Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 22:43:10 (3126)

2001-12-12 22:43:10# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[22:43]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Enn einu sinni ræðum við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Frumvarp um breytingar á stjórn fiskveiða er fastur gestur hér í þinginu á hverju einasta ári. Við erum að breyta þessu lögum á hverju einasta þingi og stundum oftar en einu sinni. Eins og alltaf er þegar slíkt frv. rekur á fjörur okkar verða hér miklar umræður, langar og strangar eins og hefur orðið bæði við 1. og 2. umr. um þetta frv. Það er náttúrlega ósköp eðlilegt. Við erum að ræða um stjórn fiskveiða og fiskveiðarnar eru undirstöðuatvinnuvegur okkar sem við byggjum afkomu okkar á og eðlilegt að hv. þingmenn sýni frv. um stjórn fiskveiðanna mikinn áhuga og hafi á því skoðanir. Eins og hér kemur jafnan fram, þegar slík frumvörp eru til umræðu, eru skoðanir skiptar, sitt sýnist hverjum og menn vilja standa að stjórn veiðanna með mismunandi hætti og það er ekkert nema allt gott um það að segja að menn hafi skiptar skoðanir á því.

Frumvarpið sem nú er til umræðu er sett fram til að milda afleiðingar kvótasetningar smábátanna 1. september sl. Sú kvótasetning hafði mikil áhrif á veiðar krókabátanna, einkum þorskaflahámarksbátanna og hér er þessum bátum að hluta til bætt upp það sem þeir hafa misst sem var auðvitað alveg óhjákvæmilegt því að sá floti var að missa mjög miklar veiðiheimildir. Það er nú einu sinni svo að heilu byggðarlögin byggja afkomu sína á útgerð þessara báta og þess vegna var að mínu áliti nauðsynlegt að bregðast við og gera eitthvað fyrir þennan flota.

[22:45]

Það sem ég finn helst að og er kannski ekki alveg sammála varðandi það hvernig staðið er að þessu er að í leiðinni er minnkað við hjá aflamarksbátunum. Með sama hætti og þorskaflahámarksbátarnir eru undirstaða atvinnulífsins í vissum byggðarlögum þá er svo einnig með aflamarksbátana og aflamarksskipin. Útgerðir þeirra bera uppi önnur byggðarlög og við höfum heyrt hörð viðbrögð frá verstöðvum eins og t.d. Vestmannaeyjum. Vestmannaeyingar telja sig munu missa verulegar heimildir við þessar breytingar og ekkert óeðlilegt að menn séu ósáttir við það. Hafa ber í huga að í aflamarkskerfinu er töluverður fjöldi af trillum, sömu gerðar og sömu stærðar og þær trillur sem eru í hinu kerfinu sem við erum að bæta upp með þessari breytingu. Útgerðarmenn á þessum litlu trillum hafa setið eftir, tapað heimildum og þurft að kaupa til sín heimildir en samt hafa þær verið jafnvel að minnka ár frá ári á sama tíma og þeir hafa horft upp á menn í hinu kerfinu veiða tvisvar, þrisvar, fjórum sinnum, tíu sinnum og jafnvel tuttugu sinnum meira en þeir.

Mér verður oft hugsað til gamals nágranna míns. Við ólumst upp á sömu torfunni við sömu fjöruna og byrjuðum sem strákar að róa til fiskjar á skektum feðra okkar. Hann lagði þetta síðan fyrir sig. Hann hafði þetta reyndar lengi sem aukabúgrein með annarri vinnu en hefur nú um langt árabil stundað þetta alfarið. Hann var svo óheppinn að velja aflamarkskerfið og þrátt fyrir að hafa keypt eitthvað í gegnum tíðina hefur hann núna leyfi til að veiða sem svarar 32 þorskígildum. Það er náttúrlega afskaplega erfitt að útskýra það fyrir mönnum í þeirri stöðu af hverju eigi að taka af þeim til að bæta upp öðrum sem orðið hafa fyrir skerðingu, öðrum sem jafnvel hafa verið að veiða margfalt meira en þeir sjálfir.

Þess vegna hef ég hallast að því og rætt það við hæstv. sjútvrh. nokkrum sinnum að ég hefði viljað gera þetta með öðrum hætti. Ég ætla að leyfa mér að vitna hér í blað Landssambands ísl. útvegsmanna sem heitir Útvegurinn og kom út í ágúst sl. Í því blaði er að öllu jöfnu ekki fjallað af sérstökum hlýleika um trillukarla en í þessu tölublaði er viðtal við þann ágæta útgerðarmann Ólaf Rögnvaldsson á Hellissandi sem þekkir flestum betur til þessara mála, alinn upp við útgerð, fiskverkun og fiskvinnslu og rekur þar myndarlegt fyrirtæki, frystihús og tvo öfluga vertíðarbáta. Hann er einmitt spurður um þetta, hvernig eigi að fara með trillurnar og þetta endalausa ágreiningsmál sem þarna er á milli útgerðarkerfa.

Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Það er ekki hægt að skerða okkur ár eftir ár út af smábátakerfinu. Það gengur ekki upp. Það er búið að taka gríðarlega mikið af þessum tveimur bátum sem við gerum út og í þorski eru það 350 til 400 tonn. Það verður að stoppa þetta af. Það eru margir trillukarlar hér sem eru hlynntir því að loka kerfinu og svo eru aðrir sem vilja hafa þetta opið áfram. Þeir hafa verið að kaupa báta í gríð og erg og treysta því að þetta verði frjálst og verðið á aflaheimildum og bátum hefur rokið upp. Það er ekki það sem við þurfum á að halda.``

Blaðamaður spyr: ,,Hver er lausnin að þínu mati?`` Þá svarar þessi ágæti útgerðarmaður, með leyfi forseta:

,,Ég held að eina leiðin til þess að ná sáttum um þessi mál sé sú að ráðuneytið gefi út auknar aflaheimildir til handa þessum smábátum og loki síðan kerfinu. Þá er ekkert tekið af okkur, okkar heimildir verða ekki skertar.

En hvað með fiskverndarsjónarmiðin?

Ég held að nokkur þúsund tonn til eða frá skipti engu máli, sagði Ólafur.``

Undir þetta tek ég. Nokkur þúsund tonn til eða frá, til þessara trilluhorna, skipta ekki grundvallarmáli. Ég tel að þau vísindi sem fiskveiðistjórn okkar byggist á séu ekki það nákvæm að einhver þúsund tonna í trillurnar til eða frá skipti öllu máli. Ég minni á þá umræðu sem hér kemur upp aftur og aftur, um að þúsundum og jafnvel tugum þúsunda tonna sé kastað í sjóinn á hverju ári. Stjórn okkar á þessu er nú ekki nákvæmari en svo. Ég hefði viljað gera þetta með þessum hætti, þá hefðu allir haldið haus og allir verið bærilega sáttir.

En hæstv. sjútvrh. hefur lýst því yfir að aflamarksbátunum verði bætt upp skerðing ársins og kannski eitthvað betur. Það tel ég afar mikilvægt þannig að menn haldi sínu. Hlutdeildin verður að vísu skert en ef það verður bætt upp með öflugri úthlutun á ýsu, eins og hæstv. ráðherra hefur boðað, þá tel ég það viðunandi niðurstöðu.

Annan hóp langaði mig aðeins að nefna í leiðinni. Það eru dagabátarnir, þessir bátar sem nú mega veiða 21 dag á ári. Þeim dögum hefur aðeins verið að fækka. Ég tel að þar þurfi að setja gólf, sem sagt að koma því á hreint að þessir bátar fari ekki neðar en orðið er. Ef þeir fara mikið neðar er grundvöllur þeirra veiða gjörsamlega brostinn. Við þessa útgerð starfar stór hópur manna sem yrði sleginn af ef þessum dögum fækkaði eitthvað að ráði.

Þess vegna er ég mjög ánægður með það sem kemur hér fram í nál. meiri hluta sjútvn. þar sem segir, með leyfi forseti:

,,Má í því sambandi sérstaklega nefna málefni svokallaðra dagabáta. Þótt ekki hafi unnist tími til að undirbúa það mál nú telur meiri hlutinn óhjákvæmilegt að lagfæra rekstrarumhverfi þess bátaflokks á þessum vetri og mun beita sér fyrir því að frumvarp þess efnis verði lagt fram á Alþingi fyrir 1. febrúar nk. Einkanlega bendir meiri hlutinn á þrjú atriði í því sambandi: lágmarkssóknardagafjölda, hvort eðlilegt sé að sóknareiningar bátanna séu mældar í klukkustundum í stað daga eins og nú er gert og loks þarf að skoða betur forsendur framsalsins, t.d. er varðar nýtingu daganna.``

Mér finnst þetta mjög mikilvæg yfirlýsing. Ég treysti þeim sem í nefndinni sitja til að fylgja þessu fast eftir, að það komi hér frumvarp strax eftir að þing kemur saman á nýju ári og að við ljúkum þessu máli á vorþingi. Ég held að við komumst ekkert hjá því og ég er sérlega ánægður með að þetta skuli sagt hér í nál. með svo afgerandi hætti.

Reyndar er hér tekinn fyrir annar floti --- þetta eru svo mörg kerfi að maður má hafa sig allan við að fylgjast með því öllu saman --- þessir 80 bátar sem á síðasta fiskveiðiári höfðu veiðileyfi sem heimilaði þeim veiðar tiltekinn fjölda sóknardaga með föstu þorskaflahámarki sem stundum hafa verið kallaðir ,,þakbátar``. Í þessu frv. er þeim leyft að velja veiðileyfi með dagatakmörkunum, þ.e. þeir geta farið inn í dagapottinn ef þeir tilkynna það fyrir 1. feb. Þetta held ég að hafi verið mjög nauðsynleg breyting vegna þess að eins og málið horfði í haust voru þessir bátar nánast slegnir af. Þeir áttu að fá örfá tonn í úthlutun og voru í raun dauðadæmdir. Ég tel þetta aftur á móti ágæta niðurstöðu sem við getum bærilega sætt okkur við.

