Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 17:36:48 (3079)

2001-12-12 17:36:48# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[17:36]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér eru í raun til umræðu tvö mál en samt af sama meiði. Annars vegar er frv. hæstv. sjútvrh. og nál. og brtt. meiri hluta hv. sjútvn. og hins vegar brtt. minni hluta sjútvh. sem ganga í þveröfuga átt.

Það er ástæða til að minna rétt einu sinni á að forsenda og útgangspunktur þessa frv. og þeirrar umræðu sem hér fer fram er sú staðreynd að þann 1. sept. sl. tóku gildi lög sem kvótasettu smábáta í tegundum sem höfðu ekki áður verið kvótasettar.

Frv. hæstv. sjútvrh. gengur út á, þar sem það er staðreynd að kvótasetningin hefur átt sér stað, að milda þær aðgerðir ef svo má að orði kveða, en brtt. minni hluta hv. sjútvn. ganga út á að fara aftur fyrir 1. sept.

Nú er það svo, herra forseti, að í raun er fátt verra fyrir atvinnurekstur en óvissa. Nú hafa smábátasjómenn og fjölskyldur þeirra beðið lengi, í rauninni síðan fyrir 1. sept., eftir því að vita hvert rekstrarumhverfi þeirra verði, hvert rekstrarumhverfi greinarinnar verði, hvenær og hvernig frv. muni verða að lögum, afgreitt á hv. Alþingi. Þeir spyrja, með öðrum orðum: Hver verða rekstrarskilyrði okkar á þeirri vertíð sem nú stendur yfir? Þetta er eðlileg spurning og skapar óþægilega óvissu fyrir þann fjölda dugmikilla sjómanna og fjölskyldna þeirra sem tengjast smábátaútgerð. Nú stefnir í, herra forseti, að þessari óvissu verði eytt enda er mjög mikilvægt að leikreglur skýrist í það minnsta, hvað sem mönnum svo finnst um þær.

Herra forseti. Ég stend að áliti meiri hluta hv. sjútvn. en þó með fyrirvara, þ.e. sama fyrirvara og ég gat um í þingflokki mínum og hér við 1. umr. Fyrirvarinn byggir í raun á því að ég er ósammála þeirri túlkun sem ýmsir lögspekingar hafa birt og hæstv. sjútvrh. hefur stuðst við á niðurstöðu Hæstaréttar í svokölluðum Valdimarsdómi, að stjórnvöldum sé skylt að kvótasetja þessar tegundir til að koma í veg fyrir óheftar veiðar. Ég er ósammála þeirri túlkun og byggi þá skoðun mína á áliti annarra lögspekinga sem telja að stjórnvöldum beri ekki skylda til að ganga þessa kvótasetningarleið.

Ég hef lýst þeirri skoðun og grunur minn er óneitanlega sá að tilgangurinn sé í raun að koma einu kerfi yfir öll fiskiskip okkar, koma öllum í svonefndan kvóta. Hins vegar er alveg ljóst, herra forseti, að stjórnvöldum ber skylda til að takmarka veiðar í takmarkaðri auðlind. Það segir sig sjálft að þar búa þjóðhagslegir hagsmunir að baki og því er það á ábyrgð stjórnvalda að takmarka veiðar í hina takmörkuðu auðlind. En kvótasetning er auðvitað ekki eina færa leiðin til þess. Þar eru aðrar leiðir færar að mínu mati.

Í þessari umræðu hefur á stundum verið talað um að ef menn vilji ekki fara þessa svonefndu kvótasetningarleið þá sé þar með stefnt að frjálsum veiðum. Ég hygg að fáir, a.m.k. hér á hv. Alþingi, séu þeirrar skoðunar að gefa eigi allar veiðar frjálsar. Til að taka af allan vafa lýsi ég sjálfan mig andsnúinn því að veiðar verði algerlega frjálsar, a.m.k. á meðan auðlindin er jafntakmörkuð og raun ber vitni. Hitt er annað mál að það eru möguleikar á að hefta eða takmarka sóknina með öðrum leiðum en kvótasetningu. Í rauninni fjallar álit lögspekinganna Sigurðar Líndals og Sigurðar Magnússonar um það.

