Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 20:57:09 (3112)

2001-12-12 20:57:09# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[20:57]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér hefur staðið allnokkur umræða um frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða og það er svo sem ekki nýtt á hinu háa Alþingi að þau mál verði að umræðuefni og taki nokkurn tíma í störfum þingsins. Gjarnan hafa það verið a.m.k. á seinni árum ekki síst málefni smábátanna sem hafa vafist ákaflega fyrir mönnum, framkvæmdarvaldinu við stjórn fiskveiða og löggjafanum við að móta um það reglur. Það er í raun og veru merkilegt að það skuli hafa kostað svona mikla orku að glíma við og takast á um það málefni, það viðfangsefni sem tengist sjávarútvegi eitt og sér að halda uppi fiskveiðistjórnarkerfi eða stýra með einhverjum hætti veiðum, sóknarþunga þessara minnstu skelja í flotanum, báta undir 6 tonnum. Eiginlega er það lyginni líkast þegar það er sett í samhengi við hlutina í heild sinni, víðáttu landhelginnar, afkastagetu og burði stóru skipanna og þetta skoðað út frá bæði líffræðilegum, félagslegum og byggðalegum forsendum, þá hefði maður haldið að það hefði ekki átt að kosta mesta orku og valda mestum átökum hér að búa svona um þennan hluta sjávarútvegsins, búa þannig um hann að um það gæti verið sæmilegur friður. Það stafar náttúrlega af ýmsu, herra forseti. Þetta er minnsta og staðbundnasta útgerðin í landinu, að vísu með nútímatækni og möguleikum orðin býsna tæknivædd og þróuð sem slík en það breytir auðvitað ekki hinu að hér eru ekki hafskip á ferð.

Þetta er sá hluti flotans sem notar að uppistöðu til veiðarfæri sem ég held að flestir séu sammála um að séu hvað vinsamlegust umhverfinu og geri þar minnstan usla, drepi alla vega ekki meira en það sem í þeim lendir eða á þeim lendir ef krókar eiga í hlut og jafnvel möguleikar á að sleppa einhverju af því lifandi aftur, t.d. þegar undirmál lendir á færi í grunnu vatni.

[21:00]

Staðreyndin er sú, herra forseti, að farið hefur ótrúlegur tími og ótrúleg orka í þetta mál og í raun og veru er liðinn rúmur áratugur frá því að fyrst var tekin upp föst fiskveiðistjórn á minnstu bátana. Segja má að orðið hafi tímamót í þeim efnum 1990 þegar smábátar frá 10 og niður að 6 tonnum voru allir settir í aflamark og þegar bátum undir 6 tonnum var gert að velja á milli aflamarks eða krókaleyfis. Þau 10 eða bráðum 11 ár sem liðin eru síðan eru algerlega plöguð af linnulausum átökum um þennan þátt málsins, endurteknum tilraunum til að setja þarna nýjar og nýjar reglur og þær hafa sjaldnast enst nema árið en þá hafa menn verið farnir að taka þær upp og prófa eitthvað nýtt.

Þetta hefur leitt til þess m.a., herra forseti, að mönnum hefur tekist að gera kerfið svo flókið að það eru ekki nema allra lærðustu menn í þessum fræðum, innvígðir og allra lærðustu menn sem kunna þessa sögu og vita hvernig réttindin sem menn standa með í dag hafa orðið til og hvaða bakgrunn þau eiga sér í síendurteknum lagabreytingum og margendurteknu þvinguðu vali þeirra sem stunduðu sókn á þessum grunni. Hópurinn sem lagði af stað 1990 á svonefndum krókaleyfum í krókakerfi hefur klofnað upp í marga hópa á leiðinni þannig að nú má sjálfsagt um það deila og það er nú svo komið og hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar, að sá sem hér stendur er ekki algerlega útlærður í því né með það á hreinu hvort við eigum að segja að þetta séu frekar þrír, fjórir eða fimm flokkar sem þarna eiga í hlut. En allmargir eru þeir a.m.k. eða voru þangað til þetta er að einhverju leyti einfaldað aftur með breytingunum sem nú eru að gerast eða áttu sér stað 1. september sl.

Þetta hefur líka leitt til þess, herra forseti, að fyrir utan það hve þetta er orðið flókið hefur auðvitað í gegnum það átt sér stað endurtekin mismunun verður í rauninni að segja í kerfinu. Þetta hefur leitt til þess að staða manna hefur allt í einu orðið ólík eftir því hvað þeir völdu og/eða oft líka eftir því hvernig þeir stóðu að vígi fyrir tilviljun örlaganna með aflareynslu sína eða annað slíkt. Maður þekkir auðvitað mörg dæmi um það að staða manna sem stóðu svipað að vígi, sóttu sjó frá sama stað og höfðu gert með svipuðum hætti árum saman var allt í einu orðin gjörólík þannig að aðrir höfðu mikil verðmæti í höndunum en hinir ekki neitt og löptu dauðann úr skel og urðu jafnvel að hætta sinni útgerð af því að þeir höfðu verið óheppnir, höfðu veðjað á vitlausan hest, valið þannig að þegar frá leið reyndist það þeim mjög óhagstætt o.s.frv.

Þarna má kannski sérstaklega nefna tvo hópa sem hafa dregið stystu stráin í þessu. Það eru þeir sem völdu aflamarkið 1990 í góðri trú og fengu síðan á sig hrottalegar skerðingar aftur og aftur og voru meira og minna gleymdur floti. Menn geta haldið því fram að þeir hafi ekki farið verr út úr hlutunum heldur en almennt þeir sem stunduðu sjó á grundvelli aflamarkskerfis, en það er þó ekki rétt. Vegna þess að auðvitað varð smábátaflotinn harðast úti í niðurskurði þorskveiðiheimildanna, enda hafði hann í mörgum tilvikum ekkert annað, ekki neina aflareynslu í öðru, þannig að þegar þorskurinn er skorinn niður sérstaklega verður þessi floti, smábátarnir á aflamarki undir 6 tonnum og auðvitað má segja líka upp í 10, 20--30 tonn langharðast úti. Þetta er hinn gleymdi floti sem fékk sáralitla úrlausn sinna mála, hafði mjög takmarkaða aflareynslu í öðrum tegundum og/eða möguleika til að bjarga sér með öðrum hætti þegar niðurskurðurinn skall á af fullum þunga í þorskkvótanum. Þarna fóru Íslendingar aðra leið gagnvart þeim hópi en t.d. Norðmenn sem hlífðu bátaflotanum og strandveiðiflotanum við niðurskurði á þorskveiðiheimildum langt umfram togaraflotann og stærri skipin með þeim einföldu rökum að þau hefðu miklu meiri úrræði og miklu meiri möguleika til að bæta sér upp minni veiðiheimildir í þorski með sókn í aðrar tegundir, sókn á fjarlægari mið o.s.frv. Það var afar litlum skilningi til að dreifa í því sambandi gagnvart þessum hluta flotans, enda týndi hann mjög hratt tölunni og veiðiheimildir hans færðust hratt upp á stærri skip. Það fækkaði gríðarlega í þessum hópi, sérstaklega smábátum undir 6 tonnum sem völdu aflamarkið 1990 en líka í bátaflotanum, grunnslóðarstrandveiðiflotanum þar fyrir ofan, bátum upp að 10 tonnum sem tilheyra Landssambandi smábátaeigenda og síðan áfram upp í 20--30 tonn og jafnvel stærri báta, þessa minni dagróðrabáta eða vertíðarbáta.

