Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 14:17:48 (3076)

2001-12-12 14:17:48# 127. lþ. 50.8 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[14:17]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu um breytingar á stjórnkerfi fiskveiði smábátanna er í sjálfu sér mjög pólitískt mál. Ég ætla aðeins að fara nokkrum orðum um það áður en ég geri grein fyrir þeim brtt. sem ég er 1. flm. að.

Málið er mjög pólitískt vegna þess að hér er verið að taka ákvörðun um að breyta því veiðikerfi sem smábátarnir hafa búið við á undanförnum árum, þar sem þeir hafa að stærstum hluta haft kvóta í einni tegund, þ.e. þorskaflahámarksbátarnir, og hinir svokölluðu 30 tonna menn, en síðan hefur þriðja afbrigðið í þessari stjórnun verið sóknardagar.

Það sem menn eru hér að gera er að taka þá ákvörðun að negla niður endanlega að jafnvel smábátarnir skuli fara í hið umdeilda kvótakerfi fiskveiðanna og þar skuli tekin upp slík stýring. Þar hefst líka verslun á þeim tegundum sem kvótasettar eru. Þeim sjónarmiðum er ég mjög andvígur, þ.e. að þetta sé gert á þennan hátt.

Og almennt má segja að þegar verið er að framkvæma slíka úthlutun, þá er verið að gjörbreyta atvinnuháttum og nýtingu á auðlindinni. Með almennum orðum má segja að það liggi í því að sjávarbyggðir, fólkið sem býr í sjávarbyggðunum, ekki bara sjómenn eða útgerðarmenn, heldur fólkið sem býr í sjávarbyggðunum eigi mikil verðmæti í því að þar sé sjósóknarréttur. Það á mikil verðmæti í því að allur hvatinn til að nýta auðlindina liggi í því að skipin rói til þess að veiða fiskinn, því með róðrarlaginu fylgir atvinna. Með kvótasetningunni fylgir minni atvinna og þar til viðbótar fylgir því framsalsréttur. Og enginn í þessum þingsal sér fyrir hvað muni gerast í framhaldi af því að kvótasetningin á sér stað. Það sem menn vita er að afli mun minnka verulega á mörgum landsvæðum.

Tekin hefur verið saman stutt skýrsla fyrir Vestfirði þar sem áætlað var að störfum mundi fækka um a.m.k. þrjú hundruð, um tvö hundruð til sjós og tæplega hundrað í landi. Sú tala hefur eitthvað minnkað vegna þess að stjórnarmeirihlutinn hefur lagt til í frv. að bætt verði í þessa potta, það verði sem sagt meiri aflaheimildir í þeim tegundum sem á að kvótasetja settar inn í þetta veiðikerfi heldur en áður var áætlað. Þannig að sennilega má áætla að mismunurinn gæti verið að því er þetta varðar 150--180 störf á landi og á sjó.

Það segir ekki svo lítið í landshluta eins og Vestfjörðum þar sem við getum reiknað með að á bakvið hvert starf lifi 3--4 einstaklingar, fyrirvinna og börn, fjölskylda, sem hafi lífsafkomu sína af því að þessi störf séu til staðar.

Ég ætla almennt að segja um þetta að ég tel að það sé mikill ábyrgðarhluti af fara svona fram eins og verið er að gera þegar verið er að taka niður atvinnuna með þessum hætti án þess að neitt komi í staðinn. Þetta vildi ég almennt segja í upphafi áður en ég fer að kynna brtt. okkar sem ég ætla að gera nú.

Við höfum lagt fram brtt. við frv. sjútvrh. um veiðar og kvótasetningu krókabátanna og við meirihlutaálit sjútvn. Þessar brtt. eru sem hér greinir og meðflutningsmenn með mér að þeim eru hv. þm. Karl V. Matthíasson og hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson.

Breytingartillögurnar, svo ég lýsi þeim í upphafi í stuttu máli, felast í því að við föllumst á sjónarmið meiri hluta sjútvn. að því er varðar 1. gr. frv. en hún kveður á um það hversu mörg veiðileyfi skuli vera í notkun á Íslandsmiðum. Og í þeirri grein segir að veiðileyfin séu þrjú: aflamarksleyfi sem er veiðileyfi báta yfir sex tonnum, almennt aflamarksleyfi, veiðileyfi krókabáta með krókaaflahlutdeild og veiðileyfi á handfærum á sóknardögum.

Við gerum ekki brtt. við aflamarksleyfið né handfæraleyfið á sóknardögum, en við gerum brtt. við krókaaflahlutdeildarleyfið og leggjum til að það orð falli út og orðið ,,þorskaflahámarkið`` komi í staðinn. Þessi litla breyting þýðir auðvitað hvaða stefnumótun við erum að leggja upp með í brtt. okkar. Hún þýðir það að við erum almennt að leggja til að það veiðikerfi sem smábátarnir höfðu búið við að mestu leyti og menn voru orðnir sæmilega sáttir við, hafa alla vega lýst því yfir að þeir vildu búa áfram við það, yrði áfram varðandi veiðar báta undir sex tonnum. Og hins vegar föllumst við líka á að handfærakerfið verði áfram.

Það segir jafnframt að brtt. okkar ganga út á það að við leggjum til að hinir svokölluðu 30 tonna menn, þ.e. sá hópur smábátasjómanna sem voru rúmlega 90 og veiddu í 40 daga á ári, 30 tonn að hámarki í þorski, sá hópur smábátamanna fái val. Veiðikerfi þeirra verði í raun lagt niður eins og meiri hlutinn leggur til. Við höfnum því ekki, heldur tökum undir það, en þó aðeins gegn því að sá hópur fái val. Hann fái val til að velja sér annaðhvort að fara í handfæraveiðikerfið, 23 dagana sem nú eru orðnir 21, eða hann fái að velja sér að fara yfir í þorskaflakerfið. Og þar af leiðandi mun sú hlutdeild sem þeim bátum var ætluð í heildarafla krókabátanna --- en heildarþorskaflaviðmiðun þessara báta sem núna eiga að fá að velja var 0,18% af þeim heildarþorskafla sem var markaður inn á krókabátana, 0,18% af heildaraflanum --- eðlilega skiptast upp samkvæmt þessum tillögum og líka samkvæmt tillögum meiri hluta, sýnist mér, þangað sem menn velja sér að fara. Ef maður á trillu sem var í þessu 30 tonna kerfi velur að fara í handfærakerfið, þá er í þessum tillögum okkar gert ráð fyrir að hann taki með sér þann rétt sem honum var úthlutaður sem krókaaflamark 1. september og það bætist í hinn óskipta pott handfæramannanna. Ef hann hins vegar velur að fara í þorskaflahámarkið, þá gerist nákvæmlega það sama, það sem honum var úthlutað 1. september fer hann með með sér yfir í þorskaflahámarkskerfið og það verður þá undirstaða hans við að hefja veiðar í þorskaflahámarkskerfinu.

Við föllumst á það sjónarmið sem mikið hefur verið rætt, enda hafa sumir af þeim mönnum sem voru í því kerfi sem ég hef verið að ræða þegar tekið til við að breyta bátum sínum miðað við að fara í handfærakerfið til dæmis, og við föllumst á að það veiðileyfi verði lagt niður, en því aðeins að þeir fái það val að velja á milli handfærakerfisins eða þorskaflahámarksins, sem við leggjum til að verði tekið upp aftur.

Ég hef nú gert grein fyrir brtt. okkar við 1. gr. að í staðinn fyrir orðið ,,krókaaflamark`` komi orðið ,,þorskaflahámark``. Og veiðileyfi við stjórn fiskveiða á Íslandsmiðum verði þrjú.

Síðan leggjum við til að það sem meiri hlutinn leggur til að komi inn í 6. gr. laganna falli niður ásamt núverandi 6. gr. laganna og inn komi tvær nýjar greinar, 6. gr., sem tekur yfir alla útfærslu er lýtur að krókabátum á þorskaflahámarki. Og þar megi í einni grein, 6. gr., lesa allt sem að þeim veiðum snýr, 20% færsla milli ára, 30% sem þeir mega leigja frá sér og ekki síst það sem við leggjum til sem nýmæli í útfærslu þeirra, en það er að takmarka róðrarbala þeirra í hverjum róðri.

[14:30]

Við flutningsmenn þessarar brtt. leggjum til að heimild þorskaflahámarksbátanna miðist við að þeim sé heimilt að róa með 24 bala með 500 króka hver í hverjum róðri. Það sé sem sagt það sem þeir megi gera á sólarhring, og þannig verði komið til móts við það að hafa áhrif á að afli þeirra í þessum aukategundum vaxi ekki ár frá ári.

Reyndar held ég að rétt sé að draga það fram í þessari umræðu að þær takmarkanir sem við erum hér að leggja til --- og má kannski segja að þær hefðu varla einu sinni verið sanngjarnar á því hausti sem núna hefur gengið yfir --- en það á auðvitað að ræða þegar verið er að tala um útfærslu á veiðikerfi smábátanna, að smábátaflotinn er afar háður veðri og vindum.

Þó að forusta LÍÚ og margir aðrir hafi séð ofsjónum yfir því hversu gangur smábátanna var góður í fyrra og hittiðfyrra þá held ég að fáir þurfi að öfundast yfir afkomu þeirra og tekjum á þessu hausti. Því miður hefur tíðarfar verið þannig að sjósókn þeirra hefur ekki verið mikil. Og það er ekki eingöngu tíðinni að kenna. Því er líka um að kenna að settur var á þá kvóti 1. september og þeir fengu það litla úthlutun margir hverjir að margir hafa ekki getað róið vegna þess að þeir hafa ekki haft heimildir fyrir þeim tegundum sem á krókana bíta. Og þá sitja menn auðvitað uppi með þá staðreynd að þó að mönnum takist með beituvali að hafa nokkur tök á því í hvaða afla þeir eru að sækja þá fá þeir því ekki ráðið. Fiskurinn bítur á án þess að vita hvort hann megi það. Og einhver hafði, minnir mig, orðað það svo í fyrirsögn í blaðagrein: ,,Er ýsan orðin ódráttur?`` Í sumum tilfellum hefur það reynst vera svo hjá mönnum í haust að ýsan var ódráttur vegna þess að þeir höfðu ekki heimildir til ýsuveiða.

