Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 13:44:25 (3066)

2001-12-12 13:44:25# 127. lþ. 50.8 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[13:44]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að svara þessum spurningum hv. 2. þm. Vesturl.

Við ræddum það talsvert mikið í nefndinni hvernig bæri að standa að úthlutunum á byggðakvótanum eða jöfnunarkvótanum. Við erum ekki með endanlega fullmótaðar reglur um málið en við gerðum hins vegar tilraun til þess í nál. meiri hlutans, eins og hv. þm. hefur séð, að reyna að móta meginreglur um úthlutun þessara heimilda. Við gerum okkur hins vegar grein fyrir að ekki er hægt að ljúka þeirri vinnu fyrr en við sjáum nákvæmlega hvernig staðan verður þegar búið verður að úthluta aflaheimildum. Það er ákveðinn óvissuþáttur sem verður til vegna þess að við opnum á þetta val varðandi aflaheimildirnar og viðmiðunartímann, þannig að við þurfum að sjá endanlega hvernig þau mál standa áður en við getum tekið afstöðu til þess.

Við vitum og á það vil ég leggja mikla áherslu að við erum fyrst og fremst með þessu að bregðast við þeim vanda sem hefur orðið til í byggðarlögum vegna kvótasetningarinnar 1. september og það út af fyrir sig þrengdi töluvert hópinn. Þegar þessi úthlutun liggur fyrir munum við væntanlega sjá hvernig staðan verður í einstökum byggðarlögum. Ég geri mér grein fyrir að staðan í einstökum byggðarlögum verður væntanlega sú að þeir sem verst fara út úr þessu eru að upplifa samdrátt kannski upp á 2/3 í aflaheimildum í þessum tegundum. Það er því mjög mikilvægt að vel takist til með slíka jöfnun.

Varðandi áhrifin á aflamarksbátana þá var það mál svo sem rætt, en við höfðum enga aðstöðu til þess að átta okkur á því með heildstæðum hætti hvernig áhrifin yrðu. Ég vek hins vegar athygli á því að við 1. umr. málsins kom fram að hæstv. sjútvrh. hyggist auka við aflaheimildir a.m.k. í ýsu sem ættu þá um leið að styrkja sérstaklega stöðu aflamarksbátanna.