Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 18:09:50 (3085)

2001-12-12 18:09:50# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[18:09]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég segja að heildarendurskoðun hefur að mínu mati gengið allt of hægt eins og hv. þm. veit. Það hefur verið rætt og það er hygg ég vilji allra að hraða því.

Við erum í rauninni að tala um tvennt. Það er heildarendurskoðun og síðan þetta eina ákvæði sem ýmsir hv. þm. hefðu viljað fá inn núna strax, þetta svokallaða gólf í dagabátakerfið. Ekki vannst tími til þess eins og ég greindi frá í ræðu minni áðan. En það er alveg skýrt að hv. meiri hluti sjútvn. segir í nál. að þetta tiltekna atriði muni hann taka til skoðunar og ljúka því verki fyrir 1. febrúar. Þar erum við auðvitað bara með einn örlítinn afmarkaðan þátt sem tengist þessu máli óbeint í sjálfu sér. En hins vegar er ástæða til, af því að hér hafa aflamarksbátar verið nefndir, fullvinnsluskipin hafa komið inn í umræðuna, nýtingarstuðlar og annað, að fara í heildarendurskoðun þar sem málin eru tekin upp út frá öllum þessum hliðum.

Af því að verið er að fjalla um verulegar breytingar á smábátahópnum sérstaklega, þá teljum við mjög mikilvægt að höggva á þann hnút sem er í sambandi við gólfið á dagabátunum þannig að við sjáum þar gólf, og 1. febrúar er ekki mjög langt undan. En málið sjálft efnislega er hins vegar ekki aktúelt fyrr en á næsta fiskveiðiári. Það er það sem mestu máli skiptir, að því verki verði lokið við upphaf næsta fiskveiðiárs.