Það er auðvitað illa komið þegar menn hætta að horfa á hið raunverulega Ísland, hið raunverulega veðurfar, hina raunverulegu sjósókn, sem er afar misjöfn á þessum stærðum skipa milli ára eftir tíðarfari og festast í því fari sjávarútvegsráðherrans sem leggur hér upp með að allir skuli barðir til hlýðni við valdboð kvótasetningarinnar burt séð frá hagsmunum byggðarlaga, stöðu þeirra, sjósóknarmöguleikum eða afkomu fólksins. Það er eingöngu verið að úthluta til útgerðarmannanna sem eiga þessa báta. Það tryggir ekkert endilega hagsmuni fólksins.

Ég sagði í upphafi máls míns að fólkinu í sjávarbyggðunum væri verðmætur sjósóknarrétturinn. Það er vegna þess að sjósóknarrétturinn er leyfi til að fara á sjó og veiða fisk. Þegar bátur rær til fiskjar þá verður það til þess að skapa atvinnu því það þarf beita línuna og vinna við fiskinn þegar hann kemur að landi.

Kvótasetningin ein og sér hefur ekkert sérstakt með það að gera. Hún er í raun eignfærsla. Sumir gætu sagt að verið væri að bera fé á menn með því að úthluta þeim kvóta. Þegar þessari kvótasetningu verður að fullu lokið mun örugglega vera hægt að finna dæmi um að menn fara fljótlega og selja allan þennan rétt sem er verið að fá þeim, alveg burt séð frá því hvort fólkið hefur af því einhverja atvinnu eða ekki. Þeir munu hagnast á því sem rétturinn er núna. En fólkið sem eftir situr, það mun tapa.

Þetta er munurinn á því að vera með kerfi eins og við vorum með, þar sem menn höfðu bara þorskinn sem heimild en höfðu síðan hvatann í því að sækja sjóinn, og þess kerfis sem meiri hlutinn er að leggja hér til að verði tekið upp. Það er ömurlegt til þess að vita að hinar dreifðu byggðir, sjávarbyggðir í kringum Ísland sem aðeins eru staðsettar þar í hverri vík og firði sem þær eru vegna þess að þaðan var gott að sækja sjó, skuli nú eiga allt sitt undir því að menn hafa tekið það upp að setja kvóta á trillur á Íslandsmiðum. Þó trillurnar séu svo hraðskreiðar og hafi breyst og séu búnar til úr plasti með stórum vélum þá eru þær enn þá háðar sjósóknarréttinum og enn þá háðar veðri og vindum.

Ég hef oft sagt að sitt er hvað að eiga allan sinn hvata og afkomu undir því að fá að róa og sækja sjó, skapa atvinnu í kringum sig með því, eða hafa úthlutað á bátinn sinn 50 tonnum af einhverjum fiski. Róðrarlagið er allt öðruvísi hjá þeim mönnum sem eiga eitthvað undir við að sækja sjóinn, en hinum sem hafa kvóta á bátnum en engan sérstakan hvata í sjósókninni, hafa jafnvel meira út úr því að selja frá sér aflaheimildina ef þeir kæmust upp með það. Þess vegna má segja sem svo að við getum út af fyrir sig verið fegin að meiri hlutinn skuli vera með það inni að það séu þó ekki nema 30% sem menn mega leigja frá sér. og til baka því það hefur mikil áhrif á það hvar aflinn er veiddur. Bæði sjómenn og þeir sem atvinnu hafa af vinnslu fisks vilja auðvitað hafa nokrra vissu fyrir því að þær heimildir sem á bátana eru settar séu veiddar. Það atriði er því út af fyrir sig til bóta í tillögu meiri hlutans.

En hitt fer ekki á milli mála að sú tillaga sem við erum að leggja hér til um að viðhalda þorskaflahámarkskerfinu er miklu frekar til bóta en það sem hér er verið að leggja til af meiri hlutanum. Það mun viðhalda þeirri bjartsýni sem var byrjuð að rísa í mörgum minni sjávarbyggðum landsins og ekki var vanþörf á því.

Ég hygg að ég komi frá þeim landshluta sem hefur fengið hvað mesta skellina í því að þaðan hafi verið seldur kvóti. Hann hefur farið á ýmsa staði. Hann hefur farið til Akureyrar m.a. og hann hefur farið til Grindavíkur svo nokkur dæmi séu nefnd og víða annars staðar hefur hann farið. það hefur haft þau áhrif að atvinna við fiskveiðar og fiskvinnslu hefur snarminnkað á Vestfjörðum sem líka hefur orðið til þess að almennt tekjufall hefur orðið að meðaltali á Vestfjörðum og laun Vestfirðinga hafa lækkað niður fyrir landsmeðaltal en voru oftast nær langt fyrir ofan landsmeðaltal.

Eins og ég sagði áður þá væri betra ef breytingin á 6. gr. sem við leggjum hér til yrði samþykkt sem ég geri mér vissulega vonir um, þ.e. að nokkur hluti stjórnarþingmanna muni fylgja sannfæringu sinni í því að þetta sé betra en fara þá leið sem lögð er til í frv., þ.e. að kvótasetja, og þeir átti sig á því að sú vegferð sem núna hefur verið mótuð í meirihlutaáliti þeirra er slæm hvernig sem á málin er litið. Þó að menn haldi áfram að bera kvótapotta í menn og haldi áfram að bæta inn í þá er útfærslan, kvótakerfi á smábáta, slæm sem slík. Hún hefur áhrif á afkomu fólksins og traust þess á því að það sé hagur útgerðarinnar að sækja aflann í sjóinn. Svo kann nefnilega að fara þegar menn eru farnir að leigja frá sér þorskkílóið á 150 kr. að það sé orðinn hagur manna að stunda ekki sjó heldur leigja frá sér heimildirnar, þ.e. það af þeim sem þeir geta leigt.

Síðan er önnur grein í tilögum okkar sem við nefnum 6. gr. a. Þessi 6. gr. a tekur á öllum atriðum sem snúa að handfærastýrðu sóknardagakerfi. Þar af leiðandi, ef þetta yrði að lögum, þyrftu menn ekki að fletta upp í miklu öðru um smábátana en 6. gr. nýrri og 6. gr. a. Þar stæðu þær heimildir í heilu lagi í lögunum sem snúa að veiðum þessara báta, en ekki eins og nú er, þ.e. að þetta er út um allt í lögunum, í bráðabirgðaákvæðum og hingað og þangað og þau bráðabirgðaákvæði, held ég, að séu orðin þegar 27 í þessari löggjöf okkar. Og reyndar mun það 28. bætast við.

Þrátt fyrir að við vildum standa að því að lagfæra lögin og framkvæma ákveðna lagahreinsun í þeim þá tökum við undir það sama ákvæði í brtt. okkar og lagt var til hjá meiri hlutanum, þ.e. að heimila að landa 5% af afla utan aflamarks og að það sé ekki bundið við hverja sjóferð. Við erum sammála meiri hlutanum í því en gerum örlitla breytingu sem ég mun gera grein fyrir á eftir.

Varðandi hins vegar handfærakerfið á sóknardögum þá leggjum við til að settur verði botn í dagana. Við teljum nauðsynlegt að menn viti hvað þeir megi veiða í marga daga á ári. Það verður engum ofáætlað lifibrauð af því að veiða aðeins í 23 daga á ári. Við flutningsmenn þessara brtt. höfum tekið þá afstöðu að það verði það lágmark sem menn megi a.m.k. sækja sjó, að fest verði niður í löggjöf að dagar handfæramanna til að veiða fisk á einu ári séu ekki færri en 23. Það hljóta menn að geta séð að er sanngirnismál.

Það er líka sanngirnismál fyrir þá sem eiga að fá að velja, mennina sem voru áður á 40 dögunum með 30 tonnin. Það er líka sanngirnismál fyrir þá að vita inn í hvað þeir eru að fara að velja sig, að þeir viti að þeir eru að fara að velja sér, ef þeir ætla að fara inn í handfærakerfið, að fá að veiða í 23 daga á ári, að það liggi alveg kristaltært fyrir, en ekki eins og er í frumvarpinu að þeir eigi að velja án þess að vita hvernig framtíðin verður. Það er að vísu gerð fyrir því grein í nál. meiri hlutans að meiri hlutinn ætli sér að leggja fram frv. í þinginu fyrir 1. febrúar sem kveði á um hvernig málefnum handfæramanna á sóknardögum verði skipað á næstu árum.

En þá spyr ég: Hvers vegna leggja menn þá til að valið skuli fyrir 1. febrúar? Hefði ekki verið nær að menn veldu fyrir 15. febrúar þannig að menn hefðu a.m.k. 10--15 daga frá því tillögur meiri hlutans lægju fyrir til þess að velja, þannig að þeir sæju nú a.m.k. örugglega það sem þeir ætla að gera.

Við leggjum það reyndar til í brtt. okkar að þeir fái þennan frest fram til 15. febrúar í valinu því þó við teljum að mjög margir þingmenn hafi samvisku til þess að fylgja brtt. okkar þá erum við ekkert vissir um að þeir fylgi samvisku sinni og greiði þessum tillögum atkvæði. Þar af leiðandi kann svo að fara að meirihlutaviljinn verði hér að lögum og þess vegna vildum við láta þessa dagsetningu, 15. febrúar, koma inn í tillögur okkar þannig að menn gerðu grein fyrir því hér hvers vegna við erum að leggja það til og þannig að meiri hlutinn átti sig á því af hverju við leggjum þetta til.

Við skulum ekki heldur gleyma því að við erum að ræða þessi mál hér og komið er langt fram í miðjan desember og ef að líkum lætur mun ætlunin að klára að lögfesta breygingu varðandi smábátana fyrir jól. Ég held að það sé allt í lagi þó að menn hafi tvo mánuði til þess að taka ákvörðun. Ég held að það sé ekki ofáætlað, fyrir utan það að handfæramennirnir mega hvort sem er ekkert hefja veiðar fyrr en í apríl. Það er því ekki eins og málið sé að hlaupa frá mönnum þó þessi dagsetning væri 15. febrúar.

