Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 11:13:08 (3052)

2001-12-12 11:13:08# 127. lþ. 50.9 fundur 289. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (hækkun gjalds) frv. 130/2001, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[11:13]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hv. frsm. nál. hefur gert ágæta grein fyrir efnislegu innihaldi þess og í rauninni þá í leiðinni þess frv. sem hér er verið að fjalla um, þ.e. frv. um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Ég skrifa undir frv. með fyrirvara, sem og annar hv. þm. Samfylkingarinnar í sjútvn., Jóhann Ársælsson.

Fyrirvari okkar helgast af því að við teljum óeðlilegt að það gjald sem lagt er á hvert brúttótonn skips haldi áfram að hækka. Við erum í rauninni á móti því gjaldi, en teljum að sama skapi eðlilegra að nýta þann farveg sem hér er fyrir gjaldtöku kostnaðargjalda í sjávarútvegi í gegnum gjöld á aflaheimildir.

Herra forseti. Þegar horft er til tilurðar Þróunarsjóðsins er dálítið merkilegt að bera saman það sem þá var að gerast og það sem menn hafa verið að horfa framan í á þessu hausti. Ætli það séu ekki um það bil átta ár síðan það varð niðurstaða svokallaðrar tvíhöfða nefndar að lagt yrði á gjald í sjávarútvegi sem menn á þeim tíma töldu að væri gjald sem skoðast sem endurgjald fyrir afnot af auðlindinni. Sömuleiðis var ákveðið að teknar yrðu til hliðar ákveðnar veiðiheimildir sem yrðu boðnar upp.

[11:15]

Ég hef stundum velt fyrir mér, herra forseti, vegna þeirrar umræðu sem farið hefur fram frá því að þessir hlutir voru til umfjöllunar, hver staðan væri ef menn hefðu staðið eins og menn að þeim ákvörðunum sem þar voru teknar í stað þess að eyðileggja í raun hvort tveggja, annars vegar með því að uppboðið var sniðgengið og þar með sú hugmynd eyðilögð og hins vegar með því að gera gjaldið sem átti að vera endurgjald fyrir afnot af auðlindinni að hreinu kostnaðargjaldi. Kostnaðargjaldi segi ég vegna þess að fyrst var tilgangur gjaldsins sá að greiða fyrir úreldingu. Síðan fékk sjóðurinn fleiri hlutverk. Honum var falið að sjá um þær skuldbreytingar sem höfðu farið fram á vegum Atvinnutryggingarsjóðs og síðan um málefni Hlutafjársjóðs. Auk þessa hefur sjóðurinn fengið það hlutverk að standa undir byggingu og nú afborgunum af láni vegna byggingar nýs hafrannsóknaskips.

Það var bagalegt, herra forseti, að nefndin skyldi þurfa að afgreiða þetta nefndarálit áður en svör höfðu borist við fyrirspurnum sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson bar fram snemma í haust um málefni Þróunarsjóðs sjávarútvegsins. Hann spurði ýmissa grundvallarspurninga sem hefði verið mikill fengur að fyrir nefndina að hafa til hliðsjónar. Einhverra hluta vegna hefur því miður ekki enn borist svar við þessum fyrirspurnum. Það vekur í raun furðu vegna þess að þær voru lagðar fram fyrir um þremur mánuðum. Ég skal samþykkja að fyrirspurnirnar eru ítarlegar en eigi að síður hefði verið afskaplega mikill fengur og mikilvægt fyrir nefndina að fá svörin og geta fjallað um þau samhliða þeim hækkunum sem þarna eru lagðar til. Nefndin beið í raun við afgreiðslu sína á málinu eftir að svörin bærust en það varð ekki.

Í þessum fyrirspurnum er m.a. spurst fyrir um afkomu Þróunarsjóðsins á tilteknu árabili. Þar er spurt um afkomu atvinnutryggingardeildarinnar á sama árabili, þ.e. frá 1992--2000. Einnig var spurt um afkomu hlutafjárdeildar á þessu sama tímabili og síðan kemur dálítið sérkennileg spurning sem snýr að því hvaða fjárhæðir hafi verið færðar til baka af afskriftareikningum árið 1997--2000. Sömuleiðis er spurt hversu mikið hafi áður verið bakfært af afskriftareikningum sem tekjur árið 1994--1996. Einnig er spurt frá hvaða kaupstöðum eða sveitarfélögum bakfærðu tekjurnar koma og óskað eftir upplýsingum um hvernig upphæðir skiptust á hvert byggðasvæði.

Ég held, herra forseti, að það hefði verið mikill fengur í þessum svörum eins og áður hefur komið fram í máli mínu. Þetta með bakfærsluna er auðvitað sérstakt málefni sem við munum ugglaust ræða síðar þegar svörin liggja fyrir. Hins vegar virðist sem svo að vegna pólitískrar heiftar hafi menn á sínum tíma ákveðið að lítið kæmi til baka af þeim fjármunum sem annars vegar atvinnutryggingardeildin og hins vegar hlutafjárdeildin áttu að véla um og hafi afskrifað meira en þörf reyndist fyrir. Það kom í ljós, blessunarlega, að sjávarútvegurinn endurgreiddi þau lán sem hann hafði fengið vegna þeirra skuldbreytinga sem áttu sér stað fyrir um 10 árum.

Ég hef heyrt að það hafi komið mönnum nokkuð á óvart --- það hefur komið fram í umræðu um sjávarútvegsmál á undanförnum árum --- að sjávarútvegurinn hafi greitt þessi lán. Auðvitað kemur það þeim á óvart sem ákveða upp á sitt eindæmi að afskrifa mun hraðar en efni stóðu til.

Mér fannst nauðsynlegt, herra forseti, í umfjöllun um Þróunarsjóð sjávarútvegsins að víkja að þessum málum og harma að við skyldum ekki við þessa umræðu hafa svörin við hinni ágætu fyrirspurn hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar sem hefðu gefið okkur tilefni til þess, fyrst í sjútvn. og síðan í umræðunni, að fjalla mun ítarlegar um Þróunarsjóð sjávarútvegsins og það hlutverk sem honum var áður ætlað og er nú ætlað. En eins og fram hefur komið í máli mínu hefur það breyst mjög á undanförnum árum.