Eitt atriði í frv. hef ég örlitlar efasemdir um og það er hérna í 3. gr. þess þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Á hverju fiskveiðiári er sjávarútvegsráðherra heimilt að úthluta til árs í senn samtals allt að 1.000 lestum af ýsu, 1.000 lestum af steinbít og 300 lestum af ufsa til krókaaflamarksbáta sem gerðir eru út frá sjávarbyggðum sem að verulegu leyti eru háðar veiðum krókaaflamarksbáta. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.``

Út af fyrir sig er ég alveg sammála þessu. Ég veit að þetta mun koma sér vel en ég óttast að ráðherra geti lent í erfiðleikum með að úthluta þessu. Ég hefði viljað heyra frá honum, ef hann væri hér enn þá, hvernig hann sér fyrir sér þessa úthlutun. Ég er bara að hugsa til byggðakvótans svokallaða sem við settum á hér fyrir nokkrum árum og Byggðastofnun fékk þann kaleik, að úthluta þeim potti. Við vitum það öll að það hefur valdið miklum titringi og óánægju þegar slík úthlutun fer fram. Það eru alltaf einhverjir sem telja sig afskipta. Þess vegna held ég að orðið geti dálítið vandmeðfarið að úthluta þessu svo vel fari.

Ég held reyndar og hef sagt það áður að við séum með allt of mörg kerfi í gangi fyrir smábátana. Það er alveg út í hött að hafa haug af kerfum fyrir nokkur hundruð smábáta sem eru flestir svipaðrar gerðar. Auðvitað væri eðlilegast að allur þessi floti væri bara með eitt stjórnkerfi. Þá þyrfti ekki að vera að hræra með þetta fram og aftur og aftur og fram, taka af einum til að afhenda öðrum og endalaust að hræra í þessu. Ég held að það hljóti að vera markmiðið. Ég veit að sjálfsagt verður erfitt að koma því á. Enginn vill missa neitt og menn eru hræddir við breytingar en ég held samt að þetta hljóti að vera það sem við stefnum að.

Hv. þm. Kristján Pálsson sagði við umræðurnar í kvöld að hann teldi nauðsynlegt að hafa framsal milli báta og framsal milli kerfa. Ég er algjörlega ósammála þessu. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að kvótinn eigi ekki að vera verslunarvara. Ég tel að hann eigi að vera til hagræðis, menn eiga að geta fært hann á milli eigin báta, geta skipt á tegundum með jöfnum skiptum til að nýta og hagræða í útgerðinni en ekki að versla með þetta. Það er sannfæring mín að það sé rangt.

Hv. þm. sagði líka að sumir þingmenn létu að því liggja að framsalið væri aðferð til að ná sér í auðfengið fé. Ég segi nú bara: Það skyldi nú vera. Skyldi það nú ekki vera í einhverjum tilfellum að menn hafi notað kvótabraskið til að ná sér í auðfengið fé? Ég hygg að allir sem hér sitja þekki dæmi til þess. Ég er því ósammála mínum ágæta flokksbróður hvað þetta varðar, framsalið.

Hv. þm. Karl Matthíasson fór háðulegum orðum um afstöðu okkar sjálfstæðismanna til sjávarútvegsmála. Hann fann okkur flest til foráttu, það væri annað hjá Samfylkingunni þar sem allt væri blúndulagt. Hv. þm. er því miður farinn. Ég hefði viljað minna hann á það að fyrir síðustu þingkosningar man ég ekki betur en Samfylkingin hafi boðað auðlindagjald. Talsmenn þess ágæta flokks töluðu um milljarðatekjur af auðlindagjaldi. Sá brattasti sem ég man eftir talaði um 20 eða 30 milljarða og það mætti leggja af tekjuskatt einstaklinganna á móti. (EKG: 60 milljarðar.) Já, en síðan var nú farið að benda þessum ágæta manni og fleirum á að þetta mundi þýða hrun landsbyggðarinnar og hrun útgerðarinnar í landinu sem væri nú undirstöðuatvinnuvegur okkar. Þetta smádofnaði svo fram að kosningum og endaði í einhverjum milljörðum. En nú talar Samfylkingin ekki um þetta lengur. Nú heitir það fyrningarleið og maður spyr bara: Hvað kemur næst? En þetta ræði ég við minn ágæta félaga, hv. þm. Karl V. Matthíasson, næst þegar við hittumst.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa hér lengra mál. Ég tel óhjákvæmilegt að milda afleiðingar kvótaskerðingarinnar 1. sept. Ég tel að formaður sjútvn., hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, hafi unnið vel úr þessu máli og þetta sé allviðunandi niðurstaða. Þetta leit ekki vel út í haust en ég tel að málið hafi batnað mjög í meðförum þingsins.

Þess vegna mun ég styðja þetta frv. þó að ég hefði viljað gera þetta með öðrum hætti eins og ég hef nú gert grein fyrir.