Í 6. gr. a eru sem sagt öll þau ákvæði sem við teljum að þurfi að standa um veiðikerfi handfæramanna á sóknardögum. Við leggjum þetta til með 23 dagana, að það verði botn, þannig að menn viti að dögunum mun ekki fækka meira en það, þeir verði 23. Þeir eru orðnir 21 í ár og til eru þeir menn sem lifa eingöngu á því að stunda þessar veiðar og ég tel þeim ekki ofætlað þó þeir fái að stunda veiðar í 23 daga á ári.

[14:45]

Síðan leggjum við annað mjög mikilvægt atriði til sem meiri hlutinn kemur reyndar líka að í nál. sínu, um að taka á málum sóknardagamannanna. Það er sú réttlætiskrafa að veiðitími sjómanna á sóknardögum sé mældur í klukkustundum en ekki sólarhringum og að það ákvæði verði fellt burtu að mönnum sé stillt upp við vegg með að ná til hafnar eða ná að tilkynna sig til hafnar innan 24 klukkustunda svo þeir eyði ekki tveimur sóknardögum.

Þetta hefur myndað óþarfa karp og óþarfa þrýsting á það hvernig menn umgangast þessar reglur. Ef þetta væri mælt í klukkustundum þá skipti ekki máli, ef menn lentu í erfiðleikum eða brælu á landleið, hvort veiðiferðin yrði 24 tímar eða 25 eða 26. Það mundi eingöngu mælast í þeim klukkustundum sem menn væru á sjó. En menn væru ekki að tapa 24 klukkustunda veiðirétti fyrir að verða of seinir í land um einn klukkutíma, eins og reglurnar eru núna.

Fyrir utan það eru margir af þeim mönnum sem voru í 40 daga kerfinu og voru að veiða upp í 30 tonnin, og eiga núna að fá að velja um að fara í handfærakerfið eða þorskaflahámarkskerfið, orðnir mjög fullorðnir. Til eru dæmi um sjómenn í þessum flokki sem eru komnir undir áttrætt. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þessum mönnum sé gert að velja sér kerfi þar sem þeir eiga að standa stanslaust við vinnu sína í 24 tíma á sólarhring til þess að nýta þessa fáu daga sem þeir mega veiða á ári. Þess vegna er það hreint mannréttindamál að þessu verði breytt þannig að menn fái að stunda þessa fáu daga með því lagi sem þeir telja sjálfir að sé þeim hagkvæmt og að eldri sjómenn geti farið á sjó snemma á morgnana og komið af sjó á kvöldin og veiðitími þeirra hafi þá bara verið þær klukkustundir sem þeir voru á sjó, 16 eða 18. Það er meiri en nógur veiðitími fyrir eldri sjómenn.

Þetta er algjört sanngirnismál að okkar viti. Ég held að það sé mjög mikill misskilningur þegar menn eru alltaf að halda því fram að ef þetta verði gert þá aukist svo ofboðslega hin virka sókn þessa flota. Ég held að það sé þveröfugt. Ég ætla að fara nokkrum orðum um það og færa rök fyrir því.

Ef við ætlum að halda því áfram að vera með 24 klukkustunda kvöð við nýtingu þessara daga þá mun það bara þýða eitt. Það þýðir að inn á þessa báta ráðast aðeins mjög kraftmiklir og duglegir menn, menn sem þola að standa stanslaust við veiðar í 24 klukkutíma á sólarhring.

Hvað þýðir það? Það þýðir að með því lagi er verið að efla sókn þessara báta, gera þá enn þá virkari. Eldri mennirnir munu ekki þola þessa sókn. Þeir munu ráða sér yngri menn á þessa báta sem munu fullnýta allar þær klukkustundir, eins og þeir hafa gert sumir sem hafa náð mestum árangri í þessu 23 daga kerfi.

Það þýðir eingöngu að sú útfærsla sem við búum við verður enn virkari en hún hefur verið þegar gömlu mennirnir hrekjast úr því og yngri mennirnir þurfa að koma inn. Þess vegna held ég að það sé að öllu leyti skynsamlegt að breyta þessu í tímamælingu og að eldri mennirnir geti fengið að hafa það róðrarlag við fiskveiðarnar sem þeir telja sér henta.

Vel kann að vera að róðrarferðir þeirra verði 30 eða 35 yfir árið. En þeir hafa þá líka siglt sem því nemur oftar að og frá landinu. Og sá tími er ekki veiðitími. Hann er siglingatími. Hann er ekki virkur veiðitími.

Þetta kemur auðvitað oft fram þegar verið er að setja svona reglur og rétt er að rifja það aðeins upp. Einu sinni voru 80 dagar heimilaðir sem veiðidagar í þessu kerfi. Þegar það var nýtti enginn dagana, nánast ekki einn einasti maður. Það var enginn í því kappi að nýta þessa daga í botn. Dögunum var fækkað niður í 43, ef ég man rétt. Þá fóru menn að keppast við að nýta dagana. Samt, hugsa ég, kláruðu ekki nema 10% af þeim þessa 43 daga, eða 10--15% mannanna.

Þegar dögunum hins vegar var fækkað niður í 23 fóru menn auðvitað að setja á fullt og hættu að fara á sjó í neinum vafasömum veðrum þar sem þeir hugsanlega yrðu að snúa við eftir sex, sjö klukkustundir, en fóru eingöngu á sjó þegar öruggt var að þeir gætu veitt stanslaust í 24 klukkustundir. Og þegar þeir voru vissir um það samkvæmt fréttum frá öðrum bátum að mokveiði væri þá fóru þeir á sjó af því þeir áttu aðeins 23 daga og tímamælingin var sólarhringur.

Þar af leiðandi hefur þessi niðurskurður daganna orðið til þess að virkur veiðitími á þessum 23 dögum hefur orðið meiri og afköstin hafa vaxið.

Ef menn ætla enn að skera þetta niður þýðir það enn þá meiri kröfur um kraftmeiri menn á þessa báta og við erum að sparka eldri sjómönnunum í land úr þessum flota. Það tel ég illa farið.

Ég tel að strax eigi að breyta þessum dögum í tímamælingu og að setja eigi botn í þessa daga. Það gengur ekki að halda svona áfram að fækka þessum dögum.

Þetta þýðir það í brtt. okkar, eins og ég hef nú gert grein fyrir, að við leggjum til tvær aðferðir við veiðar krókabátanna, veiðar í þorskaflahámarkskerfi með sama lagi og voru hér á síðasta fiskveiðiári og veiðar í sóknardagakerfi handfærabátanna. Kerfi hinna 40 daga manna með 30 tonn verði lagt niður, en réttur þeirra fylgi þeim þangað sem þeir velja sér að fara, hvort sem þeir velja að fara í handfærakerfi á 23 dögum eða þorskaflahámarkið.

Síðan í framhaldi af þessum breytingum sem við leggjum hér til þarf á nokkrum stöðum í lögunum að breyta orðum, þ.e. þar sem komið var inn orðið ,,krókaaflamark`` yfir í ,,þorskaflahámark``. Síðan þarf að breyta og fella niður ákveðin lagaákvæði til samræmis við þær lagabreytingar sem við leggjum hér til sem brtt. við tillögur meiri hlutans í þessu máli um smábátana.

Ég er búinn að gera grein fyrir því að við föllumst á að þessi ákveðni hópur fái að velja í sitt hvora áttina og að það eigi sér stað fyrir 15. febrúar og að hlutir þeirra færist með þeim þangað sem þeir velja sér að fara.

Síðan höfum við tekið undir tillögu meiri hlutans um að landa megi afla utan aflamarks, 5%, þ.e. við tökum undir þá útfærslu nefndarinnar og að það verði gert þannig að það verði ekki bundið við veiðiferð og verði nánast óbreytt eins og nefndin leggur til, nema að einu leyti. Við leggjum til að þeir fjármunir sem ætlað var að renna merkt í eina átt, eingöngu til Hafrannsóknastofnunar, fari í annan kanal. Við segjum hér að aflaverðmætið renni að jöfnu til hafrannsókna annars vegar og lífeyrissjóða sjómanna hins vegar og að ráðherra setji nánari reglur þar um í samráði við hagsmunasamtök sjómanna og útvegsmanna, að í samráði við hagsmunasamtök sjómanna og útvegsmanna verði settar nánari reglur um þetta atriði.

Þetta þýðir, eins og við leggjum þetta upp, að Hafrannsóknastofnun getur auðvitað eftir sem áður mjög eðlilega sótt í þessa peninga. Eins og rannsóknir hafa verið stundaðar hér á landi þá hefur það auðvitað verið Hafrannsóknastofnun sem hefur borið hitann og þungann af rannsóknum í sjó við Ísland og eðlilega mundi Hafrannsóknastofnun því sækja í þennan sjóð. En þetta segir líka, samkvæmt okkar hugmyndum, að aðrir sem stunda sjálfstæðar rannsóknir geti einnig sótt í þennan sjóð. Ég tel að við eigum að hvetja til þess að fleiri aðilar geti tekist á við að rannsaka lífríkið í sjó við Ísland en eingöngu Hafrannsóknastofnun og að menn hafi einhvern tekjumöguleika í því sambandi.

Hafrannsóknastofnun fær fé á fjárlögum og ég tel tímabært að stofna til einhvers konar sjóðs eða vörslu fjármuna m.a. af þeim fjármunum sem hér eru ætlaðir af upptöku afla eða hluta þess aflaverðmætis sem komið er með að landi sem utanaflamarksfisk eða utanaflakvótafisk.

Hins vegar er því ekkert að leyna að samkvæmt tillögum okkar yrði þessi sjóður ekki jafndigur og gert er ráð fyrir í frv. meiri hlutans því hér mundi samkvæmt þessu, alla vega að því er varðar krókabátana, eingöngu vera um þorskafla að ræða því það væri sá afli samkvæmt tillögum okkar sem væri kvótasettur á smábátunum. Þar af leiðandi væri afli sem smábátasjómenn landa að þessu leyti, þ.e. ef hann væri tilkynntur utan aflamarks, þorskur, af því við leggjum eingöngu til að þorskaflahámark verði til notkunar fyrir smábátana.

