Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 22:03:08 (3120)

2001-12-12 22:03:08# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[22:03]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla bara að vona varðandi Hæstarétt að menn taki þá eftirleiðis svona mikið mark á öðrum dómum hans. Það var ekki gert þegar öryrkjadómurinn átti í hlut. Þá þurfti ekki að fara bókstaflega eftir dómum Hæstaréttar en nú virðist hæstv. viðskrh. og byggðamálaráðherra trúa því að hún sé dæmd til að standa hér að óbreyttu kvótakerfi um aldur og ævi, ad infinitum. Það væru mikil tíðindi. (Gripið fram í: Ekki ef hún er að því nauðug.) Já, svo er spurning hvort henni er þetta eins ljúft og hún lætur.

Varðandi byggðapottinn þá nefndi ég hann hér til sögunnar vegna þess að ég tel að hann hafi nánast verið svik. Það voru nánast svik við þá sem studdu málamiðlunina 1990, á grundvelli þess að þessi byggðapottur var settur þar inn. Ég get upplýst að ég tel að ég hafi átt minn þátt í að berja það inn í lögin að heimildir væru til ókeypis úthlutunar. Eins og lögin voru endanlega frágengin vorið 1990 kom inn ákvæði um að það væri hægt, ef ekki væru aðrir möguleikar, að úthluta án endurgjalds. Það hefði auðvitað átt að gera gagnvart Bíldudal á sínum tíma. Þá voru hins vegar aðrir menn farnir að véla um og sett var reglugerð sem í raun ónýtti þennan möguleika.

Eins og hv. þm. bendir á hefðu menn þá átt að fara að leigja veiðiheimildirnar út úr þessum potti á fullu markaðsverði. Þar með var þetta orðinn brandari, bara della. Því er vart hægt að draga aðra ályktun af þessu en að þetta hafi verið eyðilagt vísvitandi. Ég tel raunar að það hafi á löngum köflum verið þannig að ýmsir aðilar hafi vísvitandi reynt að spilla því sem reynt var að gera til að breyta þessu kerfi og þróa það eitthvað. Það var eins og menn hefðu tekið þá stóradómsákvörðun að kerfið skyldi varið óbreytt. Atburðir af þessu tagi í sögunni hníga í þessa átt.