Hinn hópurinn sem hefur einnig farið mjög illa út úr þessu, held ég að flestir verði að viðurkenna, á síðari hluta tímans, síðari hluta 10. áratugarins voru þeir sem lentu í svokölluðu dagakerfi. Þar geta menn vissulega sagt að ástæðan hafi verið sú að þeir hafi ekki haft aflareynslu þannig að ekki hafi verið mikið frá þeim tekið en staðreyndin er engu að síður sú að þarna voru menn hundruðum saman að reyna að lifa af útgerð og voru skertir og þeim skömmtuð þannig atvinnuréttindi að þeim var leyft að stunda vinnu sína og nýta atvinnutæki sín í nokkra tugi daga á ári. Það getur hver sem er sett sig þau spor algerlega burt séð frá einhverjum sögulegum aðstæðum í þessu kerfi að vera með dýra fjárfestingu í höndunum, atvinnutækið sitt og sjálfan sig og jafnvel fleiri og mega síðan nýta sig og vinnutæki sín í 20, 30 eða 42 daga eða hvað það nú var eftir atvikum á síðustu árum.

Þetta, herra forseti, leyfi ég mér að hafa sem inngangsorð vegna þess að ég held að einhvern tíma verði menn að horfa yfir þetta eins og það er og átta sig á því hvort þeir ætla að hafa þetta svona áfram. Ætla menn að búa við þetta til frambúðar? Er þetta hið endanlega fyrirkomulag sem menn vilja sjá í framtíðinni hvað varðar fiskveiðistjórn á þennan minnsta hluta flotans, þessa minnstu báta undir 6 tonnum? Er virkilega enginn vilji til þess hjá núverandi ráðamönnum að reyna að takast á við það viðfangsefni að stokka spilin upp, einfalda og samræma þetta kerfi og koma aftur á einhverjum einföldum samræmdum leikreglum og nýtingarrétti þeirra sem stunda sjó með þessum hætti? Þetta er nú hin eina sanna einyrkjaútgerð í landinu. Hvar eru núna vinir einkaframtaksins og sjálfstæðra atvinnurekenda í þessum efnum? Því ef þeir eru einhverjir eftir í þessu, þá eru það þeir menn sem eiga atvinnutæki sín sjálfir og vinna á þeim sjálfir með sínum tveimur höndum. Ætla menn að hafa þetta þannig um ókomin ár að þessum hópi verði margskipt upp og staða hans í grundvallaratriðum gjörólík hvað það varðar að skapa sér afkomu og framfleyta fjölskyldu sinni af þessu starfi?

Ég verð að segja, herra forseti, að eitt af mörgu sem ég held að hafi verið að í umræðum um þessi mál hjá okkur, og ég segi fyrir mig persónulega að ég sé eftir að hafa ekki fyrir löngu tekið upp af meiri krafti, er spurningin um atvinnuréttindin inn í þetta samhengi. Það er spurningin um atvinnu- og framfærslurétt þeirra manna sem gera sér þetta að ævistarfi og lífsstarfi og ætla að reyna að lifa af því og framfleyta fjölskyldum sínum. Erum við algerlega að gleyma því að við erum að dæma menn til alveg himinhrópandi aðstöðumunar í þeim efnum þannig að það er leitun að öðru eins? Þetta væri svipað og að menn væru hér með leigubílakerfið þannig. Hugsum okkur það bara eitt augnablik ef þeim 500 manna hópi eða svo sem hefur af því atvinnu að keyra leigubíla á höfuðborgarsvæðinu væri þannig stjórnað að sumir mættu keyra allt árið eins og þeir mögulega lífsins gætu en aðrir mættu keyra í 30--40 daga á ári. Mundi einhverjum detta í hug að það væri einhver glóra í slíku kerfi til framtíðar litið þó svo að menn hefðu þá réttlætingu að sumir hefðu keyrt meira en aðrir einhvern tíma á hinni öldinni, eða að pabbar þeirra, afar eða ömmur hefðu haldið úti leigubílum í lengri tíma á viðmiðunarárunum 1980--1983 eða þó það væri 1990--1994? Svona er þetta ef við horfum á það frá þeirri hlið. Niðurstaða mín er sú að þetta kerfi sé gjörsamlega ónýtt og óverjandi, alla vega skoðað frá þessum sjónarhóli, og það væri öllum fyrir bestu að fara í að stokka það algerlega upp og búa til eitt samræmt kerfi með sanngjörnum möguleikum til þokkalega góðrar afkomu fyrir þennan flota og festa þá frekar fjöldann, segja sem svo að við ætlum að hafa 1.000--1.500 báta, eitthvað svoleiðis, eða við ætlum að festa þetta við u.þ.b. tiltekna hlutdeild af heildarsókn í mikilvægustu fiskstofna, botnfiskstegundirnar, þorskinn og e.t.v. einhverja fleiri, en búa síðan til einhverjar sæmilega sanngjarnar leikreglur fyrir menn innan þess kerfis. Þær þurfa ekki að vera þannig að duglegir sjómenn geti ekki notið sín og kosta sinna. Það geta þeir með ýmsum hætti, ekki bara með því að þeir nái meiri afla en aðrir heldur með því að gera úr honum meiri verðmæti, sækja í fleiri tegundir og þar fram eftir götunum. Það er hægt að nálgast þetta með ýmsum hætti, út frá einhverjum lágmarksrétti eða þökum eða dagafjölda eða guð má vita hvað. Og ég hef ekki nokkrar minnstu áhyggjur af því að ekki sé hægt að búa til sóknartakmarkandi kerfi hvort sem það byggði á aflamarksþökum eða sóknarstýringu einvörðungu eða samblandi af þessu tvennu þar sem menn til viðbótar t.d. þökum hefðu ákveðnar sóknarreglur með dagafjölda eða reglum um veiðarfæri, hámarksdagafjölda á línu o.s.frv., að þetta gæti verið í ágætu horfi. Menn yrðu að sjálfsögðu, ef menn vildu fara inn á svona braut, að rífa sig upp úr þessum inngróna kvótahugsunarhætti og hætta að hafa áhyggjur að því þannig að þeir svæfu ekki á nóttunni, hvort þessi floti væri að taka kannski 500, 1.000 eða 3.000 tonnum meira eða minna á hverju ári. Það lægi í eðli máls ef menn byggju til aðeins sveigjanlegra og opnara kerfi. En það er alveg út í hött að halda því fram að ekki sé hægt að stilla sóknarþungann af þannig að hann sé á svipuðum slóðum ár eftir ár og kostirnir ótvíræðir því að þá væru menn að fá aflann að landi og allt það sem við þekkjum.