Þessi grein laganna er hins vegar almenn. Hér er verið að leggja til ekki bara útfærslu gagnvart smábátum heldur er verið að leggja til almenna grein sem nær til alls flotans. Þar af leiðandi tekur hún til allra aflamarksskipa, stórra sem smárra, yfir 6 tonn. Og þá til allra fisktegunda sem þar eru bundnar í kvóta. Ég hygg því að ekki yrði mikil tekjurýrnun fyrir þennan sjóð þó það yrði gert sem hér er lagt til. En hún yrði örugglega einhver m.a. vegna þess að smábátasjómenn mundu ekki landa ýsu inn í þennan kanal þegar þeir gætu selt smáýsu á góðu verði.

Að öðru leyti tökum við undir að eðlilegt sé að opna þá leið að menn megi tilkynna afla utan aflamarks, að það sé ekki bundið við hvern einasta róður heldur bundið við tímabilið, sem þýðir auðvitað að menn geta verið með engan afla í einni veiðiferð en jafnvel 30% í annarri án þess að þeir fari neitt á skjön við þetta heimildarákvæði.

Við tökum því undir þetta ákvæði og breytum eingöngu hvað varðar þá hugsun að skoða það að setja í lög að sjútvrh. yrði síðan að leita samkomulags við hagsmunasamtök sjómanna og útvegsmanna um hvernig þessu yrði varið, þ.e. annars vegar til lífeyrissjóða sjómanna sem auðvitað mundi þá renna til þeirra sjóða sem sjómenn væru í eftir því frá hvaða skipum aflanum væri landað og hins vegar í sérstakan sjóð sem yrði varið til hafrannsókna.

Þetta er meginmál brtt. sem við höfum hér lagt til. Nú stendur val hv. þingmanna um það hvort þeir fallast á röksemdir okkar í þessum brtt. um að hér skuli haldið áfram með veiðikerfi smábáta sem að vísu verður einni útfærslunni færra, því lagt verði niður veiðikerfi á 40 dögum með 30 tonnum, en eftir standi veiðikerfi smábáta undir 6 brúttótonnum sem byggist á því að þeir hafi þorskaflahámark eins og verið hefur og takmörkun á balafjölda í hverjum róðri miðað við 500 króka, 24 bala á sólarhring, og hins vegar handfærakerfið með lágmarki, 23 dögum á ári, og með tímamældri sjósókn sem er réttlætismál.

[15:00]

Miklar deilur hafa ríkt um veiðikerfi krókabátanna hér á landi í mörg ár. Þetta er ófriður sem hefur ríkt um veiðikerfi smábátanna og stjórnvöld hafa gengið þar erinda stórútgerðarinnar í landinu, eins og ég sagði í inngangi máls míns, um að sá floti væri stórhættulegur lífríki sjávar og hann þyrfti að takmarka alveg sérstaklega.

Ég minnti á það hér í upphafi að þó að smábátaflotinn sé orðinn hraðskreiður og skip séu orðin úr plasti en ekki úr tré eins og áður var, þá er hann samt háður veðri og vindum. Og ekki lagaði kvótasetningin á þessu hausti ástandið og tíðarfar haustsins hefur verið með afbrigðum slæmt til sjósóknar fyrir minni báta. Nú er það komið í ljós sem menn hafa auðvitað alltaf vitað sem hafa stundað fiskveiðar hér við land, að það koma ár sem smábátarnir gera ekki stóra hluti yfir vetrarmánuðina en geta hins vegar stundað sjó af nokkrum krafti yfir sumarmánuðina og á vorin og kannski fyrri hluta hausts.

Þess vegna færi miklu betur á því að þeir menn hefðu meira veiðifrelsi til þess að geta nýtt sér hinar breytilegu aðstæður sem þeir búa við í sjósókn sinni. Og þeir búa ekki bara við breytilegar aðstæður vegna veðurfars til sjósóknar, þeir búa einnig við mjög breytilegar aðstæður eftir landshlutum og landsvæðum. Sá breytileiki birtist í því að við Ísland er mjög breytilegur sjávarhiti á milli ára.

Nú um nokkurra ára skeið hefur sjór við Ísland hitnað mjög mikið og það er tiltölulega mjög hlýtt fyrir norðan og austan land, mun hlýrra síðustu þrjú, fjögur árin en verið hefur í mörg ár þar á undan og meira innstreymi af hlýjum Atlantssjó. Þetta gerir það að verkum að útbreiðslusvæði þorsksins við landið stækkar til norðurs og útbreiðslusvæði annarra fisktegunda gerir það líka. Ýsan gengur inn á norðurmiðin. Og reynsla er fyrir því sem menn hafa séð núna síðustu tvö, þrjú árin að ýsa er komin í Húnaflóann og fyrir utan Skagafjörð og einnig er komin ýsa á Grímseyjarsund. Þessara breytinga á göngum ýsunnar varð fyrst vart við Húnaflóann. Þar fór allt í einu að fiskast ýsa sem ekki hafði fiskast þar í hálfa öld. Gamlir menn á Drangsnesi hafa sagt mér að þá sjaldan menn fengu ýsu hér á árum áður, þá stungu þeir henni í plastpoka til að komast með hana heim óséða, hún þótti alveg sérstakt verðmæti í soðið.

Þetta er ekki vegna þess að við séum að setja hér einhver lög um veiðar, þetta er eingöngu vegna þess að lífkerfið við Ísland breytist. Og þrátt fyrir það að við sjáum þessi dæmi fyrir framan okkur þá erum við samt að setja lög sem passa engan veginn inn í þennan breytileika. Það kemur auðvitað best fram þegar á að fara að kvótasetja núna t.d. ýsuna. Hvaða rétt skyldu Grímseyingar fá út úr þessari kvótaúthlutun þó þar hafi komið ýsa á sumardögum og verið ýsa á miðum þeirra þetta sumarið? Jú, vegna þess að í tillögu meiri hlutans var sett það ákvæði að menn fengju að velja eitt ár af tveimur, þá eru líkur til þess að jafnvel Grímseyingar fái örlítinn ýsuvott þegar þeim verður úthlutað. Þeir geta sem sagt valið síðasta fiskveiðiár og náð þar af leiðandi inn í veiðireynslu sína þrem, fjórum mánuðum þar sem þeir hafa fengið ýsuafla. Það gæti þýtt að bátarnir í Grímsey fengju 2--4 tonn af úthlutun í ýsu. Það gæti þýtt það í staðinn fyrir að fá ekki neitt.

Dæmin eru svipuð við Húnaflóa þó að menn hafi reyndar búið við ýsuveiði þar núna í tvö ár að einhverju leyti, þeir fá því sumir hverjir eitthvað fleiri tonn en Grímseyingarnir.

Ef þessu heldur áfram, að ýsan fari að venja göngur sínar fyrir Norðurland og færist austur eftir Norðurlandi, þá kemur auðvitað upp algjört neyðarástand víða hjá mönnum í sjósókn á smærri stöðunum við Norðurland. Menn munu standa frammi fyrir því að þeim bjóðist að gerast leiguliðar á hinum vinsæla leigumarkaði kvótagreifanna. Þeim verði boðið upp á að leigja til sín fisk, óveidda ýsu, sem allt í einu árið 2002 og 2003 færi að ganga í verulegum mæli inn á norðurmið. Þeim verður boðið upp á dýrðardaga leiguliðans, að borga nú nánast helminginn af virðinu við að veiða aflann beint til einhvers manns sem fékk ýsukvóta úthlutað.

Þess vegna segi ég: Almenna útfærslan í aflamarkskerfinu er auðvitað sú að það er verið að bera fé á menn. Það er verið að úthluta mönnum rétti.

Hin gullvæga regla í öllum veiðum var sú að menn þurftu aldrei neitt nema veiðiréttinn og nýtingarréttinn. Það var það sem útgerðarmenn á Íslandi þurftu. Allir. Þeir þurftu að vita að þeir fengju að róa til fiskjar og hefðu til þess rétt á skipum sínum. Það þurftu þeir að vita. Þeir þurftu aldrei á kvótaeignarúthlutuninni að halda. Eða leiguréttinum til að leigja þennan fisk. Þeir þurftu sem sagt aldrei sölu- og leigurétt á óveiddum fiski. Þeir þurftu eingöngu á því að halda að geta stundað fiskveiðar, vera vissir í því að þeir fengju að stunda sjó. Ef menn ætluðu að taka upp leigu- og sölurétt þá átti hann að vera hjá ríkinu, ef vilji manna var að gera það, og allir að sitja við sama borð við að nálgast þær aflaheimildir, að vísu eftir flokkastýrðri útfærslu flotans.

Ég tel það alveg einboðið, og þá er ég ekki endilega að tala um kvótakerfið, hvort sem menn eru að tala um sóknarstýrðar fiskveiðar, kvótastýrðar fiskveiðar eða menn nálgist aflaheimildir sínar í gegnum uppboð, að það verður að vera stýrt.

Það er ekkert vit í því hjá okkur að ætla flotanum að keppa um aflaheimildir á einum og sama uppboðsmarkaðnum, trillunni og togaranum, síldarbátnum og skelbátnum. Þetta hlýtur að þurfa að vera stýrt ef menn ætla að fara þá leið þannig að flotanum sé skipt upp í aðgreinda útgerðaflokka og ef menn ætla að setja það á að nálgast veiðiréttinn með leigu, þá sé það gert þar sem menn sitja við sama borð, en þó stýrt.

Og hvers vegna segi ég þetta? Ég segi þetta vegna þess að hægt er að lesa þetta út úr íslenskri útgerðarsögu. Hvað gerðum við á árunum 1950--1960? Jú, allir byggðu síldarbáta, allir fóru á síld. Nánast hver einasti útgerðarmaður rauk yfir í síld. Togaraflotinn okkar koðnaði niður á þessum árum. Einu togaraútgerðirnar sem héldu nánast velli voru á Akureyri, í Reykjavík og í Hafnarfirði. Alls staðar annars staðar fóru menn í síld.

Svo brást síldin. Hvað gerðu menn þá? Þá fóru allir í togveiðar. Allir fóru í togveiðar. Og sumir stóðu jafnvel í þeirri meiningu að hægt væri að nota kraftblökkina til þess að hjálpa til að hífa vírana, vegna þess að spilin höfðu engan kraft til að hífa hlerann sem var hengdur aftan í bátana. Þetta var svona. Enda voru síldarbátarnir byggðir með lítið vélarafl.

