Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 20:50:03 (3108)

2001-12-12 20:50:03# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, Frsm. 1. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[20:50]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst hv. þm. vera dálítið í því að tala um að sér fyndist það jákvætt sem væri í frv. og síðan fjallaði hann töluvert um að útdeila þyrfti réttlætinu helst sem víðast.

Mig langar að spyrja hv. þm.: Hvað svo? Nú eru búnar að vera í gangi hér lærðar umræður um hvernig leita eigi að réttlætinu í þessu tilfelli vegna einhvers óréttlætis sem komið hefur upp vegna þeirrar breytingar sem er núna. En umræðan hefur samt snúist um hvað eigi að gera fyrir byggðarlög sem hafa tapað kvótanum í burtu af einhverjum allt öðrum ástæðum. Ég segi þess vegna: Hvað svo? Telur hv. þm. að björgunaraðgerðir af þessu tagi eigi þess vegna að vera viðvarandi hluti af kvótakerfinu í framtíðinni? Að menn eigi að sitja yfir því á Alþingi að finna leiðir og leita að byggðarlögum og svæðum sem hafa farið illa út úr því að missa frá sér kvóta og koma með einhverju móti kvóta á þá staði í því kerfi sem hér er um að ræða? Ég hef skilið það svo að hv. þm. hafi stutt þetta framsal og þetta eignarhald á kvótanum sem veldur því að verið er að selja kvótann í burtu. Auðvitað er samhengi þar á milli. Það er ekki sama hvaða kerfi er þó að hv. þm. segði það hér áðan, þá er það ekki sama. Þegar atvinnustarfsemi í sjávarútvegi leggst af undir kvótakerfi, þá er ekki sami möguleiki að stofna til nýrra í því kerfi sem nú er og var áður fyrr.