Það eru því miður, herra forseti, kannski mestu vonbrigðin við breytingarnar sem hér er verið að fjalla um og urðu 1. september sl. og menn eru að reyna að plástra pínulítið. Þetta er eins og venjulega. Það er eins og menn séu með sárasjúkling sem verið er að plástra einu sinni á ári. Þannig hefur þetta verið. Og er það ekki ærin yfirlýsing um að hlutirnir séu ekki í lagi, að Alþingi og ráðuneyti skuli þurfa að vera með þetta í höndunum ár eftir ár eftir ár og rúlla út plástrunum til að reyna að laga þar sem mest blæðir úr hverju sinni? Svona er þetta búið að vera. Þetta þekkjum við sem höfum verið í þessu býsna lengi, jafnvel lengur en við sum viljum kannast við. Það er nú svo að mín pólitíska ævi á Alþingi er jafngömul kvótakerfinu og það má segja að eldskírn mín hafi orðið hér í nóvember og desember 1983 þegar átökin um upphaf alls þessa fóru fram og kvótakerfið var sett á á sínum tíma. (Gripið fram í.) Ég studdi þetta ekki, hv. þm., og hef aðeins einu sinni greitt kerfinu atkvæði þannig að ég beri á því sem slíku pólitíska ábyrgð. Sú ábyrgð er að vísu mikil. Það viðurkenni ég. En ég var í hópi þeirra sem ég gæti sjálfsagt sagt að hafi glapist til að styðja málamiðlunina og samkomulagið sem gert var 1990, m.a. út á það að þá stóð til að gera umtalsverðar hliðarráðstafanir meðfram kerfinu eins og að setja umtalsvert magn veiðiheimilda í pott til að úthluta til byggðarlaga sem síðan var eyðilagt á árunum þar á eftir eins og kunnugt er. En þá voru teknar inn í lögin heimildir til að úthluta umtalsverðu magni veiðiheimilda til byggðarlaga án endurgjalds, byggðarlaga sem höfðu farið illa út úr kerfinu og orðið fyrir búsifjum af þeim völdum, 12 þús. tonn og hefði nú munað um minna heldur en hafa þær heimildir til staðar. En menn komu þeim laglega fyrir kattarnef á árunum þar á eftir í ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl.

Nei, það eru, herra forseti, vonbrigðin að menn eru að reyra þetta kerfi enn fastar en nokkru sinni fyrr inn í sjálft kvótakerfið. Það er að vísu verið að búa til lítið kvótakerfi í sérstökum kassa fyrir þennan hluta flotans því að það á ekki að afnema það þak, alla vega ekki í bili, sem hindrar það að veiðiréttindin séu seljanleg upp úr kerfinu, og er á meðan er auðvitað. Að sjálfsögðu fagna ég því að það er þó ekki opnað fyrir þá hættu að þessi floti hverfi á næstu árum með sama hætti og smábátaflotinn sem valdi aflamarkið 1990 meira og minna hvarf eins og hendi væri veifað. Það er náttúrlega ein skýringin á því hve tómlegt er í mörgum höfnum á sumum helstu smábátaútgerðarstöðum landsins, að heilmikill fjöldi manna valdi þetta aflamark, taldi sig hafa lífvænlega reynslu til þess, bátar höfðu kannski eldri sjómenn á hefðbundnum trillum, höfðu 30--50 tonna veiðireynslu vegna útgerðar sinnar á undangengnum árum, töldu sig komast af með það, vildu það öryggi, völdu aflamarkið og sátu uppi með kannski 10--15 tonn eftir tvö, þrjú ár og engan tilverugrundvöll og neyddust til að selja. Þannig stórfækkaði þeim bátum á stöðum þar sem þeir voru fjölmennir áður. Við getum tekið staði eins og Ólafsfjörð eða einn stærsta smáútgerðarstað landsins á sinni tíð, Húsavík, þar sem þetta er náttúrlega svipur hjá sjón, m.a. vegna þess að þar völdu margir þessa leið og fóru herfilega út úr því.

[21:15]