Þegar menn síðan sáu að þessi bátafloti dugði ekki til togveiða, þá fóru menn allir í skuttogara. Auðvitað byggðu allir skuttogara. Síðan vildu allir byggja frystitogara. Allir vildu fara í frystitogara. Það var að vísu eitthvað takmarkað á tímabili, en samt hefur þróunin orðið sú að frystitogurum á Íslandsmiðum hefur fjölgað.

Samt stóðu menn þó í þeirri meiningu þegar verið var að færa út landhelgina á sínum tíma að Ísland sem slíkt væri verksmiðjuskip. Ísland sem slíkt væri statt á miðjum Íslandsmiðum. Það væri auðvelt að bera fisk að landi á Íslandsmiðum til vinnslu, til þess að halda uppi atvinnu, gefa fólki kost á að byggja landið vítt og breitt í hinum dreifðu sjávarbyggðum. Og auðvitað var það svo. Ísland er vissulega statt á einhverjum bestu fiskimiðum heimsins. Og víðast hvar er ekki mikið lengra til jafnvel dýpstu miða en sex til átta klukkustundir á venjulegum bát. Það var því rétt hjá mönnum á síðustu öld að Ísland var statt mitt á bestu fiskimiðunum.

En auðvitað verður þróun í veiðum við Ísland. Íslendingar hafa vissulega farið að veiða margar fisktegundir af miklum krafti sem menn gerðu ekki á síðustu öld. Þegar skrapdagakerfið var t.d. tekið upp var það beinlínis tekið upp til þess að ýta mönnum af stað í að nýta karfaheimildir sem Þjóðverjar voru þá að hverfa frá eftir 1977 og grálúðu hér við land. Og frystitogarafloti okkar hefur gert þetta af miklum myndarskap að nýta þær fisktegundir. Fáir hefðu getað gert meiri verðmæti úr þeim tegundum en einmitt þessi floti hefur gert. Þar að auki höfum við tekið upp veiðar á úthafskarfa og ýmsum djúpsjávartegundum eins og gulllaxi. Það er því mörg matarholan sem frystitogaraflotinn hefur bætt við nýtingu þjóðarinnar á fiskimiðunum. Og ekki er ástæða til að amast við því að við skyldum þróa eitthvað af flota okkar yfir í frystitogara.

En það segir ekki endilega að við eigum að halda áfram að þróa öll skip sem á annað borð stunda togveiðar við Ísland smátt og smátt yfir í frystitogara. Ég hygg að við séum komnir alveg nógu langt í þeim efnum og beri að viðhalda frekar þeim flota sem við höfum en að fjölga honum. En því er ekki að leyna að frystitogararnir hafa gert mikil og góð verðmæti úr nýtingu sumra fisktegunda, einkum karfa og grálúðu.

Það er hins vegar spurning hvort við getum leyft okkur almennt að nýta fiskstofn eins og þorskstofn í vaxandi mæli með togveiðarfærum. Og ég ætla að fara nokkrum varnaðarorðum yfir það í þessari umræðu.

Ég tel mig búa yfir nokkurri reynslu af því að stunda togveiðar. Þar að auki tel ég að ég hafi lesið mér þó nokkuð mikið til um það hvernig togveiðar hafa átt sér stað á öðrum miðum hér í norðurálfu. Mér virðist að staðreyndin sé sú að þegar togveiðar fara að nýta yfir helminginn af fiskstofni eins og þorskstofninum, þegar farið er að taka helminginn af aflanum í togveiðar, þá láti stofnarnir á sjá. Þetta held ég að sé reynsla sem menn geta mjög auðveldlega séð t.d. frá Nýfundnalandi. Þetta er reynsla sem menn geta auðveldlega séð úr Barentshafi. Og þetta er reynsla sem menn geta mjög auðveldlega séð við Norðursjó.

Ég held að almennt megi segja að varasamt sé að láta veiðarnar þróast með þeim hætti að það sé nákvæmlega sama í hvaða veiðarfæri við tökum aflann. Ég held að það sé ekki svo. Það sé alls ekki sama í hvaða veiðarfæri við tökum aflann. Ég held að við eigum að hafa fjölbreytta flóru fiskiskipa, minni fiskiskip, strandveiðiflota og togskip, netaveiðibáta, línuveiðibáta o.s.frv. til þess að nýta hin ýmsu fiskimið hér við land. Ég get a.m.k. ekki séð það fyrir mér að ef smábátaflotanum verður eytt á eftir vertíðarflotanum sem þegar er að stórum hluta búið að leggja niður, þá verði það næsta skref til að nýta fiskimiðin við Ísland að við heimilum að þúsund tonna togari veiði á Faxaflóa til þess að ná upp aflaheimildum þar. Ég sé það ekki fyrir mér að nokkurn tímann verði friður um slíka framtíð fiskveiða.

[15:15]

Ég held að það hnígi allt í sömu átt, hvernig svo sem við hugsum stjórn fiskveiðanna í kvótakerfi, sóknarkerfi eða uppboðskerfi aflaheimilda. Við verðum að hafa fjölbreyttan flota og við verðum að hafa útgerðarflokkaskiptingu. Það er alveg höfuðnauðsyn að mínu viti að greina þarna á milli. Ég tel að í íslenskri löggjöf sé brýn þörf einhvers konar útgerðarflokkaskiptingar þannig að það sé ekki sjálfgefið að trillunni sé stýrt með sömu aðferð og frystitogaranum, enda hygg ég að engin þjóð hér í nágrenni okkar styðjist við slíkar reglur. Ég veit ekki til þess að menn burðist við það í Noregi að stjórna bátum undir 28 metrum með sömu útfærslu og togurum. Ég veit ekki til þess að Færeyingar geri það. Ég veit ekki til þess að Bretar geri það eða aðrar þjóðir sem við þekkjum til.

Við sitjum einfaldlega uppi með það að við Íslendingar erum einir um að reyna að fara þá leið að troða hverri skóhlíf, ef hægt er að orða það svo, inn í kvótakerfið. Það virðist aðalmarkmið okkar og í því felst sú stefnumótun sem við ræðum hér, sú stefnumótun stjórnarliða að taka veiðikerfi smábáta og setja það inn í kvótakerfið, eyðileggja kerfið sem þeir voru í og setja þá inn í kvótakerfi. Það er markmiðið. Það er ljóst að sú stefnumótun vinnur gegn þróun byggðar í þessu landi. Hún vinnur gegn atvinnusköpun. Nú ætla ég að fara nokkrum orðum um það.

Í nýlegri skýrslu sem unnin var af Byggðastofnun um áhrif þeirra aðgerða sem stjórnarþingmenn leggja til varðandi kvótasetningu á krókabáta voru Vestfirðir skoðaðir sérstaklega. Ég hygg að það hafi verið rétt ákvörðun hjá Byggðastofnun að taka Vestfirði sérstaklega út í þessu tilliti vegna þess að það er alveg ljóst að enginn landshluti hefur svo ég viti til orðið fyrir öðrum eins skakkaföllum í hinu stóra aflamarkskerfi. Stærstur hluti togaraflotans er gjörsamlega horfinn af Vestfjörðum og þaðan er stór hluti af aflaheimildum í hinu almenna aflamarkskerfi líka horfinn. Nægir að nefna að það voru togarar á Patreksfirði, í Tálknafirði, á Bíldudal, á Þingeyri og togari á Flateyri og á Suðureyri. Það voru togarar í Bolungarvík og á Ísafirði og eru þar enn. Það var togari í Súðavík og á Hólmavík.

Eftir sitjum við á Vestfjörðum með togaraútgerð á Ísafirði sem veiðir fyrir Hraðfrystihúsið í Hnífsdal annars vegar og rækjuvinnslurnar í Súðavík og á Ísafirði. Annar togarafloti er ekki eftir. Eitt minna togskip er í Bolungarvík. Síðan erum við með 3--4 stærri línubáta. Almennt má segja að annar floti á Vestfjörðum sé sérveiðibátar, bátar sem stunda innfjarðaveiði í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi og stunduðu innfjarðaveiði á rækju í Húnaflóa á meðan rækjan var, þar til þorskurinn kom og át hana. Þá hvarf hún náttúrlega.

Hvorki Hólmvíkingum, Drangsnessmönnum né öðrum íbúum við Húnaflóa var þá leyft að veiða þorskinn til þess að bjarga sér, þeir fengu smá uppbót samkvæmt 9. gr. laganna sem auðvitað hefur engan veginn dugað til að bæta það stórkostlega atvinnutjón sem varð því að menn höfðu sérhæft sig í rækjuveiðum. Það merkilega var að þessum sérhæfðu rækjuveiðum hafði verið stjórnað undir vísindalegu eftirliti alla tíð. Ég minnist þess ekki að á nokkrum tíma hafi rækjuveiðimönnum við Húnaflóa verið leyft að veiða umfram tillögur Hafrannsóknastofnunar. Þrátt fyrir það tókst ekki betur en svo að þessi rækjustofn hvarf algjörlega.

Það segir okkur auðvitað að það er ekki sjálfgefið að hægt sé að taka einhvern ákveðinn stofn og segja: Þessum stofni ætlum við að stjórna undir vísindalegu eftirliti og tryggja að úr honum verði aldrei veitt meira en Hafrannsóknastofnun leyfir og þá munu menn nú búa við sól og blóm í haga um alla framtíð. Þetta var auðvitað mönnum við Húnaflóa sagt. Nú stendur ekki steinn yfir steini í því.

Fleiri dæmi má rekja, t.d. þegar hér varð skyndilega hrun í veiðum á humri á Íslandsmiðum og menn vissu ekki af hverju það stafaði. Menn vissu heldur ekki af hverju það stafaði þegar veiðin rauk upp, ekki fyrr en eftir á.

En nóg um það. Ég ætla ekki að gera hafrannsóknir almennt að umræðuefni þó að vissulega væri tilefni til þess við umræðuna að ræða lengi og vel um það, jafnvel í allan dag, hvers konar munstur við höfum gengið í gegnum eftir leiðbeiningum frá Hafrannsóknastofnun, veiðistýringu sem við höfum trúað að mætti treysta. Svo er ekki. Þess í stað mun ég víkja aftur að skýrslunni sem ég minntist á, kaflanum um Vestfirði.

