Lífræn landbúnaðarframleiðsla

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 13:06:39 (3057)

2001-12-12 13:06:39# 127. lþ. 50.14 fundur 313. mál: #A lífræn landbúnaðarframleiðsla# (EES-reglur) frv. 150/2001, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[13:06]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Þetta mál er þess eðlis að algjör samstaða er í hv. landbn. um að leggja það fram og standa allir nefndarmenn að því. En mig langar til við 1. umr. að láta þess getið að bak við vottun og staðla á lífrænni framleiðslu er ákveðið framleiðsluferli og fyrir þetta ferli og vottunina er verið að greiða hærra gjald. Það hefur viljað brenna við að ekki hafi allir farið alfarið eftir settum reglum, en viljað setja stimpilinn lífræna ræktun eða lífræna framleiðslu á vöru sína til þess að auka söluna og gera vöruna trúverðuga. Þetta á kannski enn frekar við í nágrannalöndum okkar en hér þar sem vitund fólks er enn ríkari um hollustu lífrænt framleiddra vara heldur en hér er. Þess vegna þarf að vera refsiákvæði ef menn eru að votta lífrænt það sem ekki fer alfarið eftir réttum stöðlum.

Einnig vil ég benda á að í landbrn. er verið að vinna að því að endurútgefa og yfirtaka í heild þessar gerðir laga og laga þær að íslenskum aðstæðum eftir því sem svigrúm er til.

Þá vil ég benda á að við höfum enn ekki sett okkur framleiðslumarkmið varðandi lífræna ræktun. Ég tel að við ættum að stuðla að því að hér sé svigrúm til þess að styrkja íslenska bændur til frekari framleiðslu og skapa svigrúm til þess.