Það er í rauninni alveg hörmung, herra forseti, að engin heildaruppstokkun skuli vera í sjónmáli á þessum málum sem hluti af einhverjum frekari sáttum um kerfið. Ég hafði satt best að segja í endalausum barnaskap mínum, bjartsýni og trú á hið góða í manninum og að skynsemin muni sigra að lokum haldið að kannski sköpuðust aðstæður til þess í tengslum við allt þetta sáttatal að taka nú smábátahópinn sérstaklega fyrir og reyna þar að endurskipuleggja málin og svo fengi hann, sá hluti flotans a.m.k., að vera í friði og þá geta stóru karlarnir, hákarlarnir leikið sér í sínu kerfi. En er ekki einhvern veginn hægt að koma þessu þannig fyrir að sardínurnar fái bara að vera sér á sínum miðum í sínu lagi í sjónum? Af hverju þarf endilega að hafa þetta allt saman eins og í einu búri þar sem menn væru með gullfiskana innan um hákarlana? En þannig er kerfið. Það vita allir menn að það kann ekki góðri lukku að stýra, enda er eilífur ófriður og eilíf læti út af þessu þannig að menn geta varla setið saman til borðs, forustumenn annars vegar stórútgerðarinnar og hins vegar smábátamanna. Það sem verra er að þetta hefur síðan leitt til alls konar innbyrðis togstreitu og hagsmunaárekstra vegna þess að menn eru klofnir upp með reglubundnu millibili í nýja og nýja hópa sem hafa valið þetta eða valið hitt. Þetta er alveg ömurlegt. Ég býst við að ég sé ekki sá eini sem hafi lent í þeim aðstæðum að ætla að vera að reyna að ræða þetta á fundum í miðlungssjávarbyggð þar sem allir þessir hópar eru til staðar og það vita allir hvernig andrúmsloftið er. Er það ekki? Er það nokkurt leyndarmál? (GAK: Það verður allt vitlaust.) Það verður allt vitlaust. Það er ósköp eðlilegt því að þarna er um lífshagsmuni ... (Gripið fram í.) Nei, ég ætla ekki að segja að núv. hæstv. sjútvrh. beri þar einn alla sök. Það er fjarri því. Til þess hefur hann ekki verið svo lengi í embætti. En hann verður auðvitað að axla í auknum mæli vaxandi pólitíska ábyrgð á þessu kerfi eftir því sem hann setur það lengur á vetur og eftir því sem honum vinnst lítið við að laga það eða breyta því. (KPál: Hann hefur lagað það mikið.) Er það, hv. þm. Kristján Pálsson? Eru þetta svo stórfelldar lagfæringar sem hér er verið að gera? Er ekki nær að kalla þetta heftiplástur? Ég held það. Ég held að þetta sé miklu nær því að vera heftiplástur á opin sár heldur en ... (KPál: Fimm prósent hefðu verið til bóta.) Já, það er eitt atriði sem ég mun koma að á eftir og það eru þær tilraunir til meðaflareglu sem hér á að fara að gera og ég hef þegar hrósað í 1. umr. um þetta mál og ég skal nefna aðeins á eftir.

Ég ætla að segja um þetta að síðustu, þ.e. um samskipti smábátanna og stærri hluta flotans, að það sem ég held að sé algerlega ómögulegt hjá okkur Íslendingum og muni aldrei ganga og það hefur mér orðið betur og betur ljóst eftir því sem ég hef lengur fylgst með og hugsað um þessi mál, það er að skipta flotanum ekki eitthvað upp. Það er að láta sér detta þau ósköp í hug, ég segi nú eiginlega að detta það barbarí í hug að vera með þetta allt í einu kerfi, allt frá minnstu skeljum uppi í fjörum á grunnmiðum og út á ballarhaf þar sem risastórir verksmiðjutogarar með gloríur aftan í sér sem eru eins og sex Laugardalsvellir í flatarmál toga. Þannig er þetta. Ég þekki eiginlega enga þjóð í heiminum sem hefur látið sér detta þetta í hug. Færeyjamiðunum sem eru miklu minni en okkar er skipt þannig upp að það eru þrjár eða fjórar tegundir útgerðarflokka og það eru línur, tvær eða þrjár mismunandi línur sem stýra sókninni og togskipin eru meira og minna útlæg uppi á færeyska landgrunninu og net má ekki leggja fyrr en neðan við 120 faðma ef ég veit rétt. Grunnmiðin eru tekin frá fyrir króka og línu, snurvoð og dragnót bönnuð gott ef ekki er, nema þá í einhverjum afmörkuðum hólfum. Þeir fara því í þetta með miklu meiri við skulum segja nákvæmni, með miklu uppskiptari hætti. Síðan er það þannig sem er kannski af ástæðum sem ekki eiga að öllu leyti við hér hjá okkur, að verksmiðjuskipin þeirra eru alls ekki í færeyskri lögsögu. Þau verða að byggja útgerð sína alfarið á miðum á fjarlægari slóðum.

Ég held að þetta gangi ekki og í raun og veru ekki heldur að gera ekki greinarmun á nýtingu kvótans eða greinarmun á því hvaða veiðarfæri eru notuð og hvernig það er gert. Það er líka tóm vitleysa. Við eigum að taka upp einhvers konar nýtingarstuðla eins og eru í tillögum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um breytingar í sjávarútvegsmálum. Í raun og veru held ég að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hafi þróað frekari hugsun í þessum efnum þegar hann hefur verið að hreyfa hugmyndum um að nýting kvótans væri umreiknuð á grundvelli stærðarstuðla einnig. Við gætum t.d. hugsað okkur að þorskurinn væri flokkaður í þrennt eftir stærð og mönnum bæri að flokka hann á sjó og landa honum flokkuðum í stærðarflokka og nýting kvótans tæki mið af stærðarflokkuninni þannig að stærsti fiskurinn og verðmætasti vægi þyngst í nýtingu kvótans og sá minnsti lítið eða ekkert, t.d. þar sem undirmálið væri að koma að landi.

Með því gerbreyta menn á einu bretti stöðunni varðandi þennan háska núverandi ástands að menn sorteri aflann úti á sjó og freistist til að landa stærsta og verðmætasta fiskinum upp í kvótann. Með því gerbreyta menn þessari stöðu. Nú er það orðið almennt viðurkennt og því neitar enginn lengur að brottkast er stórfellt vandamál hjá okkur og að aflamarkskerfið sjálft vegna eðlis síns, ég held að mjög margir taki undir það líka þó að það sé kannski umdeildara, er þáttur í því. Það liggur í því eðli aflamarksins að sóknin er takmörkuð með mælingu á aflanum sem er kominn upp á bryggju og þar með er sá hvati þarna inni, þessi freisting skulum við kalla það. Það er bara þannig. Og ef menn þora ekki að reyna eitthvað til að takast á við þennan vanda, þá held ég að hann hljóti að fylgja mönnum inn í framtíðina svo lengi sem menn nota þá aðferð.

Það er að vissu leyti hárrétt og ber að þakka að loksins hefur rofað til og hér er flutt frv. af hæstv. sjútvrh. sem einhvern tíma hefði þótt saga til næsta bæjar þar sem lagt er til að reynd verði svokölluð meðaflaregla sem við erum mörg búin að berjast fyrir í ein 10--15 ár að yrði tekin upp eða reynt yrði að þróa og gerðar yrðu tilraunir með. Sá sem hér talar hefur flutt um þetta endurtekið bæði frumvörp og tillögur. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir hefur gert það og kom með þær hugmyndir fyrir margt löngu inn á þing og fleiri hafa lagt þar hönd á plóginn.