Þessi skýrsla er unnin í kjölfar þess að ákveðið var að kvótasetja trillurnar. Þá var talið að miðað við samdrátt í afla til vinnslu upp á 6.200 tonn af slægðum fiski vegna kvótasetningar á ýsu, steinbít og ufsa, mætti gera ráð fyrir því að ársverkum á landvinnslu á Vestfjörðum fækkaði um 93 og að störfum við fiskveiðar fækkaði um 160--200.

Við skulum gefa okkur, þó ég viti það ekki nákvæmlega, að þeir pottar sem bæta á inn í veiðar smábátanna dugi til þess að minnka þessa tölu um helming, að störfum á Vestfjörðum fækki ekki nema um 50 í landvinnslu og ekki nema um 100 í sjósókn, þ.e. að 150 störf tapist. Ef við gefum okkur að bak við hvert starf sé fjögurra manna fjölskyldu framfleytt þá erum við samt að tala um 600 manns á Vestfjörðum einum. Þó Vestfirðir séu teknir hér sem dæmi þar sem þetta hefur örugglega mest áhrif þá hefur þetta auðvitað víða áhrif annars staðar á landinu.

Mér er spurn: Hvað ætla stjórnvöld að gera í framhaldinu? Það er alltaf verið að tala um það hér í hv. Alþingi að stjórnvöld séu að vinna að því að efla byggð í landinu, færa störf út á land, tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu, eins og segir í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Hvað ætla stjórnvöld að gera til að tryggja það? Er nema von að spurt sé þegar atvinna 150 manns er í húfi? Þar fyrir utan verða auðvitað miklar breytingar á ýmsum öðrum sviðum sem tengjast þessari atvinnustarfsemi. Það er ljóst að fiskveiðarnar skapa mörg störf í þjónustu við þær, störf sem falla til við löndun, úrvinnslu aflans og þjónustu við bátana. Þarna er fyrirsjáanlegur geysilegur vandi.

Ég verð að segja eins og er: Ég skil ekki með nokkru móti hvers vegna stjórnarliðar fara þessa leið, að vega að hinum dreifðu sjávarbyggðum landsins með þessum hætti. Nema það sé þá þjónkun við sjónarmið sjútvrh. Smábátaútvegurinn er misjafn eftir landsvæðum og milli staða aðallega. Í hverjum landshluta eru hins vegar staðir þar stór hluti afkomunnar er af því að stunda fiskveiðar á smábátum.

Í nál. meiri hlutans segir:

,,Megintilgangur þess frumvarps sem hér um ræðir er að bregðast við þeim tekjusamdrætti vegna minni aflahlutdeildar í ýsu, steinbít og ufsa sem hefur orðið hjá útgerðum smábáta sem gert hafa út á grundvelli þorskaflahámarks og einnig að styrkja forsendur útgerðar í byggðarlögum sem eru að verulegu leyti háð veiðum krókaaflamarksbáta.``

Bregðast við, segja þeir. Venjulega hef ég nú skilið þau orð þannig að þegar menn þurfi að bregðast við þá sé það vegna einhvers sem menn ráða illa við. Menn þurfi að bregðast við einhverju sem þeir hafi ekki séð fyrir. Hér segir meiri hlutinn að aðaltilgangur frv. sé að bregðast við tekjusamdrætti. Hvaða tekjusamdrætti? Þeim sem lögin sem þeir vildu keyra í gegn hafa orsakað. Þeir eru að bregðast við tekjusamdrætti sem þeir hafa sjálfir valdið, samdrætti sem þeir hafa sjálfir ákveðið að bitna skyldi á þeim sem hafa haft atvinnu sína og afkomu af því að veiða fisk á smábátum. Það segir hér í meirihlutaálitinu.

Það er ekki eins og þetta sé eitthvert slys. Menn tóku þessa ákvörðun á vordögum. Við í stjórnarandstöðunni margreyndum að fá þá til að fresta þessu máli, að fresta því að lagasetningin um kvóta á smábátana tæki gildi. Við hvöttum til að menn gæfu sér tíma til að fara í gegnum þessi mál og endurskoða þau í heild sinni. Á það var ekki fallist.

Hverjir féllust ekki á það? Það var meiri hlutinn hér á hv. Alþingi sem féllst ekki á að eðlilegt væri að fresta þessari lagasetningu og virkni hennar. Síðan hafa menn í allt haust setið uppi með afar litlar aflaheimildir í ýmsum fisktegundum og hafa illa getað róið vegna þess. Þeir eru núna að leigja ýsuna úr stóra aflamarkskerfinu á 130 kr. kílóið, ef þeir fá hana leigða. Mér er sagt að það gangi illa að fá leigða ýsu.

Þetta orðalag, að menn séu að bregðast við einhverju --- þeir eru bara að bregðast við því sem þeir sjálfir ákváðu. Það voru stjórnarliðar á Alþingi sem ákváðu að atvinna skyldi dragast saman í sjávarbyggðum landsins. Það voru stjórnarliðar hér á Alþingi sem ákváðu að smábátarnir skyldu kvótasettir. Þeir ákváðu að fara leið sem samtök smábátaeigenda vítt og breitt um landið höfðu mótmælt mörgum sinnum, hvað eftir annað. Það væri hægt að lesa hér mörg bréf um það.

Á þau viðvörunarorð manna var ekki hlustað. Það er ekki hlustað á neitt annað en það sem stjórnarliðum hentar. Ef það eru einhverjir innan stjórnarliðsins sem hafa efasemdir um að rétt leið hafi verið valin þá eru þeir lamdir niður og látnir fara hér upp í pontu á Alþingi, til að segja hvað? Til að segja að þeir séu sammála tillögum sem við leggjum fram en þeir munu samt fylgja leiðsögn sjútvrh. (JB: Eða fela sig úti í bæ.) Þeir munu samt gera það. Þeir eiga vafalaust eftir að greiða atkvæði gegn sannfæringu sinni hér á Alþingi.

Ég hygg að fleiri en einn og fleiri en tveir muni neyðast til að taka þá afstöðu að greiða þessu atkvæði þó í hjarta sínu séu þeir algjörlega ósammála þessu. (JB: Þeir lyppast niður.) Það er ömurlegt til þess að vita að við séum í þeirri stöðu að þingmenn treysti sér ekki til að fylgja því sem þeir álíta best og réttast í þessu máli.

Ef tíðarfarið verður áfram með þeim ósköpum sem verið hefur á þessu hausti út veturinn þá mun auðvitað koma í ljós að afli smábátanna mun af sjálfsdáðum minnka og hefði þá ekki þurft kvótasetningu til. En skyldi þeim þá vera of gott að geta róið þegar gefur og fólkinu í sjávarbyggðunum að vita að ef tíðin lagist þá muni koma kraftur í veiðarnar og vinnsluna?

[15:30]

Ég held að það væri nú ekki of gott fyrir fólk í hinum dreifðu byggðum landsins að það hefði þá vitneskju að ef það liti út um glugga að morgni og sæi sól á suðurlofti, jafnvel í skammdeginu, þá vissi það að nú hefðu menn getað róið og það mundi gefa af sér atvinnu, bæði fyrir beitningamenn, sjómennina og fiskverkafólkið og að þeir sem þjónusta útgerðina viti þá líka að á meðan að atvinnan er í drift þá sé að vænta þess að þeir muni einhvern tímann þurfa að þjónusta þá atvinnustarfsemi.

Eitt er í þessu frv. sem ég vil gera að umræðuefni. Hvergi er vikið að vanda minni aflamarksbáta, hvergi nokkurs staðar komið að því. Þeim málum var hreyft í sjútvn. m.a. af þeim sem hér stendur hvort ekki væri ástæða til þess að ræða vanda hinna minni aflamarksskipa sem hafa á undanförnum árum oft farið mjög illa út úr kvótakerfinu og þeirri þróun. Það er alveg hægt að finna dæmi um útgerðir minni aflamarksskipa sem aldrei hafa selt frá sér eitt einasta tonn en eiga samt í dag varla eðlilega afkomuvon við sína útgerð þó að svo hafi hagað til þegar þeir völdu sér að fara inn í kvótakerfið. En þeirra mál voru ekki rædd.

Að vísu er alveg hægt að upplýsa að störfin í sjútvn. gengu þannig fyrir sig að haldnir voru tveir, þrír fundir þar sem kallaðir voru fyrir menn sem voru látnir tjá sig um efni frv. Síðan held ég að hafi liðið hálfur mánuður ef ekki þrjár vikur sem stjórnarmeirihlutinn sat einn með þetta mál og fundir voru ekkert haldnir í sjútvn. Stjórnarliðar voru í vanda með að útfæra málið. Það segir mér að margir þingmenn stjórnarliðanna vildu ekkert endilega fara þá nauðungarleið sem sjútvrh. hefur lamið þá til að fara. Þeim var ekkert sérstaklega geðfellt að fara þá leið. En þeir létu lemja sig til hlýðni og ætla að fara þá leið.

Sá langi tími sem stjórnarliðar notuðu til þess að fjalla um þetta mál innan sinna raða segir okkur auðvitað að menn voru að reyna að baksast við blessaðan ráðherrann, reyna að baksa við að fá ráðherrann til að samþykkja það að e.t.v. mætti standa öðruvísi að málum en kemur þó fram hér í endanlegum tillögum þeirra. Enda kemur fram í nál. meiri hlutans að hann tekur það sérstaklega fram að það þurfi að tala um málefni svokallaðra dagabáta og að ekki hafi verið fjallað um önnur hagsmunamál smábáta, að ekki hafi unnist tími til þess.

Þau mál sem ég var m.a. að víkja hér að liggja því enn þá í bið. Ég ætla ekkert að fullyrða að menn vilji ekki lagfæra eitthvað fyrir minni aflamarksskipunum. Ég ætla ekkert að fullyrða það hér úr þessum ræðustól að stjórnarliðar vilji það ekki. Ég hygg jafnvel frekar að þeir vilji það og það sé jafnvel akkúrat bara satt sem þeir segja hér, að þeim hafi ekki unnist tími til þess vegna þess að þeir voru auðvitað að reyna að lenda þessu máli á ásættanlegan hátt. En því miður, að mínu viti, hafa þeir beygt sig undir vilja sjútvrh. í því.

