Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2002

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 11:07:10 (3048)

2001-12-12 11:07:10# 127. lþ. 50.11 fundur 327. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2002# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[11:07]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það hefur auðvitað valdið vonbrigðum að þessi síldarstofn skuli ekki hafa stækkað og gengið í meiri mæli inn í íslensku lögsöguna. En það eru fleiri ágreiningsatriði milli stjórnarandstöðunnar og stjórnarflokkanna í þessu máli heldur en það hvernig um þessa skiptingu var samið. Það er ekki síður ágreiningsatriði hvernig menn gengu frá skiptingu á þeim stofni milli útgerðarmanna á Íslandi. Það mál liggur þannig að þeir sem hafa úthlutun í þeim veiðirétti munu eignast allan þann síldarstofn sem syndir til landsins að óbreyttum lögum. Það er auðvitað eitt reginhneykslið ofan á annað í einkavæðingu Íslandsmiða og þeim aðferðum sem hefur verið beitt til þess að koma eignarhaldi á allt sem syndir lifandi umhverfis strendur landsins hvernig menn hafa þarna farið að. Ég vildi bara minna á þá umræðu í þessu samhengi að hún mun óhjákvæmilega koma upp og þá munu menn horfa framan í hvernig hér hefur verið farið að ef ekki verður búið að breyta þeim ólögum sem hér gilda í þessu efni.