Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 11:20:10 (3053)

2001-12-12 11:20:10# 127. lþ. 50.9 fundur 289. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (hækkun gjalds) frv. 130/2001, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[11:20]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um breytingu á lögum nr. 92 frá 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Hv. 1. þm. Vestf., Einar K. Guðfinnsson, hefur gert grein fyrir því að undir nefndarálitið skrifi allir nefndarmenn í sjútvn., að vísu hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir og hv. þm. Jóhann Ársælsson ásamt mér með fyrirvara. Ég tek undir það með hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur að það hefði verið ástæða til að fá svör við þeim spurningum sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson setti fram í nefndinni og þau hefðu fengið ítarlega umfjöllun. Ég held að efni standi til þess, það er þess vegna sem ég skrifaði undir með fyrirvara, að við förum betur yfir öll þessi mál. Hún er ekkert sjálfgefin, sú framsetning sem hér er gert ráð fyrir.

Ég kem hér upp aðallega til að gera sérstakan fyrirvara t.d. við að það gjald sem lagt er á hvert úthlutað þorskígildistonn hækki úr 230 í 1.358. Þarna er náttúrlega innbyggt að gjaldið hækkar nánast sjálfkrafa ef veiðiheimildirnar minnka og það er ástæða til að velta fyrir sér hvort slíkt kerfi sé heppilegt, hvort það eigi ekki að líta til miklu lengri tíma og hafa einhvers konar jöfnun í svona sjóði. Það er óheppilegra að hækka gjaldtöku á þeim sem minna mega fiska eða taka minna af auðlindinni. Einhvers konar jöfnun sem byggði á lengri tíma úthlutun gæti verið heppileg.

Í ljósi þessa, virðulegi forseti, mun ég fagna því og óska eftir að við förum betur yfir öll þessi mál í sjútvn. á grunni, eins og fram hefur komið, þeirra svara sem unnið er að því að fá vegna spurninga sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hefur lagt fram.

Ég vildi bara að þetta kæmi fram. Það er undir öllum kringumstæðum óheppilegt að auka gjaldtöku eftir því sem minna er af að taka. Þess vegna tel ég að þessi fyrirvari sem ég hef er aðallega vegna þess að ég tel að athuga eigi möguleika á einhvers konar langtímajöfnun þannig að fyrirkomulagið geri mögru árin ekki erfiðari fyrir þá sem nýta auðlindina.