Ég tel fulla ástæðu til þess að taka á vanda minni aflamarksskipa, bæði þeirra sem hafa nokkrar aflaheimildir --- þó oftast nær of litlar --- og þeirra sem hafa litlar og engar aflaheimildir. Ég minni á að lögð var fram tillaga á síðasta þingi um hvernig mætti hugsanlega taka á vanda þessara skipa. Lögð var til alveg sérstök aðferð til þess, þ.e. hvernig mætti hugsanlega taka á vanda aflamarksskipa, smærri skipa flotans undir 200 tonnum sem hefðu litlar aflaheimildir og hefðu verið á leigumarkaðnum á síðustu árum. Það var skilmerkilega útfært. En það mál fór til sjútvn. og síðan lá það þar.

En ég vonast til þess ef menn fara að vinna við að skoða stöðu aflamarksbátanna að þá verði m.a. þær hugmyndir sem við lögðum fram á síðasta þingi skoðaðar að því leyti, þ.e. ef menn færu einhvern tímann í það farið.

Ég held að ekki sé hægt að ljúka þessari umræðu án þess að víkja aðeins að því hvernig þróunin hefur verið í skuldsetningu flotans. Það kom hér fram í nýlegu svari við fyrirspurn hv. þm. Gísla S. Einarssonar um hvernig skuldir sjávarútvegsins, sjávarútvegsfyrirtækjanna, hafi þróast. Í því plaggi segir að heildarskuldir sjávarútvegsins hafi vaxið frá árinu 1997 úr tæplega 125 milljörðum í 198 milljarða og þessi tala, 198 milljarðar, er byggð á framreikningi segir hér í skýringum.

Við sjáum því að á fjórum árum hafa skuldir sjávarútvegsins aukist um 73--74 milljarða. Þetta hlýtur að gera það að verkum að menn hafa áhyggjur af stöðunni. Þetta er svo sem búið að vera í umræðunni í nokkur ár. En það er ekki að sjá að neitt lát sé á þessu. Það er ekki að sjá. Skuldirnar halda áfram að vaxa en verðmætin sem íslenski flotinn og íslenski sjávarútvegurinn skilar af sér á hverju ári vex ekki í sama hlutfalli og skuldirnar.

Auðvitað mun íslenskum krónum eitthvað fjölga við þær gengisfellingar sem hafa orðið og líka við það að í sumum greinum hefur verið gott verð. En ætli það megi ekki þykja gott ef verðmæti íslensks sjávarútvegs verður um 130 milljarðar á þessu ári? Ég hygg að það mætti þykja gott. Það hefur verið í kringum 100--110 milljarðar í nokkur ár.

Að mínu viti stafar þessi skuldasöfnun m.a. af þeim orsökum að menn hafa verið að selja sig út úr sjávarútveginum og þar hafa þeir auðvitað verið að selja tvenns konar rétt: skipin, fyrirtækin og aflaheimildir, og ekki síst aflaheimildir. Þeir sem það hafa verið að gera hafa auðvitað farið með fé út úr sjávarútveginum því önnur fyrirtæki eða aðrir einstaklingar hafa verið að kaupa þessi réttindi. En því miður er það ekki svo að margir einstaklingar í sjávarútvegi reiti þessar milljónir og milljarða upp úr vösunum og þurfi hvergi að fá þá að láni.

Þess vegna halda skuldir sjávarútvegsins áfram að vaxa eftir því sem fleiri taka út gjöfina, eftir því sem fleiri taka út gjöfina sína þeim mun meira vaxa skuldir sjávarútvegsins. Og það sem ég var að koma að hér áðan er að það er ekkert sjálfgefið að hagur sé í því að setja hér á kvótakerfi þó að sumir haldi því fram að kvótakerfið hafi fært okkur sól og yl og miklar tekjur. Ég tel ekki svo vera.

Örugglega má finna rök fyrir því að í sumum greinum sjávarútvegsins hafi það orðið að einhverju leyti til hagræðingar. En það er líka hægt að setja fram rök fyrir því að ef menn hefðu veitt aflann í meiri hluta t.d. á strandveiðiflotanum, unnið hann í dýrustu afurðir, saltfisk eða ferskfisk fyrir erlenda markaði, þá hefðu þeir fengið meiri verðmæti en jafnvel núna á fyrstitogurunum fyrir afurðir eins og t.d. þorsk og ýsu. Ekki er vafi á því í mínum huga, enda hafa menn sem hafa verið í vinnslu ferskfisks verið að sýna hér tölur sem þeir hafa lagt á borðið um að 200 kr. munaði á verðmæti kílós fyrr unninn ferskan fisk annars vegar í flugi eða frystan fisk, jafnvel þó hann væri frystur úti á sjó. Ekki skortir nú ferskleika fisks sem frystur er úti á sjó þannig að svona er nú þetta. Því má lengi finna rök fyrir því að líka sé hægt að auka hagkvæmni með öðrum aðferðum en við höfum notað hér á landi með útfærslu okkar á fiskveiðistýringunni.

Þegar við erum búin að fá send hér inn í Alþingi bréf frá krókaveiðimönnum --- og ég geri ráð fyrir að margir hv. þm. hafi fengið send slík bréf --- frá samtökum þeirra vítt og breitt í kringum landið þar sem þeir mótmæla eindregið þeirri stefnumörkun sem hér er verið að fylgja fram af stjórnarliðinu og mæla eindregið með þeirri aðferð sem við höfum lagt til í breytingartillögum okkar þá tel ég að meiri hluti Alþingis sé að nauðga yfir atvinnugrein og fólkið sem þar starfar aðferðum sem fólkið vill ekki starfa við. Það er ekki hægt að nota neitt annað orð yfir það. Alþingi er með meirihlutavaldi sínu þvert ofan í yfirlýsingar funda smábátamanna allt í kringum land að setja lög sem þeir vilja ekki þurfa að vinna undir.

Líka hafa borist ályktanir frá sveitarstjórnum í þessa veru og nokkrir bæjarstjórar á landinu hafa líka sent aðvörun til Alþingis í þessa veru eða opinberlega sent frá sér aðvörun í þessa veru.

Á fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið var á Reykhólum fyrr í haust vöruðu menn við því að fara þá leið sem hér er verið að fara, vöruðu við því að verið væri að taka burt landkosti Vestfjarða við það að menn fengju ekki að nýta sjávarmiðin sín, fengju ekki að nýta þann grunn sem byggð á Vestfjörðum hefur ævinlega byggst á, þ.e. að geta nýtt fiskimiðin úti fyrir ströndinni, og að þessi stefnumörkun ynni gegn hagsmunum Vestfirðinga og hún væri fjandsamleg byggðunum. Öll þessi orð heyrðust nefnd í þeirri umræðu.

Ég segi það alveg eins og er að mér finnst ömurlegt að meiri hlutinn skuli fara þá leið sem hér er verið að leggja upp með.

Ég velti því líka fyrir mér, og ætla að velta því upp í þessum ræðustól, hvort hæstv. sjútvrh. hafi farið eftir lögum um ráðherraábyrgð þegar hann ákvað að hlusta ekki á rök manna um hvaða áhrif þetta mundi hafa á atvinnu þeirra og byggðir og afkomu og ákvað að fylgja fram kvótasetningu á smábátana vitandi það að menn fengju allt of litlar aflaheimildir til að geta stundað veiðarnar í aukategundunum og vitandi að lögin þýddu að menn væru komnir í þá stöðu að annaðhvort yrðu þeir að leigja til sín fisk ef þeir þá fengju hann eða að velja um það, eins og lögin voru, að losa sig við fiskinn svo þeir misstu ekki veiðileyfið. Ef ég man rétt úr lögunum um ráðherraábyrgð þá minnir mig að þar standi í einni greininni að ráðherra megi eigi framfylgja þeim lögum sem eigi verði séð að þegnarnir geti farið eftir.

[15:45]

Ég nefndi þetta við ráðherrann einu sinni í haust. Hann hafði litlar áhyggjur af þessu. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að teflt sé á tæpasta vaðið í túlkun á þeim heimildum sem ráðherrann hefur til að framfylgja lögum. Ég tel vafasamt að menn geti vísvitandi farið í þannig lagasetningu þegar sjá má fyrir að innan fárra vikna geti þeir ekki framkvæmd lögin svo vel sé. Þannig hefur það auðvitað verið í haust varðandi krókaveiðimennina. Þeir hafa ekki haft heimildir í sumum þeirra tegunda sem þeir hafa fengið á króka sína. Menn hafa verið að lenda í vandræðum af þeim sökum. Það var ekki á bætandi í þeirri brottkastsumræðu sem farið hefur fram í landinu.

Ég hefði talið það mikinn sóma fyrir hæstv. sjútvrh. ef hann hefði hlustað á skynsamlegar tillögur um það í vor að fresta þessum lögum, hvað þá ef hann hefði hlustað á skynsamlegar tillögur, m.a. frá Landssambandi smábátaeigenda, um að þessum lögum yrði a.m.k. frestað fram yfir áramót þannig að meiri hlutanum gæfist tóm til að vinna þessi lög án þess að valda fólki stórkostlegum skaða, sem bersýnilega hefur orðið sums staðar. En svo illa sjást menn fyrir í þessum málum að þeir hlusta ekki á nokkur einustu rök, ekki eina einustu ábendingu. Það er keyrt blint í að þjóna þeim hagsmunum að kvótasetja allar fisktegundir á alla báta á Íslandi. Það er hið harða markmið þessarar lagasetningar.

Ég hef stundum orðað það svo að þegar kvótasett væri með þeim hætti sem gert er í stóra aflamarkskerfinu þá væri verið að fórna byggðum fyrir kvótabrask. Það er ekki sama að eiga atvinnu sína undir ákafa útgerðarmanna til þess að sækja sjó til að afla tekna og að búa við að þeir geti leigt frá sér óveiddan fisk í sjónum. Það ríkir allt annað viðhorf í sjósókn og atvinnuuppbyggingu þegar menn hafa atvinnu sína af því að þurfa að sækja sjóinn til að afla tekna í stað þess að leigja frá sér aflaheimildir og aðrir þurfi þar með að leigja aflaheimildir á okurverði til að geta stundað sjó. Þá breytist auðvitað sjósóknin og menn þora litla áhættu að taka.