Af því að við erum að fjalla um smábáta er auðvitað hægt að benda á ýmsar leiðir sem færar eru til að takmarka sóknargetuna. Þar mætti fyrst nefna náttúruna sjálfa því að krókaveiðar eru þess eðlis að þær eru ekki stundaðar í hvernig veðri sem er, m.a. vegna of mikils reks þegar vindur er kominn yfir 6--7 vindstig. Náttúran sjálf sér ein og út af fyrir sig um meiri takmarkanir gagnvart smábátum heldur en gerist með stærri fiskiskip sem geta, hin stærstu, stundað veiðar sínar í nánast hvaða veðri sem er.

Í öðru lagi er hægt að ná slíkum takmörkunum fram með því að tilgreina ákveðin tímabil þar sem smábátum er beinlínis óheimilt að stunda veiðar og má þá nefna tímabil eins og þá mánuði þegar veður eru hvað vályndust, í hinu svartasta skammdegi þar sem helst er von á illviðrum. Í því sambandi mætti einnig hafa ákveðna daga, t.d. laugardaga og sunnudaga, einhverja útfærslu í þeim dúr þar sem ákveðin tímabil, ákveðnir dagar, yrðu beinlínis banndagar við veiðum. Það er alla vega viðleitni til að takmarka sóknargetu.

Þá hefur líka komið fram í umræðunni að takmarka balafjölda og óneitanlega gengur það, herra forseti, fram úr öllu hófi hvernig hinir áhugamestu og djörfustu sjósóknarar hafa róið, með hvílíkan balafjölda þeir hafa róið til fiskjar. Það nær í sumum tilfellum engri átt og þar mætti auðvitað setja inn mjög skýrar takmarkanir, sanngjarnar og eðlilegar. Það mundi ekki síður byggjast á öryggisástæðum.

Í raun er það þessi hugmyndafræði sem brtt. hv. minni hluta gengur út á og ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að þær eru mér í raun afskaplega hugnanlegar. Hins vegar met ég það svo að það sé einfaldlega ekki pólitískur vilji fyrir því á Alþingi að fara þá leið. Það er bara hin kaldi veruleiki. Það er mat mitt á stöðunni.

Ég vil líka, herra forseti, nefna í þessu sambandi, sem réttilega er á bent, að með því að bæta í smábátapottinn sé í raun verið að taka frá öðrum. Þar er sérstaklega nefndur hinn gleymdi floti, sem er má segja mikið réttnefni, en það eru bátar í aflamarki sem hafa alls ekki farið vel út úr þeirri þróun sem verið hefur í sjávarútveginum á síðustu árum. Sá floti gegnir auðvitað ekki síður mikilvægu hlutverki hvað varðar atvinnustig í sjávarplássum og þess vegna er afskaplega brýnt að hyggja að þeim flota. Auðvitað er ekki rétt að taka af honum og rétta öðrum. En í allri umræðu um sjávarútvegsmál, kvótamál og þær miklu deilur sem lengi hafa verið og munu örugglega verða enn um hríð þá er þetta kjarni málsins.

Þetta snýst um hagsmuni, hvaða veiðifloti hefur aðgang að auðlindum. Við vitum það, herra forseti, að hagsmunir eru þar ólíkir. Norðlendingar hafa annarra hagsmuna að gæta en Sunnlendingar, Suðurnesjamenn, Vestfirðingar og þar fram eftir götunum. Menn munu því áfram togast á um þetta en ég tel, og hef áður lýst þeirri skoðun, það beinlínis ranga uppsetningu að tala um að taka frá öðrum, að það þurfi að grípa til þess að taka frá öðrum þó að staða smábátanna verði lagfærð. Það er einfaldlega röng uppsetning.

[17:45]

Ég vil rökstyðja það með því, herra forseti, að við erum í rauninni að ræða um u.þ.b. 5--6 þús. tonn. Það er allt og sumt sem snertir smábátana til þess að þokkalegur friður geti orðið um þá og það mikilvæga hlutverk sem þeir gegna. Um það snýst málið.