En það hefur tekið alveg ótrúlegan tíma satt best að segja þegar maður lítur til baka að fá menn til að opna fyrir þessa hugsun eins og það væri hundrað í hættunni að gera með þetta a.m.k. einhverjar takmarkaðar tilraunir og sjá hvernig það kæmi út, sjá hvernig sjómenn tækju þessu og hvort þeir yrðu ekki bara manna fegnastir að þarna opnaðist möguleiki til að skila að landi afla sem ella færi forgörðum og menn væru þar með að ganga betur um auðlindina, gætu gengið aðeins uppréttari, og leggja góðum málefnum lið. Það eina sem er öðruvísi í þessari reglu en það sem ég lagði til á sínum tíma var að ég vildi sjá slíkum ávinningi sem kæmi þarna að landi skipt kannski öðruvísi. Þó að hafrannsóknir eða starfsemi Hafrannsóknastofnunar sé góðra gjalda verð, þá held ég að mjög æskilegt hefði verið að t.d. sjómennirnir sjálfir hefðu átt þarna meiri feng í vændum, t.d. með greiðslum í lífeyrissjóð sinn, eins og er í brtt. hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar og fleiri. Ég held að það sé mjög góð hugsun að t.d. skipta þessu upp í tvennt milli hafrannsókna sem á auðvitað að taka til allra hafrannsókna þannig að þær geti unnið til hvers konar verkefna, jafnvel á vegum fleiri aðila en Hafrannsóknastofnunar einnar, við tökum sem dæmi veiðarfæratilraunir sem tengjast þannig rannsóknum hjá metnaðarfullum aðilum, og svo þá til Lífeyrissjóðs sjómanna og að áhöfnin sem slík fái einhvern hluta aflans. Ég held reyndar að áhöfnin ætti að fá allt eða svo til allt sem til útgerðarinnar fer þannig að hvatinn um borð sé fyrst og fremst hjá sjómönnunum að hirða aflann og skila honum í land á grundvelli þessarar meðaflareglu en viðleitni til að forðast að lenda í smáfiski eða öðrum aðstæðum væri til staðar hjá útgerðinni og þetta væri þannig að útgerðin hefði heldur óhagræði af þessu en sjómennirnir hagræði. Þá held ég að kæmi það jafnvægi að sjómennirnir mundu sjá til þess að þetta kæmi í land en útgerðin mundi reyna að forðast að lenda í svoleiðis fiskiríi. Þessi meðaflaregla er jákvæð, á því er enginn vafi og það verður auðvitað spennandi að sjá hvernig mönnum gengur að koma henni til framkvæmda og standa þannig að málum að hún nýtist og vonandi heppnist vel.

Um byggðarlögin, herra forseti, er auðvitað eðlilega rætt þegar að þessum málum kemur og það var sömuleiðis að mínu mati mikil ógæfa hversu sofandi menn voru á sínum tíma þegar kvótakerfið var tekið upp, líka þegar kvótinn var settur á smábátana og þeir teknir inn í takmarkanirnar á sínum tíma, hversu ótrúlega sofandi menn voru fyrir því hversu afdrifaríkt mál var þar á ferðinni fyrir sjávarbyggðirnar í landinu. Það var með ólíkindum hversu afskiptalitlir, svo ég segi ekki afskiptalausir forsvarsmenn þessara sjávarbyggða, Sambands sveitarfélaga og aðrir slíkir aðilar voru gagnvart þessum málum lengi vel sem er eiginlega alveg með ólíkindum þegar ljóst er að um sjálfan tilverugrundvöll þessara byggða er algerlega að ræða í stórum stíl. Auðvitað hefðu þessir aðilar þurft að blanda sér af miklu meiri þunga inn í þá umræðu strax í byrjun. Þeim er það kannski til vorkunnar mörgum hverjum að menn sáu þetta ekki fyrir, áttuðu sig ekki á því hversu afdrifaríkir hlutir voru þarna að gerast, enda voru menn með afsakanir um að þetta væri allt til bráðabirgða gert til eins árs, svo yrði þessu hent og guð má vita hvað. Allar hugmyndir um byggðatengingu réttindanna fengu þær móttökur hjá þeim sem voru að berja í gegn þetta kvótakerfi, ekki síst hjá hæstv. núv. utanrrh., þáv. hæstv. sjútvrh., Halldóri Ásgrímssyni, að þá var allt í einu algerlega óverjandi, óalandi og óferjandi að setja nokkur réttindi eða nokkurt vald í þessum efnum í hendur sveitarstjórnarmanna því að þeir áttu allir að vera svo gerspilltir og svo mikill klíkuskapur að þetta færi allt á frændur og vini í plássunum. Muna menn ekki eftir þessu? Slíkar ræður voru settar á til að berja niður allar hugmyndir um að þessi veiðiréttindi yrðu með einhverjum hætti byggðatengd eða einhver hluti þeirra á forræði sjávarbyggðanna í landinu.

Það er auðvitað stórfurðulegt, herra forseti, þegar við hugsum um þá skiptingu réttindanna sem auðvitað allir þessir stóru þátttakendur eða hagsmunaaðilar í og gagnvart sjávarútvegi á Íslandi komu að, þ.e. útgerðin í fyrsta lagi og sjómennirnir og skipin því að það verður náttúrlega lítið veitt án þeirra en líka fiskvinnslan í landi. Hvað gerði mögulegt að gera þessi verðmæti úr aflanum? Það var fiskvinnslan í landi að langstærstum hluta. Það var fiskverkafólkið í sjávarbyggðunum hringinn í kringum landið og það voru byggðarlögin sjálf með tilvist sinni, sveitarfélögin sem sáu um að þarna væru hafnir, þarna væri aðstaða o.s.frv. Hvers vegna í ósköpunum var þá ekki réttindunum þegar þau voru að koma til sögunnar útdeilt einhvern veginn þannig að allir þessir þátttakendur hefðu aðgöngumiða að leiknum? En það var ekki. Ég hef stundum líkt þessu við það að menn hefðu sest niður til að spila brids, og þá veit maður að hæstv. forsrh. leggur við eyrun, og það væri gefið þannig að öll háspilin væru fyrir fram sett á eina höndina og svo fengju hinir þrír spilamennirnir bara hunda. Þannig er þetta. Þannig verkar þetta kerfi með þessum afdrifaríku réttindum sem öll eru færð til útgerðarinnar. Menn geta auðvitað sagt: Hverjir áttu að fá þetta aðrir en útgerðin? Hverjir höfðu verið að veiða árin á undan kvótakerfinu? Rétt, útgerðarmennirnir. Þannig að því leyti til var aflareynslan og viðmiðunin sem tekin var gagnvart starfandi útgerðum 1983 sú eina sem hún gat orðið í sjálfu sér. En það er ekki þar með sagt að þau réttindi þyrftu að festast öll þar og verða síðan framseljanleg milli aðila þar án nokkurra tenginga eða nokkurrar stöðu annarra aðila sem sameiginlega höfðu byggt upp og skapað þann sjávarútveg sem við vorum með í höndunum á síðari hluta ársins 1983 þegar fyrstu og örlagaríkustu sporin voru tekin í þessum efnum.