Í umræðum í gær kom fram mjög merkileg yfirlýsing að mínu viti. Við vorum að ræða byggðamál í gær. Þá sagði hæstv. viðskrh., Valgerður Sverrisdóttir --- ég held að ég fari örugglega rétt með --- að Hæstiréttur Íslands hafi fellt þann dóm að hér á landi mætti aðeins stjórna fiskveiðum með kvótakerfi. Þetta fannst mér einhver merkilegasta yfirlýsing, hæstv. forseti, sem ég hef heyrt í seinni tíð frá ráðherra, að búið væri að fella þann dóm af Hæstarétti Íslands að á Íslandi mætti aðeins stjórna fiskveiðum með kvótakerfi, þ.e. að það hefði falist í Valdimarsdómnum. Ég verð að segja eins og er að ég átti svolítið bágt með mig þegar ég heyrði þessa yfirlýsingu. Ég lýsti því reyndar yfir við hæstv. ráðherra að ég hefði aldrei heyrt þessa túlkun fyrr. (SvH: Þetta er komið úr miðstjórn Framsóknar.) Kann að vera, hv. þm. Það breytir hins vegar ekki því að ráðherrann stóð í þessum ræðustól og fullyrti þetta, ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Mér er spurn: Er þetta trú annarra ráðherra?

Mér þætti fróðlegt og vænt um það ef t.d. hv. formaður sjútvn. sem ég veit að er búinn að skoða þessi mál í bak og fyrir vildi annaðhvort staðfesta eða hafna þessum sérstöku ummælum viðskrh. um að hér á landi megi aðeins stjórna fiskveiðum með kvótakerfi. Ég held að þetta séu alger öfugmæli hjá ráðherranum og að best færi á því að hún lýsti því yfir að hún hefði hreinlega mismælt sig í þessu máli. Ég lít ekki svo á að Valdimarsdómurinn hafi þessar afleiðingar. Ég hygg að í Valdimarsdómnum hafi Hæstiréttur eingöngu sagt að þar sem hér væri almennum fiskveiðum stýrt með kvótakerfi og fisktegundum skipt niður á skip þá bæri ekki brýna nauðsyn til þess að viðhalda annarri takmörkun og þess vegna þyrfti ekki að takmarka veiðileyfi þar sem menn yrðu hvort sem er að nálgast aflaheimildirnar eftir sem áður, annaðhvort til þeirra sem hefðu þær fyrir á leigu, á leigumarkaði aflamarksins eða með því að kaupa aflahlutdeild. Þar af leiðandi taldist ekki brýn nauðsyn til að hafa tvenns konar stýringu á fiskveiðum, annars vegar að heimila mönnum með veiðileyfi og hins vegar að stjórna með fiskikvóta.

Í yfirliti frá lögmönnum sem unnið var fyrir Landssamband smábátaeigenda þá held ég að einmitt sá skilningur sé lagður í dóminn að það beri enga brýna nauðsyn til að stjórna fiskveiðum hér á landi eingöngu með kvótakerfi heldur megi stjórna þeim ýmist með flotastýringu, sóknarstýringu eða aflamarkskvótum, jafnvel með því að nálgast afla á uppboði eftir ákveðnum leiðum. Dómurinn staðfestir einungis að hér beri að hátta löggjöfinni þannig að leitast verði við að nýta auðlindina á sjálfbæran hátt. Ég held að þetta sé meginniðurstaða allra lagaskýringa sem ég hef heyrt á þessum dómi. Allar aðferðir sem að því marki stefna geta auðvitað mislukkast og verið misjafnlega árangursríkar, t.d. íslenska kvótakerfið sem hefur ekki byggt upp einn einasta botnfiskstofn. Við sitjum uppi með það að það vantar hundruð þúsunda tonna inn í almenna botnfiskveiði. Það er auðvitað eitt af stóru vandamálunum við fiskveiðistjórnina alla saman að við skulum ekki eftir áratugi sjá nokkurn árangur í uppbyggingu fiskstofna í íslenska kvótakerfinu, undir þeirri stjórn.

Ég hygg að áðurnefnd fullyrðing hæstv. viðskrh. sé algert öfugmæli og misskilningur á dómi Hæstaréttar. Eins og ég sagði væri fróðlegt að heyra síðar í umræðunni hvaða skilning hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur á ummælum ráðherrans um að hér á landi sé eingöngu heimilt að stýra fiskveiðum með kvótakerfinu.

Að lokum langar mig að gera að umræðuefni það mál sem oft hefur verið vikið að þegar talað er um stjórn fiskveiða, þ.e. innkomu nýliða í útgerð, með hvaða leiðum þeir komist að og hvernig þeim leiðum verði haldið opnum. Ég hef litið svo á að meðan menn byggju við sóknarstýrt kerfi að hluta, eins og verið hefur í smábátakerfinu, þá ættu menn inngönguleið í kerfið vegna þess að aflabrögðin sem byggja upp tekjur viðkomandi útgerðar ráðast af áræði þess sem kaupir skip og fer að gera út og kunnáttu hans til að nálgast þau verðmæti sem í fisknum felast. Ég tel að meðan opið er fyrir að ungir menn eða eldri sem telja sig búa að reynslu við að veiða fisk og treysta sér til að kaupa sér bát til að hefja veiðar í smábátakerfinu, þ.e. ef þeir ættu von á að verða ekki svo rígbundnir í kvóta að þeir gætu með þekkingu sinni, reynslu og dugnaði byggt sér betri framtíð og fengið betri tekjur en sá sem þeir keyptu af, þá væri séð fyrir því að endurnýjun í atvinnugreininni ætti sér stað og landsbyggðin, hinar dreifðu sjávarbyggðir, fengju inn í greinina nýja, duglega og kraftmikla menn sem vonandi stæðu áfram fyrir atvinnurekstri í viðkomandi byggðum í framtíðinni. Allar byggðir eiga framtíð sína í því að einhverjir í byggðunum hafi það mikið áræði og kjark að þeir þori að stofna til atvinnurekstrar. Þess vegna er auðvitað nauðsynlegt að í atvinnugreinum, m.a. í fiskveiðum, sé opin leið þar sem menn geti byrjað, þar sem möguleiki er á að byrja og þeir sem eru tilbúnir til að leggja fram meiri vinnu en aðrir sem e.t.v. eru farnir að lýjast, orðnir lasburða og vildi hætta, geta unnið sig upp og með dugnaði sínum og atorku aflað sér tekna og viðhaldið atvinnu í heimabyggð sinni. Þetta er það sem allar byggðir þurfa á að halda og þetta er einnig það sem allar atvinnugreinar þurfa á að halda, breytir þá engu hvort við erum að tala um verslun, þjónustu eða ferðamannaiðnað. Allir sem sækja í ákveðnar atvinnugreinar og hefja atvinnustarfsemi gera það vegna þess að þeir telja sig hafa annaðhvort þekkingu eða starfsfólk sem til þess hefur þekkingu að afla það mikilla tekna að hagkvæmt sé að fjárfesta í viðkomandi atvinnugrein.

Ég tel að það sé gæfa Íslands að mönnum tókst að fara inn í atvinnugreinar, byrja þar jafnvel frá grunni með litla fjármuni en mikinn dugnað. Það skyldi þó ekki vera að m.a. stærstu verslunarkeðjur okkar Íslendinga séu einmitt reistar á slíku framtaki, að menn hafi byrjað með tiltölulega lítið af peningum en mikinn dugnað og framsýni. Verslunin hefur hins vegar færst á fáar hendur og sum þessara fyrirtækja orðin stórveldi. Eftir sem áður er hægt að finna rótina í því að þar gátu menn farið frjálsir inn í verslunina, byrjað smátt og drifið sig áfram. Ég tel að það sé verið að loka þessari leið með kvótasetningunni. Það þarf geysilega mikla peninga til að kaupa sig inn í veiðikerfi þar sem kvótasetningin er svona stíf.

Menn munu örugglega segja sem andsvar við þessu: Menn þurfa líka að kaupa sig inn í sóknardagakerfið. Þar kostar sóknardagurinn líka eitthvað. Jú, vissulega eru það gild rök en eins og ég hef bent á áður þá er það svo að ef illa gengur eða ef tíðarfar er svo slæmt að tekjurnar detta niður þá heltast örugglega einhverjir úr lestinni og nýir menn geta komist að vegna þess að þeir telja sig hafa meiri kraft, meiri kunnáttu til fiskveiðanna og dugnað en þeir sem hverfa út. Þar af leiðandi gætu þeir komist inn í þessa grein og byggt sig upp á dugnaðinum.

En þegar við ætlumst til þess að menn þurfi að kaupa sér veiðiheimildir, samfara því að fara inn í smábátakerfið, fyrir á annað hundrað millj. fer að verða fátt um fína drætti eins og sagt er. Þá fer að verða ansi erfitt fyrir einstaklinga að komast inn í þá útgerð. Það er auðvitað það sem við sáum á Vestfjörðum meðan kerfið var þannig að menn gátu byrjað í smábátakerfinu, oft og tíðum dugmiklir sjómenn sem höfðu misst atvinnu sína á hinum stærri skipum í aflamarkskerfinu, að sjómennirnir komu sér fyrir í smábátakerfinu. Menn sem höfðu farið í gegnum Stýrimannaskólann og höfðu réttindi á stærstu skip flotans ákváðu að fara á trillu. Þeir höfðu enga aðra leið inn í kerfið, enga aðra aðkomu að atvinnugreininni sem þeir þekktu, að veiða fisk. Þegar búið er að loka þessu er ég hræddur um að við séum á rangri leið í stýringu fiskveiðanna.

Mér virðist að verði tillögur meiri hlutans samþykktar séum við að fórna byggðunum fyrir kvótabrask, það sé grafskriftin yfir byggðnum sem hér á að innleiða á Alþingi. Mér finnst illa farið fyrir góðu fólki ef það ætlar að samþykkja tillögur meiri hlutans, a.m.k. hafi þær ákvarðanir þær afleiðingar sem ég óttast að geti orðið.

Ég endurtek það sem lokaorð, herra forseti: Það er verið að nauðga krókaveiðimönnum, félögum í Landssambandi smábátaeigenda, inn í kvótakerfi sem þeir vilja ekki fara í, kvótakerfi sem mun hafa mikil áhrif á atvinnustig í dreifðum sjávarbyggðum Íslands.