Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 21:51:36 (3114)

2001-12-12 21:51:36# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[21:51]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé með mig, vonandi eins og mjög marga fleiri, að viðhorf mín hafa auðvitað þróast og tekið mið af því sem augu mín sjá og eyru mín heyra. Ég er ekkert statískt fyrirbæri í þessari umræðu frekar en neinn annar þannig að ég ætla ekki að halda því fram að það megi ekki alveg merkja einhverjar áherslubreytingar hjá mér eins og öðrum, sem betur fer eru augu manns opin og maður tekur eftir því sem gerist í kringum sig.

Ég held hins vegar að ég hafi ekki tekið neinar kollsteypur í þessum málum og það eru engin slík vatnaskil í mínum viðhorfum til þessara hluta einmitt núna, eins og mér fannst hæstv. sjútvrh. vera að reyna að lesa inn í orð mín. Ég hef hvorki verið einhver órofa stuðningsmaður kvótakerfis né er ég orðinn algjör andstæðingur þess. Mín afstaða til þess hefur lengi verið býsna blönduð og ég vona að hæstv. sjútvrh. hafi heyrt mig segja það hér áðan að ég væri enn þeirrar skoðunar að að mörgu leyti væri vandséð að nokkuð annað en einhvers konar kvótakerfi, aflamarkskerfi, gæti stjórnað sókninni hjá stóru og afkastamiklu skipunum. Ég hef mjög lengi áskilið mér allan rétt til að glíma við að útfæra öðruvísi kerfi fyrir t.d. smábátana og jafnvel grunnslóðarflotann sem a.m.k. væri opnara og sveigjanlegra. Ég held að niðurreyrt kvótakerfi í einstaka tegundum henti mjög illa þeirri sókn sem þar fer fram og sé í raun og veru óþarft. Ég held að það geri ekki nokkurn skapaðan hlut til þótt einhver meðafli slæðist með á einhverjum mánuðum ársins hjá trillum sem eru fyrst og fremst að sækja í þorsk og væru kannski bundnar af þaki í þeirri tegund.

Ég lít frekar á þetta svona sem spurningu um almenn viðhorf sem eiga sér langa sögu að því leyti að ég hef verið gagnrýninn á mjög margt, eins og hæstv. ráðherra benti á. Það er auðvitað alveg rétt að fyrir mig persónulega var það afdrifaríkur hlutur sem gerðist 1990 þegar ég bar pólitíska ábyrgð á því kerfi sem þá var sett á vetur. Síðan fóru menn með það með tilteknum hætti og ég get svo sem sagt, og staðið við það, að menn launuðu það illa sem þá var gert.