[21:30]

Og enn er það svo, herra forseti, að ég trúi að það langvænlegasta sem menn gerðu í þessu sambandi --- og það geta menn gert m.a. með því að vinna sig í áföngum til baka og að einhverju leyti út úr þessu kerfi --- væri að tengja við byggðirnar á nýjan leik að einhverju leyti þessi réttindi, sérstaklega það sem væri þá nýtt af dagróðraflotanum ef það væri nýtt uppi á grunnslóðinni hringinn í kringum landið. Það stríðir í raun og veru gegn öllum eðlislögmálum, bæði náttúrulegum og félagslegum, að ekki skuli vera einhver tenging á milli byggðanna hringinn í kringum landið við sjávarsíðuna og nýtingar auðlindarinnar við bæjardyrnar hjá þeim inni á fjörðum og flóum. Þetta aflamarkskerfi í bolfiskveiðunum er algjörlega blint á slíkt og gerir þar engan einasta greinarmun á.

Það er meira að segja svo ótrúlegt, herra forseti, að við höfum verið að hrekjast út úr þó þeirri byggðatengingu eða svæðatengingu og skiptingu sem var við lýði í sjávarútveginum í ríkari mæli en nú er orðið. Þannig hefur t.d. staða byggða veikst gagnvart innfjarðastofnum. Það er ekki lengur löndunarskyldan sem var við lýði, t.d. gagnvart staðbundnum stofnum í rækju og jafnvel skelfiski og fleiru sem einu sinni var. Og við erum að fara þarna algjörlega í öfuga átt við eiginlega alla aðra því það hefur yfirleitt alls staðar verið talin niðurstaðan að frá félagslegum, byggðalegum, náttúrufræðilegum og líffræðilegum sjónarmiðum væri vænlegra að velja hinn kostinn út frá m.a. umgengni og stöðugleika og öðru slíku.

Herra forseti. Ég spái því að þangað til að menn ná að byggja inn í þetta kerfi breytingar af þessu tagi, að hólfa flotann upp, að tengja að einhverju leyti réttindin við byggðirnar og þar með skapa þeim öryggi og sæmilega stöðu í þessum efnum --- þó að auðvitað verði hlutirnir alltaf breytingum undirorpnir og verði að vera það --- verði þróunin neikvæð. Það er ekki þar með sagt að þetta þurfi að vera í svona villimannslegu fari í raun og veru eins og er hjá okkur, að hvorki hvað varðar stöðu einstakra aðila innan sjávarútvegsins né heldur stöðu byggðarlaganna gagnvart grunnnýtingarréttinum sé yfir höfuð boðið upp á nokkurt öryggi nema þessa grátlega litlu, mér liggur við að segja hlægilegu, heftiplástra sem menn eru hér með og að hluta til í þessu frv., örlitla potta til að deyfa sárustu höggin sem menn verða fyrir ef þeir missa allar veiðiheimildir burtu frá sér eins og raun ber vitni. Ég er þar að vísa til þess byggðakvóta sem er inni í aflamarkskerfinu á grundvelli bráðabirgðaákvæðis, 1.500 tonn ef ég man rétt, og svo þessara potta sem hér á að setja til handa bátum á krókaaflamarki sem eru frá sjávarbyggðum sem að verulegu leyti eru háðar veiðum slíkra báta.

Auðvitað er þetta hvort tveggja viðurkenning manna á því að staðan er náttúrlega svakaleg gagnvart þessum aðilum en hún er bara svo sorglega lítil, dregur svo skammt. Það má segja að þetta sé örlítil viðurkenning á því eða undansláttur frá því að horfast í augu við og láta afleiðingar hins markaðsvædda kerfis ganga alla leið á enda. Menn eru að gefa örlítið deyfilyf við því en kerfið heldur áfram og er á fullri ferð, samþjöppunin mikil og sumir spá því að þess sé ekki langt að bíða að svo til allar veiðiheimildir í aflamarkskerfinu verði komnar á hendur kannski milli fimm og tíu aðila, a.m.k. að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra verði þá búinn að safnast saman í nokkrum stórfyrirtækjum, jafnvel sumum eignalega tengdum. Sumir menn vilja ganga þessa götu hratt og alla leið og henda öllum takmörkunum sem nú eru á því að fyrirtæki geti safnað að sér veiðiheimildum endalaust og hálfur sjávarútvegurinn orðið ein samsteypa eða eitthvað því um líkt. Þar eru ákveðin mörk við eins og við þekkjum, í augnablikinu 8 eða 12% eftir atvikum.

Þá er staðan náttúrlega orðin sú að fyrst og fremst þau byggðarlög sem eru svo heppin að hafa höfuðstöðvar slíkra stórfyrirtækja verða ofan á og hin eiga allt sitt undir því hvort þau fá náðarsamlegast að vera einhver útibú, hjáleigur, frá þessum höfuðbólum eða jafnvel bara hreinlega þurrkast út. Ef til vill getur einhver hluti íbúanna þá áfram dregið fram lífið í kringum leifarnar af smábátaútgerðinni sem eftir verða á þeim stöðum.

Þannig er þetta á fullri ferð, herra forseti, sú er einfaldlega staðan. Og hvar er svo hæstv. byggðamálaráðherra sem er kannski sá ráðherra sem ætti að sitja hérna ekki síður undir allri umræðunni heldur en hæstv. sjútvrh.? Hvar er það sjónarmið, sú vídd, í þessu samhengi? Var það ekki í gær sem hér var hafin byggðaumræða? Farin var ein umferð og svo var henni frestað þangað til á næsta ári. Það er kannski lýsandi fyrir (Gripið fram í: Það er auðvitað lýsandi fyrir áhugann ...) lýsandi fyrir stöðu byggðamála á Íslandi í dag að ekki er fallist á tillögur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um að halda sérstakt byggðaþing í janúar sem hefði ekki verið vanþörf á.