Ef við skoðum þessi 5--6 þús. tonn í samanburði við þá miklu óvissu sem almennt liggur fyrir hvað varðar fiskveiðiráðgjöfina þá tel ég að 5--6 þús. tonn séu í rauninni hverfandi. Ég vil í þessu sambandi líka benda á og bæta við þær tölur sem heyrst hafa í umræðunni um brottkast af hinum ýmsu tegundum veiðiskipa og ég vil líka nefna tölur um nýtingarstuðla vinnsluskipanna þar sem menn hafa jafnvel fullyrt að nýting fullvinnsluskipa sé í rauninni ekki nema 25%. Sé þetta allt saman tekið saman er með gildum rökum hægt að halda því fram að veiðin, hin svonefnda umframveiði, sé á bilinu 50 og þeir sem kannski svartsýnastir eru og ganga lengst í spádómum nefna allt að 100 þús. tonna umframafla. Þar með erum við í raun að tala um, ef sú hæsta tala er tekin, að smábátarnir séu með u.þ.b. 5% af þessu. Það er allt og sumt. Þess vegna er, herra forseti, beinlínis rangt að segja að þessi 5--6 þús. tonn sem hér er verið að takast á um hvað varðar smábátana hleypi allri fiskveiðistjórn og öllum veiðistofnum okkar í voða. Það er beinlínis rangt.

Herra forseti. Það er líka rétt að draga fram ónákvæmni í ráðgjöfinni. Ég er sannfærður um að okkar ágætu fiskifræðingar stunda vísindastörf sín af mestu samviskusemi og að spár þeirra byggja á bestu vitneskju. Gallinn er hins vegar sá að vitneskja okkar um það flókna púsluspil sem lífríki sjávar er, er afskaplega takmörkuð. Ekki þarf annað en að veðurskilyrði breytist til lengri tíma, seltustig sjávar breytist, hitastig sjávar breytist, þá hefur það áhrif á fiskinn á fiskislóð okkar.

Herra forseti. Ég vil í þessu sambandi einnig nefna að ef skoðaðar eru veiðitölur frá 20. öld, frá síðustu öld, kemur í ljós það sama hér og í Færeyjum að alltaf hafa verið og örugglega munu alltaf verða sveiflur í fiskstofnunum og sveiflur í fiskigengd. Það er bara einfaldlega svo. Fyrir því eru náttúrulegar ástæður og við kunnum ekki enn þá skýringar á því sem veldur þessum náttúrulegum sveiflum. Og þá er, og á það hafa m.a. vísindamenn í náttúrufræði bent, skynsamlegt þegar þessir toppar gefa sig, eðlilegt og skynsamlegt að nýta þá. Við erum í raun að kasta verðmætum burt með því að láta þá hverfa.

Í sambandi við þessa óvissu finnst mér athyglisvert að vitna í frétt sem sagt var frá í fjölmiðlum ekki alls fyrir löngu af einum 100 þorskum, stórum og miklum hrygningarþorskum sem teknir voru úti af Suðurlandi og merktir með örbylgjugjafa frá hinu merkilega fyrirtæki Stjörnu-Odda og síðan var þeim sleppt í sjóinn aftur. 50 þessara þorska mun vera búið að veiða aftur og menn hafa lesið hvað varð um þá eftir að þeim var sleppt. Þar kemur í ljós að þeir virðast halda sig niðri á þúsund metra dýpi og samkvæmt ályktun sem dregin var í þessari frétt er eins og þeir skjóti sér annað slagið upp á hrygningarstöðvar til þess að gegna því hlutverki sínu að hrygna.

Ef við drögum ályktanir af þessu hljótum við að spyrja okkur: Hvað er þessi stofn stór sem heldur sig á u.þ.b. 1.000 metra dýpi? Ég hef heyrt vísindamenn leiða líkur að því að þetta kunni að vera óheyrilega stór og mikill stofn sem við erum að vannýta og að bara örlítið brot af honum komi annað eða þriðja hvert ár upp á hrygningarslóð. Sé þetta rétt, og er auðvitað mikilvægt að kanna það, má segja að skynsamlegt sé að nýta skepnurnar þegar þær gefa sig á fiskislóð.

