur aukist á að hann leiti inn í íslenska lögsögu. Því er það svo að þarna eru að þessu leyti til sterkar forsendur fyrir því hvers vegna málum er svo komið sem þau eru í raun í samningum okkar við Norðmenn um veiðar í lögsögu hvors ríkisins fyrir sig.