Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 18:04:52 (3082)

2001-12-12 18:04:52# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[18:04]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að nú er ekki atkvæðagreiðsla. Hér er hins vegar pólitísk umræða og þar lýsa menn yfir hvaða augum þeir líta þá pólitísku umræðu sem muni leiða til atkvæðagreiðslu og ákvörðunar. Ég vek aftur athygli á því að að mínu viti eiga að fara saman áherslusjónarmið og atkvæðagreiðsla og ég bara bíð að orðum hv. þm. eftir henni.

Hv. þm. vék að aflamarksbátunum og stöðu þeirra sem hafa lent í stöðugri skerðingu og hafa orðið svo sannarlega illa úti í þeirri þróun sem orðið hefur. Ég leyfi mér að spyrja, herra forseti: Hvers vegna tók nefndin þá ekki sérstaklega á stöðu þeirra báta líka um leið? Ég tek alveg undir það með hv. þm. að staða þeirra er alvarleg. En ekki er um mörg tonn að ræða. Þetta er ekki eitthvað sem ríður baggamuninn hvernig stjórn fiskveiða í heild sinni gengur eða hvernig áhrif þetta hefur á heildaraflamagn úr sjó. Þar eru miklu stærri óöryggisþættir sem hafa áhrif á það heldur en að koma til móts við þann augljósa vanda og það augljósa óréttlæti sem þarna er á ferðinni gagnvart þessum bátum. Hvers vegna var ekki tekið á því líka núna? Það er brýnt.