Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 13:13:38 (3061)

2001-12-12 13:13:38# 127. lþ. 50.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[13:13]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í skattapakka þessum er fyrst og fremst eitt atriði sem veruleg ástæða er til að fagna og það er afnám skattlagningar húsaleigubóta. Einnig má telja eðlilega þá lækkun tekjuskatts einstaklinga sem kemur á móti hækkuðu útsvari sveitarfélaga. Að ýmsu öðru leyti eru áherslur í þessum skattapakka að okkar mati fráleitar, eins og að lækka sérstaklega skatta á tekjuhæsta fólki landsins án þess að hróflað sé við skattgreiðslum lágtekjufólks og skattleysismörkum haldið óbreyttum. Jafnvel áður en þessi skattapakki verður að lögum eru hafnar umræður úti í þjóðfélaginu um að breyta honum og að til baka gangi að einherju leyti sú hækkun tryggingagjalds sem hér er verið að ákveða.

Afstaða Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs var sú að eðlilegast væri að falla frá þessum breytingum að öðru leyti en því sem snýr að húsaleigubótum og tekjuskatti einstaklinga. Við því hefur ekki verið orðið illu heilli og því verður ríkisstjórnin að bera ábyrgð á afgreiðslu þessa máls.