Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 18:26:41 (3091)

2001-12-12 18:26:41# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[18:26]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Nei, það er aldeilis ekki svo að steinbíturinn verði ónýtur í sjónum. Hann skiptir um tennur á hverju einasta ári til að geta étið á nýjan leik, brutt skelina sína þegar hann kemur upp á grunnmiðin. Það er einfaldlega þannig að steinbíturinn fitar sig þegar hann kemur inn á grunnmiðin.

Ég dreg mjög í efa að það sé sérstaklega góð nýting á steinbítnum að veiða hann á haustin þegar hann er hálftannlaus og horaður. Sennilega þyrfti að huga að því hvers vegna veiðar togaranna t.d. út af Látragrunni hafa fengið að þróast með þeim hætti á undanförnum árum sem raun ber vitni.

Svo ég víki máli mínu að ýsunni sem hv. þm. kom að líka þá er ég með yfirlit yfir þær veiðar. Það kemst kannski ekki fyrir í þessu andsvari að greina frá því öllu. Þar er hins vegar við það að búa að ýsan er búin að vera lengi í kvótakerfi. Ef við byrjum á fiskveiðiárinu 1992/1993 þá skildi aflamarksflotinn eftir 5 þús. tonn af heimildum sínum, sem hann notaði í tegundartilfærslu. Á árinu 1993/1994 skildi hann eftir 3.300 tonn af heimildum sínum í ýsu sem hann notaði í tegundartilfærslu. Á árinu 1994/1995 sildi hann eftrir 2.200 tonn af heimildum sínum í ýsu sem hann notaði í tegundartilfærslu. Á árinu 1995/1996 skildi hann eftir tæplega 3.000 tonn af ýsu sem líka var notað í tegundartilfærslu. Á árinu 1996/1997 klárar aflamarksflotinn að veiða ýsuna sína og breytir 400 tonnum til baka.

Því miður líður svo á tíma minn að ég sé að ég kemst ekki gegnum þetta. En á fiskveiðiárinu á eftir, 1997/1998, eru tæplega 5 þús. tonn af ýsu ónotuð hjá aflamarksflotanum. Þeim er breytt í hvað? Karfa og grálúðu, hagkvæmustu tegundir togaraflotans. Maður hlýtur að spyrja: Er eðlilegt að ákveðnar tegundir séu alltaf notaðar í tegundartilfærslu í aflamarkskerfinu og svo rifist hér um afkomu byggðanna?