Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 14:14:15 (3074)

2001-12-12 14:14:15# 127. lþ. 50.8 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[14:14]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Annaðhvort hef ég ekki talað nógu skýrt eða hv. þm. ekki trúað því sem ég sagði. Hann segir að stjórnmálamenn deili og drottni og þetta sé handstýrð úthlutun. Ég var einmitt að reyna að útskýra að svo væri ekki. Stjórn Byggðastofnunar er að vísu pólitískt tilnefnd. Ég var einmitt að reyna að útskýra það að stjórnin setti þróunarsvið stofnunarinnar í að búa til útfærslu á því hvernig farið yrði með þennan kvóta og til þess að þurfa ekki, eins og hv. þm. orðar það, að deila og drottna eða vera með handstýrða úthlutun. Þess vegna var þróunarsviðinu falið að búa til þessar reglur, til þess að stjórnarmenn þyrftu ekki að vera að deila og drottna eða handstýra úthlutuninni. Ég tel að að því leyti hafi þetta heppnast ágætlega.

Ég hef eftir sem áður, eins og ég nefndi í fyrra andsvari mínu, alltaf haft miklar efasemdir um þennan byggðakvóta. Hann hefur að vísu tekist ágætlega sums staðar, t.d. á Þingeyri þar sem hann hefur gert mikið gagn að mínu mati og byggt upp þar öflugt fyrirtæki. Þar hefur byggðakvótinn nýst mjög vel vegna þess að það kom fyrirtæki til liðs við heimamenn með kvóta og menn byggðu þar upp öfluga útgerð og fiskvinnslu. Þá kemur líka á móti að maður heyrir úr nágrannasveitarfélögum að menn segja: Það er ekki nokkur leið að keppa á mörkuðum við fyrirtæki sem er með byggðakvóta og opinbera aðstoð við sinn rekstur. Þannig eru tvær hliðar á þessu öllu saman.

Eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu varaði ég við þessum byggðakvóta þegar Alþingi kom honum á og efasemdir mínar hafa ekkert minnkað. Ég tel að þetta sé afskaplega erfitt í framkvæmd og að enginn sé öfundsverður af því að þurfa að úthluta kvóta með þessum hætti.