Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 20:43:52 (3104)

2001-12-12 20:43:52# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[20:43]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum um framsalið. Ég vil taka fram að ég vil ekki halda því fram að útgerðarmenn séu vondir eða slæmir. Ég segi frekar: Það er kerfið sem er vont og slæmt. Það er í eðli mannanna að vinna sem best í eigin þágu eftir þeim kerfum og reglum sem gilda í samfélaginu hverju sinni.

Hv. þm. nefndi áðan Sandgerði, þ.e. að Sandgerði hefði tapað kvóta. Hann nefndi fleiri staði og að taka þyrfti tillit til þess þegar ráðherrakvótanum verður úthlutað.

Ég spyr hv. þm.: Hvers vegna tapaði Sandgerði aflaheimildunum og allir þessir staðir?