Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 19:11:42 (3096)

2001-12-12 19:11:42# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[19:11]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í nál. meiri hluta hv. sjútvn. segir, með leyfi forseta:

,,Því er ekki fjallað um önnur hagsmunamál smábátanna að þessu sinni`` --- önnur en krókaflamarksbátanna. ,,Gert er ráð fyrir að á þeim verði tekið í þeirri heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnuninni sem nú stendur yfir og ætlunin er að lögfesta á þessu þingi. Má í því sambandi sérstaklega nefna málefni svokallaðra dagabáta. Þótt ekki hafi unnist tími til að undirbúa það mál nú telur meiri hlutinn óhjákvæmilegt að lagfæra rekstrarumhverfi þess bátaflokks á þessum vetri og mun beita sér fyrir því að frumvarp þess efnis verði lagt fram á Alþingi fyrir 1. febrúar nk.``

Herra forseti. Hér er annars vegar fjallað um að taka eigi á málefnum annarra bátahópa eða bátaflokka í þeirri heildarendurskoðun sem nú fer fram, en síðan segir, svo ég vitni aftur, meiri hlutinn:

,,... mun beita sér fyrir því að frumvarp þess efnis verði lagt fram á Alþingi fyrir 1. febrúar nk.``

Herra forseti. Mér finnst að hér komi a.m.k. fram efasemdir um að heildarendurskoðuninni verði lokið þá. Hvort það kemur fram í nál. man ég ekki, en alla vega hefur það komið fram í þessari umræðu að það verði að vera komið fram hvernig menn ætla að breyta starfsumhverfi dagabátanna fyrir 1. febrúar vegna þess að það verði að gefa mönnum kost á því að eiga val um að flytja sig á milli flokka til 15. febr. Mér sýnist því, herra forseti, að þarna komi a.m.k. fram miklar efasemdir um að ráðherra verði tilbúinn með frv. sitt.