Nei, hér er hafin byggðaumræða á grundvelli einhvers sem átti að heita ,,munnleg skýrsla`` hæstv. byggðamálaráðherra og svo er henni frestað þangað til einhvern tíma á næsta ári. Svona er þetta, herra forseti. Svo sjáum við auðvitað hvorki haus né sporð á þeim hæstv. ráðherra sem á að fara hér með byggðamál undir þessari umræðu. Hefði þó verið ærin ástæða til því að meira að segja forsvarsmenn þessa frv. viðurkenna í verki að það geti orðið ærnar búsifjar af þessum breytingum til handa þeim byggðarlögum sem hafa verið að reyna að bjarga sér á grundvelli þeirra möguleika sem þó stóðu enn þá opnir í þessu kerfi. Svo geta menn sett á mín vegna, herra forseti, alveg endalaus ræðuhöld um það að þessi hluti flotans hafi verið með einhverjum ósanngjörnum hætti að auka hlutdeild sína, ég er orðinn tiltölulega dofinn fyrir slíku.

Vita menn ekki og sjá menn ekki hvað hefur verið að gerast? Bæði einstaklingar, fjölskyldur og byggðarlög hafa verið að reyna að bjarga sér á grundvelli þeirra möguleika sem enn þá stóðu opnir í þessu kerfi. Það er alveg hárrétt að Vestfirðir hafa nokkra sérstöðu í þeim efnum enda veitir mönnum nú ekki af þar, eða hvað? Sjá menn ofsjónum yfir því þó að reynt sé að hlynna að Vestfjörðum sem eru það landsvæði sem hefur orðið fyrir langþyngstum búsifjum í byggðalegu tilliti á Íslandi undangengin ár og áratugi og farið harkalega illa út úr kvótakerfinu? Svo dapurlega er komið að þar eru sárafá útgerðarfyrirtæki eftir sem hægt er að segja að séu sæmilega öflug og ráði yfir einhverjum umtalsverðum veiðiheimildum. Þau hafa þar týnt tölunni hvert á fætur öðru og veiðiheimildir þeirra og sumpart verðmætin sem með þeim fylgdu hafa flust á brott í fjarlæg byggðarlög, norður í land eða suður með sjó. Þetta er bara staðreynd og hana verður að ræða eins og hún er. Það er ekki verið að væna einn eða neinn sem í þessu hefur verið þátttakandi um að gera eitt eða neitt sem ekki var samkvæmt lögum og reglum á hverjum tíma. Þetta eru viðskipti og allir eru að hugsa um sig og sinn hag og sín fyrirtæki. En leikreglurnar hafa boðið upp á svona hluti.

Alþingi og ríkisstjórn verða að horfast í augu við afleiðingarnar. Við erum ekki að sakfella neinn þó að við horfumst í augu við það sem hefur gerst. Staðreyndir málsins eru þær að Vestfjarðakjálkinn væri nánast í auðn hvað sjávarsíðuna snertir, að slepptum kannski þá Ísafirði og næsta nágrenni, ef ekki hefði komið til sú uppbygging í smábátaútgerðinni sem hefur í raun komið í staðinn og bjargað mörgum stöðum. Ég held að það sé t.d. alveg ljóst að á Suðureyri --- fyrir utan auðvitað ,,gatið`` eins og menn segja --- mundu menn ekki kemba hærurnar í dag ef ekki hefði orðið sú uppbygging í báta- og smábátaútgerð sem þar hefur komið í staðinn fyrir þá drift sem þar var á fyrri tíð.

Ég er sannfærður um það, herra forseti, að menn verða að finna einhverjar leiðir til að lagfæra þetta, flokka flotann upp og byggðatengja að einhverju leyti réttindin. Þá tel ég að sæmilegur friður geti vel skapast smátt og smátt um aflamarkskerfið, t.d. fyrir stærri skipin. Og það er alveg rétt, ég hef aldrei hafnað því að til frambúðar kunni eina færa leiðin til að hafa hemil á sókn stóru og öflugu skipanna að vera einhvers konar kvótakerfi --- vegna þess að ég held að hvorki efnahagslega né tæknilega sé í raun og veru raunhæft að reikna með því að sókn t.d. öflugra frystitogara eða fjölveiðiskipa verði takmörkuð öðruvísi. Ég held að það sé augljóslega bara svo efnahagslega óhagkvæmt að aldrei kæmi til greina að ætla að fara að takmarka sókn skipa sem kosta --- að svo miklu leyti sem þau eru og við viljum að þau verði hluti af okkar sjávarútvegi sem þau auðvitað eiga að vera --- að þau verði t.d. sett á sóknardaga og látin liggja bundin í tugi eða hundruð daga á ári. Í slíku er bara engin skynsemi þannig að þá yrði a.m.k. að vera hægt að hafa það kerfi framseljanlegt eða einhvern veginn leyfa mönnum að nýta þessi dýru og afkastamiklu tæki. Og auðvitað á alveg sama við um smábátana. Það er mjög bagalegt að geta ekki leyft mönnum að nýta fjárfestingar sínar.

Ég gæti vel séð fyrir mér að svona gæti sambúðin þróast og orðið skapleg. Ef menn hefðu svo borið gæfu til þess sem auðvitað var ekkert vandamál, sérstaklega framan af --- eða ef menn hefðu gert það um leið og verðmætin urðu framseljanleg, ígildi þeirra verðmæta sem fólgið var í afnotaréttinum --- að gera það sérstakt skattandlag og taka út hagnað sem kynni að myndast vegna viðskipta með afnotaréttinn --- sem aldrei átti neinn að verða því þetta er fiskveiðistjórnarkerfi en ekki gullgerðarvél fyrir einhverja tiltekna einstaklinga --- held ég að um þetta hefði getað orðið þokkaleg sátt. En hún er ekki til staðar og það sem er kannski allra verst, herra forseti, er að hún er ekki í sjónmáli.

Þá kem ég að því sem ég ætla aðeins að nefna hér undir lokin og það er blessuð sáttanefndin og staða þeirra mála almennt. Þar bólar ekki á neinu enn þá. Að vísu var hæstv. sjútvrh. að lýsa einhverjum vonum sínum um að koma einhverju fram á þessu þingi ef ég tók rétt eftir hér fyrr í umræðunni í dag. Og ég segi nú bara: Mikil er trú þín, hæstv. sjútvrh., og það er auðvitað nauðsynlegt að trúa á það sem menn eru að reyna að gera en einhvern veginn hef ég ekki þá tilfinningu að mjög byrlega blási með þetta.

