Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 20:48:19 (3107)

2001-12-12 20:48:19# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[20:48]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir. Ég skil það svo að það sé einmitt, eins og formaðurinn segir, verið að reyna að bæta upp það sem menn hefðu tapað í aukategundum vegna 1. september. Þessi skerðing kemur auðvitað fram með ýmsu móti. Ég get alveg séð fyrir mér að þegar þetta verður komið í kvóta fari menn ekki eins mikið á milli svæða og áður.

Sumar hafnir eins og t.d. í Sandgerði og á nokkrum stöðum á Vestfjörðum voru sérstaklega vinsælar hjá krókakörlum af því að þær lágu vel við og hægt var að ná mjög miklu á fáum dögum. Þannig nýttu menn kannski dagana sérstaklega en voru líka að sækja í aðrar tegundir. Þetta er því margslungið. Ég sé annars vegar fyrir mér bátana sjálfa sem eru að fá minna út af því að þeir geta ekki veitt þetta frjálst og svo sé ég hins vegar byggðarlög sem eru að fá minni afla í gegnum hafnirnar vegna þess að sóknarmunstrið verður hugsanlega öðruvísi.