Herra forseti. Ég hef kannski í of löngu máli gert grein fyrir fyrirvara mínum á nefndarálitinu. Ég hef áður lýst því að ég tel að komið hafi fram nægjanleg rök til að sýna fram á að kvótasetningin er óþörf hvað varðar smábátana og að fara eigi aðrar leiðir. Hins vegar styð ég nefndarálitið frá meiri hluta hv. sjútvn. einfaldlega vegna þess að ef ekkert er að gert verður sársaukinn og erfiðleikar smábáta víða um land enn verri. Ég tel með öðrum orðum að frv. sem við erum að fjalla um, frv. hæstv. sjútvrh., stuðli að mildandi aðgerðum og í ljósi þess að ætla má að ekki sé pólitískur meiri hluti fyrir því að afnema kvótasetninguna þá tel ég það beinlínis skyldu mína gagnvart smábátum að styðja þá mildandi aðgerð sem frv. gengur út á.

Herra forseti. Þar að auki eru hér nokkur afskaplega góð mál sem snerta ekki eingöngu smábátana sem vert er að gera aðeins grein fyrir og hv. nefndarmenn hafa farið yfir í ágætum ræðum í dag. Þar vil ég fyrst nefna 5% ákvæðið um að bátar mega koma, og ekki bara smábátar, með 5% afla og ekki bara í hverri veiðiferð heldur yfir veiðitímabilið eins og hv. formaður sjútvn. gerði grein fyrir í framsöguræðu sinni. Ég tel það mjög mikil tímamót og langþráð markmið að stíga þessi fyrstu skref. Þetta er alveg óneitanlega aðgerð til þess að draga úr brottkasti og hefur oft komið hér til umræðu og margir hafa lýst þeirri skoðun sinni að þeir styddu þessa leið. Um það má lengi deila hvort 5% séu næg, en ég get tekið undir þau rök að í lagi sé að stíga varlega til jarðar hin fyrstu skref og sjá árangurinn og stíga næstu skref í ljósi þeirrar reynslu.

Það er líka vert að draga það fram hér að þetta muni hafa jákvæð áhrif á markað. Þetta mun þýða aukið framboð á fiskmörkuðum og aukið framboð ætti að leiða til þess að markaðsverðið lækki sem hljóta að teljast jákvæð áhrif. Þar að auki eru önnur jákvæð áhrif við þetta að því meira sem kemur á land af veiddum afla, því meira sem dregur úr brottkasti, þeim mun nákvæmari upplýsingar fá vísindamenn Hafrannsóknastofnunar og hefur það beinlínis áhrif á mælingar þeirra á stærð fiskstofna. Ég styð jafnframt og tel það vera mun skynsamlegra, að í stað þess að festa 10 kr. á hvert kíló sem áhöfn og útgerð fá greitt fyrir, séu sett 20% eins og gert er ráð fyrir í áliti og breytingartillögum meiri hluta hv. sjútvn. og ég hygg að minni hluti styðji líka. En það er líka rétt að velta því fyrir sér hvaða áhrif það hafi. Menn gætu ímyndað sér að þessi 5% gætu teóretískt a.m.k. fært að landi aflaverðmæti sem nema kannski um 800 millj. kr. Samkvæmt frv. er þeim verðmætum ætlað að ganga til Hafrannsóknastofnunar og það er auðvitað mjög jákvætt mál því að ekki veitir af því að styðja rannsóknir.

Ég get hins vegar tekið undir það sjónarmið, og ég hygg að enginn sé því andsnúinn og kom það fram m.a. í umræðum innan hv. nefndar, að í framtíðinni væri líklega skynsamlegra að leggja þetta í almennan sjóð þannig að fleiri en vísindamenn Hafrannsóknastofnunar hafi aðgang að því. Hins vegar er eðlilegt að bíða og sjá hver þróunin verður. Þetta er mál sem hv. nefndarmenn sjútvn. munu örugglega fylgjast með og með vorinu eða í fyllingu tímans er eðlilegt að taka það upp á grundvelli reynslunnar og þróa það frekar. Í framtíðinni teldi ég t.d. mjög eðlilegt, ef þetta verða veruleg verðmæti, að hluti af þessu gjaldi renni til öryggismála sjómanna. Má í sambandi við það nefna nýlegt dæmi úr Morgunblaðinu í morgun þar sem greint er frá því að Landhelgisgæslan sé að hefja söfnun upp á 30 millj. kr. fyrir nætursjónauka. Svona sjálfsögð atriði sem auka öryggi sjófarenda eru mál af þeim toga sem er eðlilegt að skoða ef þessi sjóður reynist verða myndarlegur. En reynslan á auðvitað eftir að skera úr um það og hv. sjútvn. hlýtur að taka það til skoðunar.