Það vekur líka athygli mína, herra forseti, þegar ég skoða nál. meiri hlutans í þessu máli að í raun og veru stendur bara helmingurinn af ríkisstjórninni á bak við það. Það er afar athyglisvert eftir allt sem á undan er gengið í þessum málum að þetta skuli í raun og veru bara vera nál. Sjálfstfl. Hv. þm. Hjálmar Árnason úr Framsfl. á Suðurnesjum --- sem einu sinni ætlaði að færa mikinn kvóta yfir á bátaflotann á Suðurnesjum eins og menn muna en á því hefur orðið einhver töf --- skrifar hér undir með fyrirvara. Kannski lýtur fyrirvari Hjálmars Árnasonar að því að hann á enn eftir að koma þessu skitiríi í verk sem hann lofaði fyrir kosningarnar hérna um árið --- var það ekki að stórauka veiðiheimildir báta?

Enn þá athyglisverðara er að enginn annar en sjálfur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi afgreiðslu málsins þannig að við vöðum alveg í villu og svíma og þoku um það hvar hann kann að skjóta upp kollinum í þessu máli. Það má sem sagt segja að kannski hálfur framsóknarmaður sé á nál. með þingmönnum Sjálfstfl., þ.e. hv. þm. Hjálmar Árnason með fyrirvara. (Gripið fram í.) Það er ekki beysin útkoma finnst mér hjá hæstv. sjútvrh. að hann skuli lemjast í gegnum þingið með stjórnarfrv., og stuðningurinn er sá að þingmenn Sjálfstfl. í sjútvn. og hálfur framsóknarmaður standa að nál. meiri hlutans. Ef annað verður eftir þessu er ekki von á góðu, herra forseti, þannig að ekki blæs byrlega í þessum efnum.

[21:45]

Svo er það rétt eins og til að passa að rjúfa ekki hefðina --- ég veit ekki nákvæmlega hvenær það varð fyrst hljóðbært --- að koma eigi með málefni dagabátanna hingað inn í febrúar kannski. Ha? Herra forseti, hvers konar bútasaumur er þetta? Já, þá er skilinn eftir einn lítill hópur af smábátaflotanum og verið að vandræðast með það mál einhvers staðar. Ekki var hægt að koma því fyrir hér inni í þessu máli heldur er boðað að á því verði tekið í febrúar. Eða hvað? Eftir áramót, er það ekki? Herra forseti, þetta er í raun og veru allt eins vandræðalegt og það mögulega getur verið.

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að öll staða þessara mála, bæði hvað varðar málefni þessa hluta smábátaflotans og sjávarútvegsmálanna almennt og það hvar menn eru á vegi staddir til að ná einhverju landi í þessum efnum, er manni auðvitað mikið áhyggjuefni. Þetta eru mikil vonbrigði. Kannski má þó segja, til að reynt sé að ljúka þessu á jákvæðum nótum, að sumpart hafi starfið í svokallaðri sáttanefnd sjútvrh. verið gagnlegt og skýrt málin. Ég tel t.d. tvímælalaust feng að þeim tillögum sem þar litu dagsins ljós og ýmsu sem í almennri umfjöllun nefndarinnar er að finna, í skýrslunum þar. Oft getur verið gagn að svona göngum þó að menn lendi svo í því að draga engar skynsamlegar ályktanir af þeim og komast ekki að neinni samkomulagsniðurstöðu.

Þannig fór t.d. fyrir skýrslu hinnar frægu tvíhöfða nefndar. Hún var alveg hið merkasta plagg vegna þeirra upplýsinga sem þar voru dregnar saman um sjávarútvegsmál, bæði vegna sögulegrar upprifjunar og gagna sem var aflað erlendis frá þannig að hún var, og er enn, ágæt lesning fyrir þá sem vilja fara yfir þann bakgrunn málsins. Að hluta til má segja svipað um skýrslur auðlindanefndarinnar og síðan sáttanefndarinnar, plöggin eru í sjálfu sér ágæt en vandinn er sá að enginn botn er í málinu. Menn komast ekki að neinni skynsamlegri niðurstöðu sem byggði þá á reifuninni sem þarna er að finna. Hún er enn úti í hafsauga.

Ég tel hins vegar að í tillögum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, sem að uppistöðu til voru efni sérálits fulltrúa okkar í sáttanefndinni, sé auðvitað fyrst og fremst að finna mjög góðan samkomulagsgrundvöll til að gera þarna breytingar, vinna sig hægt og rólega og í áföngum út úr núverandi ástandi á þann hátt að það valdi engum kollsteypum. Ákveðinn samhljómur hefur komið fram sem gæti bent til þess að meiri hluta væri hægt að skapa hér á Alþingi fyrir ákveðinni fyrningarleið, blandaðri leið einhvers konar afnotasamninga og fyrningar, þar sem menn gerðu grundvallarbreytingar á þessu kerfi en gerðu þær yfirvegað, héldu jafnvel að einhverju leyti áfram ígildi núverandi fyrirkomulags í gegnum afnotasamninga sem útgerðinni stæði til boða að gera en síðan kæmu aðrir aðilar inn í myndina, leigumarkaður að einhverju leyti, byggðarlögin að einhverju leyti eða eitthvað í þeim dúr.

Ég er alveg viss um að slíkar leiðir er hægt að fara. Þær eru bæði tæknilega finnanlegar, þær er hægt að útfæra og þær geta prýðilega gert sig þannig að sjávarútvegurinn búi við ágætlega stöðug skilyrði. Þetta gerist án nokkurra kollsteypna en eitt náttúrlega má ekki vanta, viljann. Þetta er allt saman gjörsamlega vonlaust ef viljann vantar. Það er alveg ljóst. Meðan menn ná að berja saman meiri hluta fyrir varðstöðu um algjörlega óbreytt kerfi í grundvallaratriðum, að ég tali ekki um að súrra það jafnvel enn þá fastar en það hefur hingað til verið með því að taka smábátaflotann að verulegu leyti inn í það, er náttúrlega ekki von á góðu.

Í raun og veru, herra forseti, er þetta eins og sagt hefur verið hér áður og stundum í frægum ræðum: Vilji er allt sem þarf. Það er þannig.