Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 18:03:31 (3081)

2001-12-12 18:03:31# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[18:03]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur kannski ekki lagt nógu vel við hlustir. Hér fer fram, eins og gjarnan þegar mál koma úr nefndum, pólitísk umræða um efnisleg atriði þeirra mála sem eru til umræðu. Ég lýsti áðan eins og ég gerði við 1. umr. og eins og ég hef gert í þessu máli afstöðu minni til þess. Hún er ekkert leyndarmál. Hún hefur alltaf legið ljós fyrir.

Ég vek hins vegar athygli á því að við erum ekki í atkvæðagreiðslu núna. Atkvæðagreiðsla um málið á eftir að fara fram og þá bið ég hv. þm. um að skerpa athygli sína afskaplega vel.

Hitt er annað mál, herra forseti, að ég er enn þeirrar skoðunar að þeim lögum sem tóku gildi 1. september sl. muni ekki verða breytt. Að þeirri forsendu gefinni tel ég það vera beinlínis út í hött að leggjast gegn þeim breytingum sem hér eru til umræðu, að þeirri forsendu gefinni. En ég ítreka að hér er ekki atkvæðagreiðsla heldur pólitísk umræða.