Ég tel mjög mikilvægt eins og ráðherra hefur lýst hér að virkja þá heimild sem hann hefur --- þetta er kannski vannýtt heimild --- til að auka tegundir sem enginn er í rauninni að gera út á en slæðast á, einn og einn tittur. Þetta eru tegundir eins og karfi og jafnvel koli og skötuselur. Það er alveg ljóst að enginn gerir út á þær. Enginn heldur smábátaútgerð uppi gagngert til þess að gera út á þessar tegundir en menn komast ekki hjá því að fá eitt og eitt slíkt kvikindi á færi. Því er auðvitað algerlega út í hött að neyða menn til að kasta slíku og það er fagnaðarefni ef slík heimild er virkjuð eins og ráðherra hefur talað um og var rætt um í nefndinni. Það er önnur aðgerð til þess að draga úr brottkasti.

Herra forseti. Í þriðja lagi fagna ég því sem fram kemur í frv. og ítreka það að hinir svonefndu þakbátar fái að velja sig inn í dagakerfið. Ég tel að það sé skynsamleg niðurstaða, eins og kemur fram í nefndaráliti og hv. formaður samgn. gerir ráð fyrir, að breyta því ákvæði frv. að menn geti farið í skipti á milli stóra kerfisins og litla kerfisins. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki hyggilegt og ég styð þá breytingu mjög eindregið því að þó að kannski megi í einhverjum tilvikum færa rök fyrir skynsemi þess að fara í slík skipti, eins og bent hefur verið á varðandi ýsugengdina við Grímsey núna, þá eru það varasöm skref og kunna að vera fyrstu skrefin í því að brjóta múrana á milli þessara tveggja kerfa. Það tel ég að megi ekki gerast.

Ég hygg að við útfærslu á pottunum sem eru í frv. þurfi að taka til skoðunar aflamarksbáta, ekki síst hina litlu aflamarksbáta eins og m.a. hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson vék hér að, báta sem rétt slefuðu yfir það að vera í 6 tonnum og voru dæmdir í kvótasetningu en hafa í raun orðið fyrir eilífum skerðingum. Það er mjög sanngjarnt gagnvart þeim og byggðarlögum sem eru háð slíkum bátum að þeir eigi möguleika á að komast inn í slík kerfi.

Að lokum, herra forseti. Eitt mikilvægt atriði er samt ekki inni í þessu frv. Þess er þó getið í nefndaráliti og hv. formaður nefndarinnar gerði mjög rækilega grein fyrir því hér. Það er hið svonefnda gólf gagnvart dagabátum. Eftir því sem fulltrúar sjútvrn. sögðu var ekki tími til þess að útfæra þá aðferð. Kannski má með sanni segja að það sé heldur ekkert aktúelt fyrr en við upphaf næsta fiskveiðiárs. Hins vegar er alveg ljóst eins og kemur fram í nefndaráliti að sjútvn. mun taka á því máli og hún mun skila tillögum um það fyrir 1. febrúar. Það er mjög mikilvægt að gera það og ég vil enn og aftur rifja upp þá stöðu sem hér var komin upp árið 1995 með sambærilegu banndagakerfi þegar smábátum var ætlað í raun að lifa af sex til sjö dögum eða hvað það var orðið. Ef ekkert verður að gert er alveg ljóst að sú staða mun koma upp í framtíðinni og ég held að betra væri að ganga að þessum bátaflota dauðum strax frekar en láta þá engjast hægt og rólega þar til endanlega fjarar undan þeim. Þess vegna tel ég það vera eitt af brýnustu verkefnum sjútvn. núna að ljúka þessu verki og skila frv. ekki síðar en 1. febrúar eins og segir í nefndarálitinu.

Hitt er svo annað mál að ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að ýta á eftir þeirri heildarendurskoðun sem á sér stað núna á fiskveiðistjórnarkerfinu þar sem hlýtur að verða lögð áhersla á aflamarksbátana. Það hlýtur að vera meginatriði eins og ég nefndi hér áðan því að þeir eru ekki síður mikilvægir fyrir einstök byggðarlög en smábátar fyrir önnur byggðarlög.

Herra forseti. Ég læt þetta nægja.