Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 18:06:31 (3083)

2001-12-12 18:06:31# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[18:06]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að hér er í sjálfu sér ekki um mörg tonn að ræða og um það fjallaði m.a. drjúgur hluti ræðu minnar þar sem ég vitnaði til óvissunnar um fiskveiðiráðgjöf, brottkastsins, nýtingarstuðla o.s.frv. Það er mín skoðun. Ég tel að hægt sé að nálgast það með þeim hætti.

Varðandi skerðinguna á aflamarksbátum verður líka að hafa í huga annars vegar að þessi flutningur yfir á smábáta hefur óneitanlega skert þá en við megum heldur ekki gleyma þeirri staðreynd að heildarpotturinn hefur minnkað. Við búum ekki við sömu gósentíma og var þegar veiði var hvað mest.

Hvers vegna nefndin tók ekki á þessu --- það hefur komið fram að það er vilji nefndarinnar að starfi um heildarendurskoðun verði hraðað. Það er í rauninni niðurstaðan. En ég tek undir það með hv. þm. að hér er ekki um þann fjölda tonna að ræða sem vegur þungt ef við skoðum alla þá óvissu sem á sér stað í náttúrunni við ráðgjöfina almennt, hinar reikningslegu forsendur, brottkast, nýtingarstuðlar o.s.frv. Að mínu mati væri hægt að leysa það.